Són - 01.01.2015, Síða 155
tvær skáldkonur 153
sem fæddar eru fyrir 1895, sumar nærri miðri öldinni, og fengust við
ljóðagerð í upphafi tuttugustu aldar en fengu ekki ljóð sín á bók fyrr
en eftir 1925. Ætla má að fjórar þeirra, fæddar á árunum 1891 til 1893
og gerðu sig síðar gildandi á skáldabekknum, hafi verið að stíga fyrstu
skrefin í ljóðagerð sinni í kringum 1915 þótt fyrstu ljóðabækur þeirra
kæmu ekki út fyrr en talsvert síðar. Þeirra á meðal eru skáldkonurnar
Sigríður Einars frá Munaðarnesi (1893−1973; Kveður í runni, 1930) og
Erla (Guðfinna Þorsteinsdóttir, 1891−1972; Hélublóm, 1937).
Helga Pálsdóttir á Grjótá
Áhugi Helgu Pálsdóttur á kveðskap kviknaði snemma og Þórður
Tómasson segir að þrátt fyrir kröpp kjör í uppvextinum hafi hún alist
upp við góða heimilismenningu og trúrækni en skólagöngu naut hún
einungis í skamman tíma um fermingaraldur. Eins og fleiri skáldkonur
sem uxu úr grasi um aldamótin 1900 dáði hún Þorstein Erlingsson og
ljóð hans. En hún var einnig handgengin rímnakveðskap og Þórður segir
Helgu hafa haft fagra söngrödd og kveðið rímur kvenna best. Helga
bjó alla sína ævi í Fljótshlíðinni og að sögn Þórðar tóku Fljótshlíðingar
henni snemma sem sínu sveitaskáldi og leituðu til hennar þegar sorgin
kvaddi dyra eða stórir viðburðir urðu í lífi þeirra (bls. 159−161).
Uppistaðan í ljóðasafni Helgu eru minninga- og erfiljóð og heitur
trúarstrengur liggur í gegnum allan hennar kveðskap. Harpa Rún
Kristjánsdóttir segir í inngangsorðum sínum að ljóðlistin hafi fyrst og
fremst gegnt hlutverki nytjalistar í lífi Helgu og fyrir utan erfiljóðin hafi
hún einkum ort ljóðabréf og tækifæriskvæði. Hún segir: „Kvæðin segja
sögu fólks, fréttir, hafa erindi eða fagna ákveðnu tilefni. Inn á milli má
þó finna kvæði, eða jafnvel stakar vísur innan lengri ljóðaflokka, þar sem
greina má enduróm drauma hennar og væntinga“ (bls. 13). Gott dæmi af
því tagi er eftirfarandi ljóð:
Þráin
Væri ég fugl ég fljúga skyldi
um fjalla heiðblá salatjöld,
endurvekja ást ég vildi
:,: um yndisfagurt vetrarkvöld :,:
mig vefja fast að vænum hlyni
er veitir yndi, fjör og þrótt,
ef þann mætti eiga að vini
er um ég hugsa dag og nótt.