Són - 01.01.2015, Page 168
166 Helgi skúli kjArtAnsson:
Þarna er sama hrynjandi í lokahendingunni: KVAÐ HELD-urð-u, TA-
TA-ti-ti. Nema lesið sé KVAÐ hel-DUR-ðu MA-ður, sem varla getur
talist fimlega kveðið.
Ég hafði víst varla hugsað um þessar vísur áratugum saman þegar ég
fór að taka eftir áþekkri hrynjandi í einstaka vísu sem ég heyrði eða rakst
á. Mest í óformlegum lausavísum, fannst mér.
Þangað til það rann upp fyrir mér að þetta er rétt eins og tíðkaðist
svo mjög í miðaldakveðskap. Að vísuorðið byrji stundum eins og tveir
venjulegir bragliðir: TA-ti|TA-ti, en iðulega líka á tveimur risatkvæðum
og svo tveimur léttari, eins og TA-TA-ti-ti.
Skafl beygjattu skalli
kvað Þórir jökull á höggstokknum. Og aðrir sömuleiðis, hvort sem þeir
ortu undir dróttkvæðum hætti eða hrynhendum, Liljulaginu. Sjálf Lilja
er full af dæmum um þetta:
Rödd engilsins kvenmann kvaddi
Sonr Máríu, sonr inn dýri
o.s.frv. o.s.frv.
Nú er að því leyti ólíku saman að jafna að forn bragur er ekki endilega
gerður af reglulegum bragliðum, þess konar sem síðar urðu alls ráðandi.
Í Liljulaginu er það til dæmis aðeins seinni hluti vísuorðsins sem alltaf
endar á réttum tvílið og helst tveimur. Fyrri helmingurinn er annars
eðlis, rétt eins og í dróttkvæða hættinum.
Það lærði ég fyrir löngu, hitt ekki að þetta „annað eðli“ færðist að
nokkru yfir á nýju bragarhættina, ekki síst sjálfa rímnahættina. Fyrir
því veit ég skýrasta grein gerða í doktorsritgerð Hauks Þorgeirssonar,
Hljóðkerfi og bragkerfi, frá 2013 þar sem hann sýnir (bls. 116–118) rösk 20
dæmi um þess konar braglínur í miðaldarímum:
Frakklandi réð fylkir ríkr
Björn stallari bystr og reiðr
Ásgarður hét ágæt höll
og annað ámóta. Við sjáum að þetta fellur ekki undir „viðsnúna bragliði“
þar sem víxlað er léttu og þungu atkvæði í sama braglið (nú andar suðrið
verður að heilsaðu einkum). Heldur er eins og tveimur bragliðum sé
blandað saman, byrjað á risatkvæðunum úr þeim báðum og hnigatkvæð-
unum hnýtt þar við.