Són - 01.01.2015, Page 172
ljóð 170
Fyrri sonnettan, sem hér birtist, er umritun á dægurlagatexta sem
mörgum Íslendingum er kunnur. Lag Eyjólfs Kristjánssonar, DRAUMUR
UM NÍNU, var framlag Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva
1991. Textinn hefst á orðunum „Núna ertu hjá mér, Nína. Strýkur mér um
vangann, Nína. Ó halt'í höndina á mér, Nína,“ o.s.frv. Viðlagið kunna
margir eflaust utan að: „Þegar þú í draumum mínum birtist allt er ljúft og
gott. Og ég vildi'ég gæti sofið heila öld. Því að nóttin veitir aðeins skamma
stund með þér. Er ég vakna — Nína, þú ert ekki lengur hér. Opna augun
— enginn strýkur blítt um vanga mér“. Efni textans er þannig strangt til
tekið ekki svo órafjarri algengum yrkisefnum sonnettuskálda fyrri tíma,
og hreint ekki illa til endurvinnslunnar fallið.
Nú breiðist kyrrð um rökkurgráa grund,
þú gægist fram á ný er sofnar drótt
og hóglát leggur þína mjúku mund
í mína greip sem lykst um hana hljótt
þú sefar dýpstu hryggð og líknar lund
er lófa strýkur mjer um vangann rótt
en dokar aðeins unaðsskamman blund.
Ó, yrðu dagar lífs míns samfelld nótt!
Því kvöl er mjer hver váleg vökustund,
og verðlaust hjóm er sólbjört dagsins gnótt!
Því sjerhver morgunn opnar nýja und
og yndi draumsins hrífur burtu skjótt. —
Sem tálsýn hverfur fögur mynd þín mjer:
Þú, mildust Nína, ert ei lengur hjer.