Són - 01.01.2015, Page 175
Mikael Males
Er Ólafur Þórðarson höfundur Eglu?
Í þessari grein reyni ég að sýna fram á að höfundur Eglu hafi líka verið
skáld, og að ólíklegt sé að þetta skáld hafi verið Snorri Sturluson.
Mikilvægustu rökin fyrir þessu er að Egluskáldið hefur falsað ýmsar vísur,
en slíkt gerði ekki sá Snorri sem við þekkjum. Samt hlýtur höfundur-
inn að hafa verið nátengdur Snorra og líkur honum um margt. Sum
einkenni í sögunni benda til þess að skáldið hafi verið enginn annar en
mesti aðdáandi Snorra, bróðursonur hans, Ólafur Þórðarson hvítaskáld.
Á engri sögu sést það betur en á Eglu hvernig höfundurinn hefur
ort vísur inn í hana. Mörg rök koma hér til greina, svo sem hvaða vísur
eru jafnframt varðveittar annars staðar, hvernig vísur standa saman,
hvernig þær eru feðraðar og, það sem skiptir mestu máli, í hvaða stíl
þær eru ortar. Lausavísur Egils eru í ferns konar stíl. Langflestar eru
undir venjulegum dróttkvæðum hætti sem óþarft er að lýsa hér. Fjórar
vísur (10, 25, 26 og 30)1 eru ortar undir dunhendum hætti, þ.e.a.s með
hendingum sem ganga á milli vísuorða (hendingar í skáletri):
Erfingi réð arfi
Arflyndr fyr mér svarfa
Og svo framvegis. Tvær vísur (36 og 54)2 eru ortar með því sem við
gætum kallað uppbótarhendingar, þ.e.a.s. að það vantar hendingar í
stökum vísuorðum en úr þessu er bætt með því að hafa hendingu til
næsta vísuorðs:
Urðumk leið en ljóta
landbeiðaðar reiði.
Sígrat gaukr ef glamma
gamm veit of sik þramma.
1 Egils saga 1933:110, 156, 159, 169; Skj B I 43 (4), 46 (16, 17), 47 (21); A I 49, 52–54.
2 Egils saga 1933: 200, 272–73; Skj B I 42 (5.1–4, 7–8), 48 (27.1–6); A I 48, 55.