Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Blaðsíða 3
3
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir
og
Þórhallur Eyþórsson
„með rauðum dropum“
Fáein orð um hugræn fræði
Augu þau sem bjartlega skína segja til fagurferðugra siða. En ef
þau eru óstaðföst, svo að þau renna stundum skjótt en stundum
séu þau kyrr, merkja illa hluti volkast í huginum og vera eigi fram
komna. Gul augu með skínandi birti merkja djarfan mann og til ill-
gerða vakran. Mikil augu skjálfandi og svört merkja drykkjumann
og kvennamann. Augu hreinlega svört merkja óstyrkan hug og
kraftlausan. Svört augu með rauðum dropum merkja réttlátan hug,
dyggan og hugvitran.1
Þessi orð standa á handriti frá því um 1500 og sá sem felldi textann á
skinn kallar hann „gamanfræði“ enda seilist hann ansi langt þegar hann
tengir útlit manna lunderni þeirra. Engu að síður vitna gamanfræðin um
hefð sem rekja má að minnsta kosti aftur til Forn-Grikkja og sýnir að
menn hafa lengi haft áhuga á að skilja hver eru tengsl líkama, lundarfars
og hugar. Fræðasviðið sem kennir sig við vitsmunastarf (e. cognitive science),
þema þessa heftis Ritsins, kom þó strangt til tekið ekki til sögu fyrr en um
miðja 20. öld. Á íslensku hefur það verið kallað hugfræði eða hugræn fræði
– eins og við kjósum hér.2
Menn hafa misjafnar hugmyndir um hvernig skilgreina eigi hugræn
1 Sjá „Gamanfræði“, Heimskringla, Lykilbók, ritstj. Bergljót S. Kristjánsdóttir, Bragi
Halldórsson, Jón Torfason og Örnólfur Thorsson, Reykjavík: Mál og menning,
1991, bls. 88–89.
2 Orðin „hugræn fræði“ veljum við til að geta greint anga eins og til að mynda hug-
ræna sálfræði (e. cognitive psychology), hugræn málvísindi (e. cognitive linguistics)
og hugræna bókmenntafræði (e. cognitive literary studies) frá öðrum straumum í
sálfræði, málvísindum og bókmenntafræði. Orðið „hugfræði“ er líka löngu orðið
venjubundið sem nafn á „hugrænni sálfræði“.
Ritið 3/2012, bls. 3–11