Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Síða 22
22
Afstöðumunur til ýmissa undirstöðuatriða hefur líka valdið því að
menn sem rannsaka bókmenntir með hliðsjón af líkamsmótun vitsmun-
anna, hafa metið ýmsa hugmyndastrauma í bókmenntafræði á ólíka vegu
og haft ólíkar hugmyndir um aðferðir og markmið. Eindregnustu fylg-
ismenn þróunarhyggju (e. evolutionary theory) hafa t.d. mælt hart gegn
póst-strúktúralisma og þeir hafa líka talið fráleitt að unnt væri að ganga
á vegum hugrænnar bókmenntafræði án þess að taka undir hugmyndir
þeirra sjálfra.36 Aðrir sem hallast að þróunarhyggju gera á hinn bóginn ráð
fyrir að hugræn bókmenntafræði sé angi póst-strúktúralisma.37
Fyrri þekking verður ekki einskis nýt þó að fram komi nýjar kenningar
eða vísindauppgötvanir. Ein af ástæðum þess að hugræn bókmenntafræði
efldist á síðasta áratug tuttugustu aldar var eflaust sú að menn vildu bregð-
ast við þeirri afstæðishyggju sem einkenndi einatt póststrúktúralismann
og póstmódernismann. En uppgjör þessara hreyfinga við eldri hugmyndir
setur mark sitt á hugræna bókmenntafræði líkt og aðra strauma sem eru
henni skyldir, segjum menningarfræði, menningarefnishyggju og sögu-
hyggju. Sérstaða hennar felst hins vegar í því að hún leggur áherslu á að
líkami mannsins og hugur – virkni heilans – setji menningarsmíð (e. cult-
ural construction) ákveðnar skorður.
Það eru auðvitað ekki ný tíðindi að líkami mannsins og tengsl hans við
náttúruna séu forsenda tungumáls og sögu og því sé þörf að kanna ein-
kenni hans og glöggva sig á hverju þau skipta víxlverkun hans við menn-
ingu og náttúru.38 En þeim þætti hefur naumast verið sinnt sem skyldi í
bókmenntarannsóknum síðustu áratugi og úr því vill hugræn bókmennta-
fræði bæta.
III Hugræn bókmenntafræði
Hugræn fræði hafa verið við lýði í meira en hálfa öld, en sem fræðileg
hreyfing manna, fremur en starf einstakra manna hér og þar, er hugræn
36 Sjá t.d. Joseph Caroll „Evolution and Literary Theory“, Human Nature 2/1995,
bls. 119–134 (sjá bls.123–124) og „An Evolutionary Paradigm for Literary Study“,
Style 2–3/2008, bls. 103–135 (sjá bls. 106).
37 Sjá t.d. Ellen Spolsky, „darwin and derrida: Cognitive Literary Theory as a
Species of Post-Structuralism“, Poetics Today 1/2002, bls. 43–62.
38 Sjá t.d. Karl Marx, „die deutsche Ideologie: Kritik der neuesten deutschen Philo-
sophie in ihren Repräsentanten Feuerbach, B. Bauer und Stirner und des deutschen
Sozialismus in seinen verschiedenen Propheten“, bls. 3. Sótt 10. júní 2012 af http://
schmidt.hist.unibe.ch/pot/marx/MarxK_diedeutscheIdeologie_Feuerbach.pdf
BERGljót Soffía KRiStjánSdóttiR