Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Síða 44
44
afmarkar líkinguna við hið sjáanlega tungumál, setningar eða setninga-
hluta, eins og löng hefð er fyrir.3 Þorsteinn hefði þó að öllum líkindum
valið að kalla þetta tiltekna dæmi um hinn „ullandi bíl“ hvörf, sem var þýð-
ing hans á „figurative/transferred meaning“. Til að gera langa sögu stutta
er þó hæpið að stóla á þann aðskilnað í verki, og eins og Þorsteinn skrifar
sjálfur, er samspil hvarfa (sem hann tengir við dauðar líkingar) og líkinga
„flókið mál og afar erfitt viðureignar fyrir fræðimenn“. 4
Það er vert að nefna tvennt í þessu samhengi. Í fyrsta lagi þá staðreynd
að þótt skilgreiningar og það sem Þorsteinn kallar „skýringar á skilningi
okkar á líkingum“ geti verið stórum hugsuðum nánast ofviða, þá er það
hreinn og klár barnaleikur fyrir mannshugann að hugsa í líkingum. Hér
tæpum við um leið á kjarna hugrænna líkingafræða eins og hann blasir við
mér, þ.e. að líkingin gegnsýrir alla okkar hugsun, líkingahugsunin er okkar
eiginlega hugsun; það að skilja eitt í gegnum annað er sjálft conditio hum-
ana. Með jafn breiðri skilgreiningu á líkingu og við finnum í hugrænum
fræðum, má segja að jafnvel skynjun okkar sé líking, þ.e. við berum áreiti
saman við eldri áreiti í skynmynstri okkar í því skyni að túlka þau (skiljum
eitt gegnum annað), og geta má þess að skilgreining sálfræðinga á „cons-
trual“, sem Kristján Kristjánsson þýðir sem viðhorf, er á sömu lund. Til
dæmis segir um konu haldna kóngulóarfælni að „Viðhorfið [hennar] felst í
því að sjá eitt (hér: kóngulær) sem eitthvað annað (skaðræðiskvikindi)“.5
Nefna mætti annað dæmi þar sem hugsun Þorsteins um líkingar svipar
til þeirrar sem við finnum í hugfræðum. Hann kemst að þeirri niðurstöðu
í grein sinni „Líkingar og hvörf“ að rök fyrir líkingum séu utan máls.6 Hér
eru hugfræðingar á sama máli, og tefla fram lykilhugtaki hugrænna lík-
ingafræða, hugtakslíkingunni (e. conceptual metaphor) því til nánari stuðn-
ings. Hugtakslíkingar eru utan máls og oftast ósýnilegar þó þær liggi mál-
inu að baki og geri merkingarsköpun mögulega. Við sjáum dæmi þessa
síðar.
Það er ekki lítið stökk sem í þessu felst. Í stað þess að leita að rökum
fyrir líkingum, eða skýringum á skilningi á líkingum í málinu sjálfu og
3 „Líking er setning (eða hluti setningar) þar sem valin eru saman ósamstæð orð í
því skyni að bjóða heim, með þessu orðavali einu, samanburði óskyldra fyrirbæra“.
Þorsteinn Gylfason, Að hugsa á íslenzku, Reykjavík: Heimskringla, 1996, bls. 145
og 212.
4 Sama heimild, bls. 150.
5 Kristján Kristjánsson, „Um geðshræringar“, Skírnir 2 /1994, bls. 297.
6 Þorsteinn Gylfason, Að hugsa á íslensku, bls. 151.
BERGSVEINN BIRGISSON