Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Page 50
50
sinni. Nútímamenningin kennir okkur að hugsa með orðum (e. verbally)
sem leiðir til að myndræn (e. visual) eða hreyfingarleg (e. motoric) hugsun
er minna notuð.23 Annað er svo að upprunalegar myndir bakvið orð og
líkingar stirðna og deyja (frosna er einnig sagt) samkvæmt sumum lík-
ingafræðingum er fram líða stundir. Ágætt dæmi um þetta í íslensku er
orðið „hégómi“ sem var notað um rykvef eða kóngulóarvef er safnast í
gluggaborur. Það er síðan ekki heiglum hent að ákvarða hvar og hvenær
slík stirðnunarþróun er um garð gengin, og einnig ber að nefna þá líkinga-
fræðinga sem gagnrýna umræðu um dauðar líkingar á þann veg að ein-
hvers konar umritun fylgi alltaf blæbrigði eða tilbrigði í merkingarlegum
skilningi.24 Líking getur þannig aldrei verið dauð að öllu leyti.
Ef til vill má finna vísbendingu í dróttkvæðum kristnum, svo sem þar
sem hjartað er kallað hugarkorn.25 Ef við veljum þá grunnmynd mætti
spyrja hvort orðtakið um „kornið sem fyllir mælinn“, notað m.a. um þann
sem endanlega „springur“ af reiði, eigi sér rætur í þeirri fornu mynd.
Orðtakið er dregið af því að korn var ýmist vegið eða mælt í sérstökum
mælikerum eða mælum (skeffumálum), og var sá mælir ekki fullur fyrr en
kornið vall upp úr. Þessi aðferð við að mæla korn kemur fram í fjölmörg-
um miðaldaheimildum og er myndin býsna gömul í íslensku.26 Hér er lík-
ami eða brjóst mannsins (þrýstingsílátið) skilið sem kornmælir og geðs-
hræringin eða reiðin sem korn, og ætla má að þau korn sem fóru yfirum
hafi gjarna farið til spillis. Í þessu gæti legið viss dómur og visst viðhorf til
reiðinnar. Það verður samt að segjast að þessi mynd af hinum reiða náunga
er talsvert vinalegri en nýja myndin þar sem hinum reiða er jafnað við
gufuketil eða sprengju sem springur, eins og við komum að.
Þessi gamla mynd kornmælisins er óðum að missa fylgi sitt í íslensku.
Eins og bent hefur verið á, er líkingamál íhaldssamt í eðli sínu og þarf því
alltaf að taka tillit til hins sögulega þáttar við krufningu líkinga. Ein ástæða
23 Sjá t.d. Tore Helstrup, Personlig kognisjon: Kan vi kontrollere våre tanker og handlin-
ger?, Bergen: Fagbokforlaget, 2005, bls. 156; Bergsveinn Birgisson, Inn i skaldens
sinn, bls. 132–133.
24 Ronald W. Langacker, Concept, Image, and Symbol: The Cognitive Basis of Grammar.
Berlin: Mouton de Gruyter, 1991, bls. 10; Raymond Gibbs Jr., „What do idioms
really mean?” Journal of Memory and Language 4/1992, bls. 485–506.
25 Skj II B, bls. 139.
26 Jón G. Friðjónsson, „mæle“ Kulturhistorisk Leksikon for Nordisk Middelalder XII,
ísl. ritstj. Jakob Benediktsson og Magnús Már Lárusson, Reykjavík: Bókaverzlun
Ísafoldar, 1967, bls. 159; Jón G. Friðjónsson, „Íslenskt mál, 66. þáttur“ Morg-
unblaðið, 10. des. 2005.
BERGSVEINN BIRGISSON