Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Síða 55
55
from this“36, þ.e.a.s. það þarf að vera svimandi fjarlægð milli þess sem
passar ekki, og sláandi líkindi milli þess sem passar. Eins og ég hef fært
rök fyrir annars staðar, voru fornnorræn dróttkvæðaskáld afar meðvituð
um þessa „dökku hlið“ líkingalistarinnar, hugsunin var gjarnan sú að líkja
einhverju saman sem alls ekki líktist nema á einn tiltekinn hátt – sem síðan
nægði til skilnings.37
Það verður að segjast að norræn og íslensk skáldskaparfræði hafa veitt
skáldlegri eða fagurfræðilegri virkni líkinga, og reyndar líkingum almennt,
afar knappa athygli gegnum tíðina. Þau skáldskaparfræði sem hér hafa
verið við lýði frá miðöldum hafa samhangandi gengið út á að bæla þessa
hlið skáldskaparins, og einblína þeim mun meir á formlega þætti. Í Snorra-
Eddu er einblínt á dæmi um það hvernig eigi að „kenna rétt“, það er: búa til
kenningar og líkingar í samræmi við norræna hefð/goðsagnir annarsvegar
og evrópskan samtímalærdóm hinsvegar áður en bragfræðin tekur öll völd.
Um skáldlegt eða fagurfræðilegt gildi kenninga er Snorri Sturluson hins-
vegar afar fáorður í sinni Eddu.38 Aðrir, eins og Ólafur hvítaskáld, lögðu
grunninn að krufningu skáldskaparmáls með því að yfirfæra klassískt hug-
takakerfi yfir á norræna tungu, en þar með var þó aðeins grunnur lagður,
sem menn hafa ekki valið að byggja frekar á. Menn hafa sýnt sjálfu kerinu
meiri áhuga en skáldskaparmiðinum sem það inniheldur, áherslan verið á
formlegar og málsögulegar hliðar dróttkvæða. Undantekningar frá þessu
má þó finna.39
Ágætt dæmi um það hversu fáorðir menn hafa verið um þessar hliðar
skáldskaparins má finna í frægu riti með titilinn Íslenzk menning. Eftir að
hafa listað upp nokkur dæmi úr skáldskap Egils Skallagrímssonar, skrifar
36 Roger Caillois, The Edge of Surrealism: A Roger Caillios Reader“, útg. C. Frank,
London: duke University Press, 2003, bls. 318.
37 Bergsveinn Birgisson, „Skaldic Blends Out of Joint: Blending Theory and Aesthetic
Conventions“, bls. 289–296.
38 Til eru miðaldahandrit, s.s. AM 748 4to (einnig kölluð Skálda), þar sem þetta
innsæi í skáldlega virkni líkinga kemur skýrar fram, en því miður varð sá texti ekki
„kanóníseraður“ í lærdómshefð seinni tíma.
39 Sjá t.d. Gunnar Harðarson, „Birtan og stormurinn: um náttúruskynjun í drótt-
kvæðum“, Skáldskaparmál, 1990, bls. 203–210; davíð Erlingsson, „Manneskja er
dýr og henni er hætt: um nykrað“, Gripla, X, 1990, bls. 49–61; Bergsveinn Birg-
isson, „Konuskegg og loðnir bollar: elstu dróttkvæði og and-klassískar listastefnur
20. aldar“, Skírnir 1/2009, bls. 106–157. Í síðastnefndu greininni er vísað í fleiri
fagurfræðilegar rannsóknir dróttkvæða, auk greinar um dróttkvæði og fornnorræna
minnistækni.
STUTTUR KVEIKUR SKALLA-GRÍMS