Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Síða 57
57
út með éla meitli
andœrr jötunn vandar,
en svalbúinn selju
sverfr eirar vanr þeiri
Gestils álpt með gustum
gandr of stál fyr brandi.42
Samhengi vísunnar er í grófu máli það að skáldið siglir í stórsjó og hríð
frá Noregi til Íslands og virðist undir hæl lagt hvort hann nái „nokkru
landi eða öngu“, grunntilfinning vísunnar er hreinn og klár dauðageigur. Í
frumlag-sögn-andlag samantekt lítur textinn út svona:
Andœrr vandar jötunn høggr stórt þel út fyr stáli á jafnan stafnkvígs
veg með éla meitli, en svalbúinn selju gandr sverfr með gustum eirar
vanr þeiri Gestils álpt of stál fyr brandi.
Þýðingu þessa texta yfir á nútímamál mætti freista þess að hafa svo, með
túlkun kenninga í eftirfarandi kössum:
Andóðr jötunn seglsins [stormurinn] heggur út stóra þjöl fyrir
framan stafninn á sléttan veg stafnkvígunnar [skipsins; sléttur vegur
skipsins: sjórinn] með élameitli, en kuldalegur úlfur siglutrésins
[stormurinn] sverfur miskunnarlaus með gustum þá Gestils álft
[skipið] á þá [þjöl] um stafninn framanvið stafnbrandinn.
Frumleika vísunnar er ekki að finna í sjálfum kenningunum. „Jötunn
seglsins“, „úlfur siglutrésins“ og „vegur skipsins“ auk skipskenninganna
„stafnkvígr“ og „álpt Gestils“, eru allar byggðar á almennum hugtakslík-
ingum (kenningamódelum) kenningakerfisins. Hið frumlega er að láta
stormjötuninn búa til þjöl úr sléttum sjó með „éla meitli“. Þetta er líking,
eins og Sigurður Nordal bendir á í útgáfu sinni á Egils sögu; einstök líking
Egils, mætti bæta við. Hin hugræna blanda éla meitilsins er reist á sjónræn-
um rökum. Hnúinn sem hvítnar um meitilsskaftið líkist skýjahnoðranum
sem hefur éljatungu hangandi neðan úr sér, og éljatungan svarar til meit-
ilsins (sjá mynd 1). Það er í slíkum einstökum líkingum sem dróttkvæða-
skáld sýna okkur inn í hug sinn, í þessu tilviki mætti tala um skáldlega
mynd (fr. image nouvelle) í anda Gaston Bachelard, þ.e. líkingu sprottna úr
hjarta skáldsins, litaða af persónu hans, skynjun og hugarfari.
42 Skj, IB, bls. 47–48. Rök fyrir minni endurgerð og samantekt á vísunni má finna í
Bergsveinn Birgisson, Inn i skaldens sinn, bls. 161–163.
STUTTUR KVEIKUR SKALLA-GRÍMS