Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Page 112
112
grunnur varð að fígúru. Rubin hóf því að gefa þátttakendum sínum sér-
stök fyrirmæli um það hvorn flötinn – hinn ljósa eða dökka – þeir ættu að
sjá sem fígúru og hvorn sem grunn í fyrri umferð tilraunanna þegar þátt-
takendur áttu að leggja áreitin á minnið. Þegar kom að kennslaprófi, þar
sem spurt var hvort þátttakandi hefði séð áreiti áður eða ekki, gaf hann
sömuleiðis fyrirmæli um það hvernig ætti að horfa á þau. Kom þá í ljós að
þessi fyrirmæli höfðu áhrif á kennslin. Ef samræmi var milli fyrirmæla við
upphaflega skoðun og í kennslaprófinu, varð árangur mun betri en þegar
misræmi var í fyrirmælum. Þessi uppgötvun Rubins, hvernig fígúra og
grunnur víxluðust í þessum tilraunum, varð afdrifarík, því hún leiddi til
þess að hann lagði minnisrannsóknina til hliðar en einbeitti sér þess í stað
að því að skoða nákvæmlega mismun fígúru og grunns í sjónskynjun.
Meginmarkmið Rubins í þeirri rannsókn var að lýsa sjónrænum upplif-
unum af fíguru og grunni, þ.e. hver mismunurinn í því hvernig við upp-
lifum fígúru og grunn væri. Hann kannaði eigin upplifanir og annarra og
færði í rannsóknakladda nákvæmar lýsingar þátttakenda á upplifun þeirra
af ólíkum áreitum. Með þessum rannsóknum sýndi Rubin fram á að það er
margt sem greinir að fígúru og grunn.
Mikilvægast er að fígúran og grunnurinn eru ekki formuð (d. formet) á
sama hátt; reyndar er það svo að grunnurinn er án forms. Þegar grunnur-
inn breytist í fígúru fyrir augum okkar verðum við oft undrandi þegar við-
komandi flötur tekur á sig ákveðið form sem hann hafði ekki fyrr. Útlína
(d. Kontur) skilur að fígúru og grunn og frá henni stafar „formhrifum“ (d.
formende Virken) sem verka aðallega eða jafnvel einvörðungu á þann flöt
sem við upplifum sem fígúru. Útlínan hefur til dæmis engin áhrif á grunn-
inn í þeim tilvikum sem okkur virðist grunnurinn ná aftur fyrir fígúruna.
Önnur hlið á aðgreiningu myndar og bakgrunns er að fígúran hefur
„hluteðli “(d. Tingskarakter) þar sem grunnurinn hefur „efniseðli“ (d.
Stofkarakter). Þriðji munurinn snýr að litaskynjun, til dæmis er litfesti (e.
color constancy) meira áberandi í fígúruhluta myndar en í grunnhluta henn-
ar (daufur skuggi sem hylur hluta grunns er til dæmis meira áberandi en
þegar hann hylur hluta fígúru). Fjórða atriðið sem greinir að fígúru og
grunn snýr að skynjaðri staðsetningu; fígúran virðist yfirleitt vera nær en
grunnurinn. Í fimmta lagi er þess að geta að fígúran virðist vera „ráðandi
í vitundinni“ og er minnisstæðari en grunnurinn. Að síðustu má nefna að
fígúran getur stundum kallað fram ákveðnar tilfinningar eða geðshræring-
ar sem grunnurinn gerir ekki.
JÖRGEN L. PINd