Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Page 118
118
þá urðu fyrst á vegi þeirra margvísleg skynhrif sem skilningarvitin með-
taka. Öðrum ákafari við að telja og flokka skynhrifin var Edward Bradford
Titchener (1867–1927), lærisveinn Wundts og síðar prófessor í sálfræði við
Cornell-háskólann í Bandaríkjunum. Í riti hans, An Outline of Psychology frá
1896, er kenningin um „skyneigindir“ (e. sensation qualities) sett fram í allri
sinni sálfræðilegu dýrð. Hann taldi augun geta greint sundur 30.850 ólíkar
skyneigindir, eyrun 11.550, tunguna fjórar, húðina þrjár. Kynfærin urðu
þó að láta sér duga eina skyneigind! Nefið reyndist Titchener hin mesta
ráðgáta svo hann varð að láta sér nægja spurningarmerki þegar kom að því
að tíunda skyneigindir þess. En Titchener taldist svo til að skyneigindir
mannshugarins væru ekki færri en 42.415:
Sérhver þessara fjörutíuþúsund eiginda er meðvituð eind (e. conscious
element), aðgreind frá öllum hinum og algerlega einföld og ósund-
urgreinanleg. Hægt er að blanda þeim eða tengja þær við aðrar svo
úr verði skynjanir (e. perceptions) eða hugmyndir (e. ideas). Stór hluti
sálfræðinnar fæst við að ákvarða þau lögmál og aðstæður sem ráða
myndun þessara skynhrifaflækja (e. sensation complexes).
Fyrrgreindur listi er tæmandi upptalning á forðabúri hins heilbrigða
mannshugar … þegar allt er talið verður að ætla að meðvitaðar
eindir skipti þúsundum. Og umraðanir og samsetningar bara 10.000
einda gæfu af sér afar stórt safn hugmynda.37
Rubin og skynheildastefnan
doktorsritgerð Rubins kom fram á tíma þegar töluverð umbylting varð
í skynjunarsálfræði og hún varð mikilvægur þáttur í henni. Hér er átt
við kenningar svonefndrar skynheildastefnu, Gestalt-sálfræðinnar.
Skynheildastefnan varð til í beinni andstöðu við hina greinandi, analýt-
ísku, sálfræði sem hafði sprottið upp úr lífeðlisfræði 19. aldar og ensku
hugtengslasálfræðinni og lýst var hér að framan.
Upphaf skynheildastefnunar er oft rakið til haustsins 1910 þegar Max
Wertheimer (1880–1943) stóð fyrir tilraunum á sýndarhreyfingum (e.
37 Edward Bradford Titchener, An Outline of Psychology, New York: The Macmillan
Company, 1896, bls. 67, þýð. mín.
JÖRGEN L. PINd