Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Síða 127
127
árni Kristjánsson
Þekkingarfræði Kants
í kenningum samtímans
um sjónskynjun
Hugfræði samtímans er oft talin undir miklum áhrifum frá Immanúel
Kant enda hafa sumir kallað hann afa hugfræðinnar.1 Markmið þessarar
greinar er að kanna hversu vel þetta á við um kenningar um sjónskynj-
un á okkar dögum. Einhver merkasti atburður í vestrænni hugmynda-
sögu er án vafa útgáfa höfuðrits Kants, Gagnrýni hreinnar skynsemi, árið
1781.2 Hugmyndir þær sem Kant setti þar fram höfðu gríðarmikil áhrif,
og hafa enn, sérstaklega í þekkingarfræði. Þær greinar vísindanna sem nú
fást einna helst við þekkingarfræði eru skynjunarsálfræði, hugfræði, hug-
fræðileg taugasálfræði og heimspeki.
Kant leit svo á að fyrirfram gefin hugtök eins og orsakasamband, rúm
og tími útskýrðu hvernig við skynjum heiminn. Kant hafði endaskipti
á spurningunum sem forverar hans höfðu glímt við og spurði hvers eðlis
við þyrftum að vera til þess að skynja heiminn eins og við gerum. Þetta
var nýstárleg og áhrifamikil nálgun á þekkingarfræði, því heimspekingar
höfðu fram til þessa fyrst og fremst spurt hvernig við gætum komist að
hinu sanna eðli veruleikans. Svar Kants var að skynfæri okkar veittu ein-
ungis kost á því með óbeinum hætti. Niðurstaða mín er að þessi áhersla
1 Sjá umfjöllun hjá Andrew Brook, „Kant and Cognitive Science“, The prehistory of
Cognitive Science, Basingstoke: Palgrave Macmillan, 2007, og hjá Árna Kristjánssyni,
Innra Augað, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2012.
2 Immanuel Kant, Critique of Pure Reason, þýð. og ritstj. P. Guyer og A.W. Wood,
Cambridge: Cambridge University Press, 1998. Bókin kom fyrst út 1781 en endur-
bætt útgáfa hennar kom svo út árið 1787. Hér er vísað í útgáfu þá sem Guyer og
Wood ritstýrðu. Forspjall að frumspeki eftir Kant kom út í íslenskri þýðingu Skúla
Pálssonar 2008, Reykjavík: Heimspekistofnun, 2008, en Kant gaf það rit út milli
fyrstu og annarrar útgáfu Gagnrýni hreinnar skynsemi til að skýra í styttra máli en
fyrr helstu hugmyndir síðarnefnda ritsins.
Ritið 3/2012, bls. 127–144