Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Page 158
158
Þetta skiptir miklu fyrir útkomusetningar því að þar er um að ræða
samband virkra og óvirkra þátta sem óvenju erfitt er að henda reiður á.
Áður var vikið að því hvernig hegðun áhrifssagna og samsvarandi áhrifs-
lausra sagna tengiast orsaka- og kraftverkunarmerkingu. Goldberg og
Jackendoff (2004) gefa gott yfirlit um ólíkar tegundir setningamynstra sem
fella má undir regnhlífarhugtakið „útkomusetning“ og titill greinar þeirra
gefur til kynna að þær mætti greina sem net mynstra sem skarast að hluta
og sýna ættarsvip í anda Wittgensteins (1953).
Umfjöllun Goldbergs og Jackendoffs beinir sjónum að fjölmörgum
almennum setningamynstrum en þegar kemur að virkni er jafnvel enn
meiri vandi á höndum, því oft eru ákaflega óreglulegar hömlur á myndun
útkomusetninga – bæði tengdar einstökum orðum og bundnar ákveðnum
tungumálum – sérstaklega hvað snertir val útkomusagnfyllingar. Svo að
einfalt dæmi sé tekið, væri orðrétt ensk þýðing þýska útkomusambandsins
í (57) frekar vafasöm, eins og sýnt er í (58), en setningin í (59) er hins vegar
mjög eðlileg og í samræmi við málvenju:
(57) die Teekanne leer trinken
(58) ??to drink the teapot empty
(59) to drink the teapot dry
Ekki er unnt að benda á neina almenna ástæðu fyrir því að dry er frek-
ar virkt í myndun útkomusambanda í ensku, en ekki empty: í þessu sam-
hengi er þýski kosturinn leer miklu „rökréttari“, en rökvísi er þessu máli þó
óviðkomandi. Það sem skiptir máli eru venjubundin samröðunarmynstur
í tungumálinu.
Enda þótt bæði íslenska og enska búi yfir virkum mynstrum útkomu-
setninga, tryggir það engan veginn að sömu sambönd ákveðinna sagna og
lýsingarorða verði að málvenju. Skemmtilegt dæmi eru sagnir sem merkja
að gefa frá sér hljóð með lýsingarorðinu hás/hoarse. Þetta samband er mjög
virkt í báðum tungumálunum. Þó virðist mynstrið vera virkara í íslensku,
því að þar er unnt að nota það á nýstárlegan og fyndinn hátt þar sem sam-
svarandi orðalag í ensku myndi hljóma ankannalega. Setningin í (60) er
raunverulegt málnotkunardæmi:
(60) [Síminn] getur bara hringt sig hásan. (Whelpton 2006, dæmi 134)
(61) *The phone can ring itself hoarse.
MatthEW WhElPton