Peningamál - 13.05.2015, Page 44

Peningamál - 13.05.2015, Page 44
RAMMAGREINAR P E N I N G A M Á L 2 0 1 5 • 2 44 Alþjóðlegar rannsóknir á áhættuálagi á skuldabréfamarkaði Til er fjöldi alþjóðlegra rannsókna sem leggja mat á stærðargráðu áhættuálagsins. Flestar þeirra skoða Bandaríkjamarkað og benda þær til þess að áhættuálagið sé á bilinu 0-1/3 úr prósentu til eins árs litið og ½-1 prósenta þegar litið er til tíu ára.2 Rannsóknir á skulda- bréfamarkaði í Bretlandi gefa svipaðar niðurstöður eða áhættuálag á bilinu ¾-1 prósenta til fimm og tíu ára en rannsóknir fyrir evru- svæðið benda til nokkru lægra áhættuálags eða um ¼ úr prósentu til tíu ára.3 Allar þessar rannsóknir benda til þess að áhættuálagið geti breyst yfir tíma og margar þeirra benda einnig til þess að það hækki eftir því sem lengra er farið út á vaxtarófið (þ.e. horft til skuldabréfa með lengri líftíma). Einnig benda þær til þess að áhættuálagið sé því hærra sem sveiflur í verðbólgu, og þar með óvissa um verðbólgu- horfur, eru meiri. Mögulegar ástæður fyrir hærra áhættuálagi hér á landi Líklegt er að áhættuálagið sé hærra hér á landi en í öðrum iðnríkjum, m.a. vegna þess að sveiflur í verðbólgu hafa verið meiri hér á landi. Seljanleiki skuldabréfa er að öllum líkindum einnig minni hér á landi sökum smæðar innlends skuldabréfamarkaðar. Viðskipti með tiltölu- lega lágar fjárhæðir geta því haft marktæk áhrif á verð bréfa og þar með á áhættuálagið án þess að raunverulegar verðbólguvæntingar hafi breyst. Áhrif fjármagnshafta á framboð og eftirspurn hafa jafnframt dregið úr seljanleika sumra skuldabréfaflokka undanfarin ár og að einhverju leyti skekkt verðlagningu þeirra. Áhrif á styttri óverðtryggð ríkisbréf skýrast að mestu af því að erlendir fjárfestar með eignir læst- ar inni af höftunum hafa átt langstærsta hluta þeirra á undanförnum árum.4 Líklegt er að nýlegar viðbótartakmarkanir á svigrúmi þessara erlendu fjárfesta auki þennan vanda enn frekar. Áhrif fjármagnshafta eru þó ekki eingöngu bundin við styttri enda vaxtarófsins heldur gætir þeirra einnig í verðmyndun lengri skuldabréfa. Höftin hafa að öllum líkindum leitt til meiri eftirspurnar lífeyrissjóða eftir innlendum ríkis- og íbúðabréfum en ella hefði orðið sem m.a. endurspeglast í því að eignahlutfall lífeyrissjóða hefur ríflega tvöfaldast frá árinu 2008 (mynd 2). Stöðug eftirspurn þessara stóru sjóða hefur dregið úr veltu á markaði með tilheyrandi áhrifum á verðmyndun, einkum verðtryggðra ríkis- og íbúðabréfa þar sem útgáfa bréfanna hefur verið takmörkuð á undanförnum árum. Vegna stærðar sjóðanna og uppgjörsreglna þeirra er skilvirkni verðmyndunar á verðtryggðum skuldabréfum mögulega einnig minni en ella, sem m.a. gæti birst í miklum mun á milli kaup- og sölutilboða þeirra. Mat á áhættuálagi á íslenskum skuldabréfamarkaði Með aðferðafræði Gürkaynak o.fl. (2010) er hægt að fá mat á áhættuálagi á innlendum skuldabréfamarkaði út frá vaxtamun verð- tryggðra og óverðtryggðra skuldabréfa og niðurstöðum spurninga- kannana. Hægt er að meta álagið til eins árs en erfiðara er að fá áreiðanlegt mat á álaginu til lengri tíma vegna skorts á spurninga- könnunum um langtímaverðbólguvæntingar yfir nógu langt tímabil. Gróft metið virðist áhættuálagið til eins árs hafa verið um ½ prósenta að meðaltali frá janúar 2002 til og með apríl 2015. Í takt við alþjóð- legar rannsóknir gefur matið jafnframt til kynna að álagið hafi verið breytilegt á tímabilinu með staðalfrávik sem nemur 1½ prósentu. 2. Sjá t.d. Ang o.fl. (2008), Buraschi og Jiltsov (2005), Chen o.fl. (2010), Chernov og Mueller (2012), D‘Amico (2008), Durham (2006) og Campbell og Viceira (2001). 3. Sjá t.d. Campbell og Shiller (1996), Shen (1998) og Joyce o.fl. (2010) fyrir Bretland og t.d. Hördahl og Tristiani (2012, 2014) fyrir evrusvæðið. 4. Erlendir aðilar eiga nú tæplega 60% af útgefnum ríkisbréfum sem eru á gjalddaga á næstu fjórum árum. Mynd 2 Eigendaflokkun ríkistryggðra skuldabréfa 2008-20151 % Erlendir aðilar Lífeyrissjóðir Verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir Bankar og sparisjóðir Aðrir 1. Gögn til og með 31. mars 2015. Heimild: Verðbréfaskráning Íslands. 0 10 20 30 40 50 60 70 80 90 100 20152014201320122011201020092008

x

Peningamál

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Peningamál
https://timarit.is/publication/1144

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.