Skírnir - 01.01.1948, Side 243
Skírnir
Ritfregnir
237
fræðibóka, svo að tökuorðum þessarar aldar eru ekki þar með gerð
fullnaðarskil. Engu að siður er bók þessi hinn mesti fengur og
ágæt stoð öllum þeim, er fást við rannsóknir á tungu þjóðarinnar.
Ekki hef ég átt þess kost að athuga, hvort eða að hve miklu leyti
höfundur hefur tæmt verkefni sitt, að því er orðtökuna varðar. En
allt virðist benda til mikillar vandvirkni í vinnubrögðum, og ívitn-
anir eru margar og rækilegar við flest orð.
Það þykir mér smávegis ágalli, að höfundur greinir ekki jafnan
frá því við einstök orð, — er rök standa til —, hvaðan þau muni
helzt komin inn í málið, skýrir aðeins frá því, að um tökuorð sé að
ræða og tilfærir síðan samsvarandi orðmyndir erlendar. Hins vegar
ræðir hann þetta efni í formála, og þar flokkar hann nokkurn hluta
tökuorðanna eftir því, hvaða leið þau hafi komizt inn í íslenzkuna.
Mér finnst þessi tilhögun lesendum til nokkurs óhagræðis, því að
þótt sjálfsagt sé að gera grein fyrir þessu efni í formála, mátti og
drepa á það við hvert einstakt orð, — eftir ástæðum —, annað-
hvort með röðun erlendu orðanna eða á annan hátt.
Satt er það að vísu, svo sem höfundur tekur fram, að oft er erfitt
að skera úr, eftir hvaða leiðum hvert einstakt orð hafi borizt inn í
málið. En það atriði er hins vegar allmikilvægt frá máls- og menn-
ingarsögulegu sjónarmiði. Höfundur ræðir nokkuð, hvað helzt geti
skorið úr í þessu efni, svo sem kyn orða, hljóðfræðileg mynd o. fl.
Mér virðist, að merking orðanna geti orðið til nokkurrar leiðbein-
ingar um þetta atriði með hliðsjón af því, hversu sambandi Islands
við önnur lönd var háttað, bæði stjómarfarslega og að því er tók
til verzlunar og kirkjumála. Þykir mér sem þess sjónarmiðs gæti
varla nógsamlega hjá höfundi. Þá finnst mér og hæpin sú ályktun
hans, að allur meginþorri tökuorða í íslenzku af þýzkum uppruna
sé kominn hingað úr dönsku og norsku. Mun vandskorið úr því efni,
einkum þó meðan 15. aldar tökuorð í viðkomandi málum hafa ekki
verið rannsökuð til neinnar hlítar.
Þá er annað atriði, er mér þykir orka nokkurs tvímælis, en það
er skilgreining höfundar á því, hvað telja skuli tökuorð. Hún er
ákaflega rúm, og segir það að sjálfsögðu til sín í orðabókinni. Mér
finnst það t. d. hæpið að telja s. forlýta tökuorð, enda engar beinar
fyrirmyndir í grannmálunum. Að vísu eru mörg tökuorð í málinu,
þar sem forskeytið for- gegnir svipuðu hlutverki, og hugsanlegt, að
þau hafi orkað á þessa orðmyndun. Hinu má heldur ekki gleyma, að
ýmis íslenzk orð (no. og lo.) höfðu þetta forskeyti frá fornu fari,
þ. á m. lo. forljótur, og algengt, að sagnir væru leiddar af forskeytt-
um nafnyrðum. Eg lít svo á, að forskeytisnotkun af þessu tagi hafi
líka átt sér innlendar rætur, þótt erlend áhrif, bein og óbein, eldri
og yngri, láti þar að sjálfsögðu mikið til sín taka. Svipuðu máli
gegnir um s. formæla og no. forsagnari og að nokkru leyti um s. for-
glata og forprýða. Hin síðastnefnda er reyndar upphaflega af erlend-