Skírnir - 01.01.1951, Blaðsíða 39
Skírnir
Dagur er upp kominn
37
hnigu þau meira eða minna til fylgis við þjóðlega stefnu.
1848—49 gáfu þeir Gísli skáld Brynjólfsson og Jón Thorodd-
sen út Nor'Surfara í Kaupmannahöfn, þrunginn sterkum frels-
isanda og magnaðan andúð á kúgun og ófrelsi. Þjóðólfur,
sem hóf göngu sína haustið 1848 undir ritstjóm Sveinbjarnar
Hallgrímssonar, fylgdi eindregið stefnu Jóns Sigurðssonar.
Lanztíðindi, er Pétur Pétursson, síðar biskup, gaf út, og
Reykjavíkurpósturinn, er Þórður yfirdómari Jónasson stýrði,
vom hóglátari og hneigðust þó í þjóðlega átt. Áhugaefni
hinna almennu funda sumarið 1849 og undirtektir blaðanna
bera ljósan vott um þjóðlega vakningu. Gott dæmi um það
er hreyfing sú, er nú var vakin, um að vemda réttindi ís-
lenzkrar tungu. Allir fundimir sendu Alþingi ávörp um, að
óskað væri eftir því, að embættisbréf öll og embættisbækur
innan lands yrðu skráð á íslenzku. Sumir landsmenn gengu
lengra og vildu, að allt, er varðaði stjórn landsins, yrði skráð
á íslenzku og engir kvaddir til afskipta af íslenzkum málum,
nema þeir kynnu íslenzka tungu. Sannleikurinn var sá, að
ýmsir embættismenn höfðu fram til þessa notað dönsku í
embættisbréfum úr hófi fram, af gömlum vana. Reykja-
víkurbær var og fram um miðja öldina svo illa danskur,
að kaupmenn bæjarins kærðu bæjarfógetann, Stefán Gunn-
laugsson, fyrir stiftamtmanni 1848, vegna þess að hann
lét festa upp svo hljóðandi auglýsingu: „Islenzk tunga á bezt
við í íslenzkum bæ, hvað sérhver athugi.“ Þessari kæm sinnti
Rosenöm engu, enda þótti honum auk heldur nóg um emb-
ættisdönskuna og dró heldur úr henni, og sjálfur talaði hann
íslenzku og ætíð á þinginu 1849. Hér var þó við ramman
reip að draga —■ rótgróinn vana og illvíga andspyrnu af hálfu
danskra og hálfdanskra manna, ekki sízt kaupmanna í Reykja-
vík, er þar vildu öllu ráða að gamalli venju. Sneru þeir sér
auk heldur til danska innanríkisráðherrans og kærðu yfir
því, að fjallað væri um bæjarmálefni Reykjavíkur á íslenzku,
og kváðust vona, að ráðuneytið gæti haldið uppi réttindum
danskrar tungu hér í bænum. Ekki fékkst stjórnin til að
sinna neyðarópi þessu.