Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 28

Bændablaðið - 23.01.2014, Blaðsíða 28
28 Bændablaðið | Fimmtudagur 23. janúar 2014 „Ég er að byggja þetta upp skref fyrir skref. Það eru fjölmörg tækifæri í þessari grein og um að gera að nýta þau,“ segir Benjamín Örn Davíðsson skógfræðingur, en frá því hann flutti heim til Íslands frá Noregi fyrir tæpu ári, í mars í fyrra, hefur hann starfað sem skógarhöggsmaður og segir verkefni næg. Hann hefur skapað sér vinnu árið um kring og er með mann á launaskrá auk þess sem einn undirverktaki starfar einnig að skógarhögginu. Þeir eru því þrír félagarnir á ferðinni í skógunum, enda óskrifuð regla segir hann að menn séu ekki að störfum einir við skógarhögg. Benjamín Örn ólst upp í Eyjafjarðarsveit, í Hólsgerði sem er innsti bærinn i sveitinni og einnig Torfufelli. Kúabúskapur var stundaður á þessum jörðum og mest voru 55 mjólkandi kýr í fjósi og 400 fjár. „Ég vil hvergi annars staðar vera en í sveitinni,“ segir Benjamín, sem kom sér fyrir á Hólshúsum þegar hann sneri heim á ný eftir langa fjarveru frá æskuslóðum. „Ég var ekki hrifinn af skógrækt þegar ég var krakki, eitt það leiðinlegasta sem ég gerði var að gróðursetja. Áhuginn kom síðar,“ segir hann, en um tvítugt var hann farinn að planta trjám hér og hvar umhverfis Torfufell. Mikilvægt að læra réttu handtökin strax Það blundaði í honum að læra skógfræði en til þess þurfti á þeim tíma að halda utan til náms. „Og ég bara tímdi því ekki, átti unga dóttur þá og vildi ekki flytja svo langt í burtu frá henni,“ segir Benjamín. Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri bauð árið 2004 í fyrsta sinn upp á nám í skógfræði og var hann þá ekki lengi að hugsa sig um. Benjamín var í fyrsta hópnum sem brautskráðist með BS-gráðu í skógfræði frá skólanum eftir þriggja ára nám. Að námi loknu lá leiðin austur á land, en Benjamín fékk vinnu hjá Héraðs- og Austurlandsskógum og starfaði þar um þriggja ára skeið. „Á þeim tíma komst ég fyrst í kynni við skógarhöggið og langaði að læra réttu handtökin, því það er ekki sama hvernig menn bera sig að. Ég lærði undirstöðuatriðin af öðrum skógarhöggsmönnum, bæði fyrir austan og á Vesturlandi, og fór síðar á námskeið hjá norskum leiðbeinenda frá Aktivt Skogbruk þar sem ég lærði réttu vinnubrögðin og það gjörbreytti öllu. Þetta starf verður mun auðveldara þegar maður kann að beita sér rétt. Það er mikilvægt að læra undirstöðuatriðin strax,“ segir Benjamín. Íslendingum ekki tamt að plana langt fram í tímann Haustið 2010 fór Benjamín Örn í meistaranám í skógfræði við landbúnaðarháskólann í Ási í Noregi og flutti svo heim í heiðardalinn, Eyjafjörð, í mars í fyrra. Hann segir eftir veru sína úti að Norðmenn hugsi á annan hátt en Íslendingar; í þá síðarnefndu vanti „skógarhugsun“, þ.e. að í skógunum felist verðmæti þegar til lengri tíma er litið. „Íslendingum er ekki tamt að plana langt fram í tímann og þeir hefjast gjarnan handa við ýmis verkefni en vilja sjá ávinning strax, þolinmæðinni er ekki alltaf fyrir að fara. Þegar menn leggja fyrir sig skógrækt verður að horfa langt fram í tímann, hálfa öld eða svo,“ segir Benjamín. Hann bætir við að í Noregi nýti menn jarðir sínar vel og séu gjarnan með skógarreit á hluta hennar sem þeir líti á sem varasjóð. Algengt sé að hafist sé handa við skógarhögg við kynslóðaskipti á jörðunum. „Það er töluverður peningur í því timbri sem til fellur í skógunum,“ segir hann. Þessi möguleiki er ekki fyrir hendi hér á landi í miklum mæli enda ekki sérlega langt síðan hafist var handa við skógrækt í einhverjum mæli. Niðurskurður hefur alvarlegar afleiðingar Mikill niðurskurður hefur verið í skógrækt hér á landi frá efnahagshruni haustið 2008, dregið var úr fjárveitingum með þeim afleiðingum að mun minna var plantað af trjám en á árunum þar á undan. „Þetta gap sem hefur myndast í gróðursetningum landshlutabundnu skógræktarverkefnanna mun koma fram síðar, er við förum að grisja skógana og fá úr þeim Benjamín Örn Davíðsson skógfræðingur flutti frá Noregi fyrir ári og starfar nú við skógarhögg á Íslandi: Næg verkefni árið um kring Myndir / MÞÞ

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.