Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2009, Síða 51

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.12.2009, Síða 51
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 6. tbl. 85. árg. 2009 47 Ritrýnd fræðigrein og þá oft á handahófskenndan hátt (Mitchell, 2005). Þegar saman fer aðhald í fjármálum, skortur á hjúkrunarfræðingum og æ styttri legutími sjúklinga er hætt við að aðrir þættir hjúkrunarþjónustu en þeir sem lúta að líkamlegum þörfum verði undir. Afleiðingar ógreindra og ómeðhöndlaðra sálrænna vandamála geta verið alvarlegar (World Health Organization, 2008) og því er mikilvægt að starfsfólk legudeilda, þar með talið hjúkrunarfræðingar, geti greint sjúklinga í áhættuhópi og brugðist raunhæft við. Hér verður greint frá rannsókn sem unnin var á Landspítala vorið 2007 í þeim tilgangi að varpa ljósi á samband kvíða­ og þunglyndiseinkenna, almennra einkenna og dvalar skurðsjúklinga á skurðlækningasviði spítalans. Kvíði og þunglyndi Yfirvofandi skurðaðgerð veldur fólki kvíða sem getur haft áhrif á allt bataferlið. Þar er ekki átt við kvíða sem eðlileg og jákvæð viðbrögð eins og skilgreining hjúkrunargreiningar hljóðar, heldur sáran kvíða sem veldur óþægilegri tilfinningu og hefur áhrif á hegðun einstaklingsins (Ásta Thoroddsen, 2002). Það sem sjúklingum finnst kvíðvænlegast er svæfingin (að vakna upp á meðan aðgerð stendur eða vakna ekki eftir aðgerð), óttinn við hið óþekkta, hugsanleg krabbameinsgreining, vanmáttarkennd, verkir og hræðsla við fylgikvilla (Leinonen og Leino­Kilpi, 1999; Mitchell, 2005). Ómeðhöndlaður kvíði getur aukið á sársauka eftir aðgerð, þörf fyrir verkja­ og svæfingalyf, lengt sjúkrahúsdvöl, leitt til sýkinga, annarra fylgikvilla og jafnvel dauða (Boeke o.fl., 1992; Carr o.fl., 2005; Frazier o.fl., 2003; Glaser o.fl., 1999; Kalkman o.fl., 2003; Manyande og Salmon, 1998; Nelson o.fl., 1998; Ramsay, 1972). Í rannsóknum hjúkrunarfræðinga hefur þunglyndi skurðsjúklinga ekki notið sömu athygli og kvíði. Tíu ára gamalt yfirlit 97 hjúkrunarrannsókna á umönnun skurðsjúklinga leiddi í ljós að mest áhersla var lögð á kvíða og verki en þunglyndi var ekki nefnt (Leinonen og Leino­Kilpi, 1999). Ekki er sjáanlegt að þessar áherslur hafi breyst. Hins vegar hefur verið bent á að þó stór hluti sjúklinga sé með mörg einkenni kvíða og þunglyndis sé þess ekki endilega getið í hjúkrunarskráningu (Carr o.fl., 2005). Í nýlegri úttekt á kvíða skurðsjúklinga gagnrýnir breski hjúkrunarfræðingurinn Mark Mitchell að hjúkrunarfræðingar hafi ekki skipulagt nýjar aðferðir til að meðhöndla sálræna vanlíðan í tengslum við skurðaðgerðir. Enn sé notast við úrræði frá því á síðari hluta síðustu aldar þegar fyrstu rannsóknaniðurstöður um árangur fræðslu komu fram (Mitchell, 2005). Þær aðferðir, sem felast einkum í að veita upplýsingar og dreifa athygli (e. distraction), séu vissulega gildar en þær þurfi að endurskoða og þá þarf að taka mið af þeim breytingum sem átt hafa sér stað í nútímaheilbrigðisþjónustu. Rannsóknir á þunglyndi í tengslum við skurðaðgerðir gefa til kynna að þunglyndið sé tengt alvarleika veikindanna, skertri virkni, endurinnlögnum og nýtingu mögulegra úrræða (Levenson o.fl., 1990; Silverstone, 1990). Flestar þeirra rannsókna hafa einskorðast við hjartaaðgerðir. Þær gefa til kynna að einkenni þunglyndis fyrir aðgerð auki líkur á endurinnlögnum, lakari almennri líðan, bakslagi sjúkdóms og síðari íhlutun svo sem hjartaþræðingu, auk neikvæðra áhrifa á daglegt atferli eins og að klæðast, þvo sér, fara á fætur og nærast (Ai o.fl., 2006; Baker o.fl., 2001; Ben­Zur o.fl., 2000; Connerney o.fl., 2001; Perski o.fl., 1998; Pignay­Demaria o.fl., 2003; Saur o.fl., 2001). Þetta bendir til þess að mikilvægt sé að leggja mat á sálræna líðan sjúklinga þegar þeir leggjast inn á sjúkradeild, en slíkt mat gæti leitt til þess að sjúklingar væru aðstoðaðir í tæka tíð og komið í veg fyrir óþægindi síðar. Fleiri hópar skurðsjúklinga en hjartasjúklingar hafa verið skoðaðir með tilliti til þunglyndis og er þá kvíði iðulega jafnframt metinn. Meðal karla, sem fara í blöðruhálskirtilstöku, og kvenna, sem fara í aðgerðir vegna kvensjúkdóma, virðast fara saman fleiri einkenni kvíða og þunglyndis fyrir aðgerð og meiri verkir eftir aðgerð, hvort heldur er strax eftir aðgerð eða nokkrum vikum síðar (Carr o.fl., 2005; Ene o.fl., 2006). Í bandarískri rannsókn meðal aldraðra sjúklinga reyndust fleiri einkenni um þunglyndi fyrir aðgerð auka líkur á bráðaóráði eftir aðgerð (Leung o.fl., 2005). Breskir rannsakendur mátu einkenni kvíða og þunglyndis við innlögn á og við útskrift af sjúkradeild hjá sjúklingum sem þurfti að taka af fót. Einkenni kvíða og þunglyndis minnkuðu almennt fljótt eftir aðgerðina en sjúklingar, sem höfðu lengi fundið fyrir slíkum einkennum, lágu lengur á sjúkradeild en aðrir (Singh o.fl., 2007). Þetta gefur til kynna að eðli sjúkdómsins, sem leiðir til aðgerðar, hefur áhrif á líðan fyrir aðgerð en vanlíðan eftir aðgerð virðist vega afar þungt í því hvernig sjúklingum farnast. Matskvarðinn Hospital Anxiety and Depression Scale (HADS), sem mælir einkenni kvíða og þunglyndis, var útbúinn til að meta algengustu sálrænu truflanirnar hjá líkamlega veikum sjúklingum (Zigmond og Snaith, 1983). Höfundarnir gengu út frá því að þunglyndi og kvíði fylgdu ekki aðeins líkamlegum veikindum heldur gætu þau verið dulin og komið fram sem líkamleg veikindi. Þeir töldu að sjúklingarnir sjálfir væru best til þess fallnir að dæma um eigin líðan og útbjuggu matskvarða sem er allt í senn stuttur, auðskiljanlegur og metur líðanina án þess að of­ eða vanmeta alvarlegri geðkvilla. Þessi kvarði hefur verið notaður í fjölda rannsókna og metur einkenni kvíða og þunglyndis. Gagnrýni á kvarðann lýtur helst að því að hann greini ekki nægilega vel sjúklinga með þunglyndis­ eða kvíðaröskun (Hall o.fl., 1999; Herrmann, 1997). Þeirri gagnrýni hefur verið svarað með að benda á að megintilgangur matskvarðans sé að greina einkenni kvíða og þunglyndis hjá líkamlega veikum sjúklingum en ekki að greina geðsjúkdóma. Í samantekt á reynslu af HADS­kvarðanum í klínískum rannsóknum kemur fram að kvarðinn hafi nýst vel á sjúkrahúsum til að greina þá sjúklinga sem þarfnist frekari athugunar (Herrmann, 1997). Þar kemur einnig fram að almennt fara konur hærra en karlmenn á kvíðakvarðanum og karlmenn hærra en konur á þunglyndiskvarðanum. Þá kom fram ólínulegt samband aldurs við HADS. Sjúklingar á aldrinum 30 til 39 ára fara hæst á kvíðakvarðanum en sjúklingar eldri en sjötugir lægst. Á þunglyndiskvarðanum fara sjúklingar á aldrinum 50 til 59 ára hæst en þeir sem yngri eru en 30 ára lægst. Fylgni er einnig á milli þess að fara hátt á HADS og líða skort á sálfélagslegum úrræðum. Þetta á ekki sérstaklega við um skurðsjúklinga, en rannsóknir á kvíða skurðsjúklinga hafa sýnt að yngri sjúklingar séu kvíðnari en þeir sem eldri eru (Herrmann, 1997).

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.