Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2010, Side 21
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 86. árg. 2010 17
Á vef landlæknis er að finna fjölmargar
leiðbeiningar um varnir við veirusmiti.
og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra
stýrðu þessari vinnu en margir aðilar
tóku þátt í verkinu sem lauk formlega
28. mars 2008. Eftir það hófst vinna
við svæðisbundnar viðbragðsáætlanir
fyrir hvert sóttvarnasvæði og taka þær
til aðstæðna og mannafla á hverjum
stað og voru unnar af heimamönnum.
Í framhaldi þessarar vinnu eru stofnanir
og fyrirtæki hvött til að búa til sínar eigin
viðbragðsáætlanir og er sniðmát til að gera
slíkar áætlanir og handhægan gátlista um
órofinn rekstur í inflúensufaraldri að finna
á vefslóðinni influensa.is.
Svínainflúensa á Íslandi
27. apríl 2009 hækkaði Alþjóðaheil
brigðismálastofnunin viðbúnaðarstig sitt því
nýja svínaflensuveiran hafði þá greinst í fimm
löndum. Í kjölfarið var viðbúnaðarstig hér á
landi aukið frá óvissustigi yfir á hættustig en
viðbúnaðarstig almannavarna hér á landi
er þriggja stiga: óvissustig, hættustig og
neyðarstig. Mikið fjölmiðlafár fylgdi í kjölfarið
sem olli áhyggjum og ótta hjá almenningi.
Samhliða hófst skipulögð upplýsingagjöf
sóttvarnalæknis um smitvarnir í fjölmiðlum
og á vefsíðu landlæknis um inflúensu,
bæði á íslensku og ensku. Hlífðarbúnaði,
eins og andlitsgrímum, sloppum, svuntum,
hönskum og hlífðargleraugum, var dreift
á öll sóttvarnasvæði landsins handa
heilbrigðisstarfsfólki á heilsugæslustöðvum,
starfsfólki í heimahjúkrun og öðrum
öryggishópum. Fyrsta tilfelli svínaflensu
greindist hér á landi 23. maí 2009 en
sá sjúklingur smitaðist í Bandaríkjunum.
Yfir sumarið og fram í september hélt
staðfestum tilfellum áfram að fjölga jafnt
og þétt og voru 19 til 30 ára einstaklingar
stærsti aldurshópurinn sem greindist
með veiruna. Um miðjan október færðist
faraldurinn mjög í aukana og náði fjöldi
greindra tilfella hámarki um mánaðamót
október og nóvember en á þeim tíma
voru börn undir tíu ára stærsti aldurshópur
þeirra sem greindust með veiruna. Um 180
einstaklingar voru lagðir á sjúkrahús vegna
svínainflúensunnar og þurftu 20 þeirra
öndunarvélameðferð á gjörgæslu vegna
alvarlegrar lungnabólgu. Í alvarlegustu
tilfellunum voru sjúklingarnir í hjarta og
lungnavélum svo vikum skipti. Í janúar
2010 höfðu samtals 9898 einstaklingar
verið skráðir með inflúensulík einkenni frá
upphafi faraldursins en veiran hefur greinst
í 709 einstaklingum. Sóttvarnalæknir
áætlar hins vegar að 50 til 60 þúsund
Íslendingar hafi sýkst. Tvö dauðsföll urðu
vegna svínainflúensunnar en báðir sem
létust voru með alvarlega sjúkdóma fyrir.
Bólusetning
Framleiðsla bóluefnis gegn svínainflúensu
hófst um leið og tekist hafði að greina
veiruna en framleiðslan er seinlegt ferli
og efnið var því ekki tilbúið fyrr en líða
tók á haustið. Stjórnvöld á Íslandi festu
kaup á 300.000 skömmtum sem áttu
að duga fyrir 150.000 manns þar sem
í fyrstu var reiknað með að hver og
einn þyrfti tvo skammta með nokkurra
vikna millibili. Rannsóknir sýndu hins
vegar að með einum skammti náðist
gott ónæmi og ákvað sóttvarnalæknir
á grundvelli þessara rannsókna að einn
skammtur bóluefnis veitti nægilega
vörn. Ákveðið var að bólusetja fyrst
heilbrigðisstarfsmenn, þá sem gegna
umönnunarstörfum á hjúkrunarheimilum
og sambýlum, sjúklinga með tiltekna
sjúkdóma, þungaðar konur og skilgreinda
öryggishópa. Bólusetning þessara
hópa hófst í október en bólusetning
almennings hófst 23. nóvember 2009.
Framkvæmdin, sem hjúkrunarfræðingar
hafa að mestu leyti annast, hefur gengið
ótrúlega vel þrátt fyrir að nokkrar tafir hafi
orðið á afgreiðslu bóluefnisins til landsins.
Í janúar 2010 höfðu rúmlega 125.000
einstaklingar á öllum aldri verið bólusettir
gegn svínainflúensu. Áfram verður haldið
með að bólusetja sem flesta hér á landi
til að koma í veg fyrir að svínainflúensan
breiðist aftur út hér á landi síðar í vetur
eða næsta vetur.
Samantekt
Svínainflúensufaraldurinn stendur enn þó
verulega hafi dregið úr útbreiðslu hans og
hefur viðbúnaðarstigið ekki verið lækkað.
Fyrstu tvær vikur janúar 2010 hafa verið
skráð 28 tilfelli inflúensulíkra einkenna.
Í ljósi fyrri reynslu af heimsfaröldrum
inflúensu má gera ráð fyrir að önnur
smitbylgja geti komið seinna í vetur eða
næsta vetur og því er hvatt til að sem
flestir láti bólusetja sig. Áður en faraldurinn
brast á var það mat sóttvarnalæknis að
allt að 3050% þjóðarinnar myndu sýkjast
á 12 vikna tímabili. Samkvæmt tölum
frá heilsugæslunni má ætla að 1520%
þjóðarinnar hafi sýkst. Líkleg skýring á
að faraldurinn varð ekki útbreiddari en
raun ber vitni er að mótvægisaðgerðirnar:
ráðleggingar um handþvott og sprittun,
smitgát við veikindi og varúð við hósta
og hnerra, veirulyf, bólusetning og notkun
hlífðarbúnaðar, hafi skilað þessum árangri.
Í faraldrinum kom í ljós að sú vinna, sem
lögð hefur verið í gerð viðbragðsáætlana,
innkaup á hlífðarbúnaði, skipulagningu
sóttvarnasvæða og kynningarfundi,
skilaði sér margfalt. Fram til þessa hefur
ekki verið til viðbragðsáætlun fyrir þjóð
félagið vegna smitandi sjúkdóma sem
staðið getur í margar vikur. Þó þessi
nýja viðbragðsáætlun sé helguð heims
faröldrum inflúensu mun hún geta nýst
okkur vegna margra annarra sjúkdóma
sem gætu breiðst út í faröldrum.
Ása St. Atladóttir er hjúkrunarfræðingur
og verkefnisstjóri á sóttvarnasviði
landlæknisembættisins.