Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2010, Page 55
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 86. árg. 2010 51
Ritrýnd fræðigrein
Störf hjúkrunarfræðinga á skurðlækningadeildum fela í stórum
dráttum í sér umönnun sjúklinga sem fara í skurðaðgerðir.
Ekki er vitað með vissu hvað starfið felur raunverulega í sér
enda hefur það lítt verið skoðað hérlendis. Í rannsóknum
erlendis hefur þó komið fram að starfið sé fjölbreytt, mikill
hraði ríki og hjúkrunarfræðingar njóti þess að sjá sjúklinga
ná bata eftir aðgerð. Þessir þættir valda því meðal annars
að hjúkrunarfræðingar sækja í störf á skurðlækningadeildum
(Mackintosh, 2007).
Erlendar rannsóknir á starfssviði hjúkrunarfræðinga fjalla ekki
allar um heildarmynd hjúkrunarstarfsins heldur um hluta þess
eða sýna það frá ákveðnum sjónarhóli. Niðurstöður benda þó
til fjölbreytileika og að störf hjúkrunarfræðinga, sem jafnan
hafa verið skilgreind út frá umönnun sjúklinga og samskiptum
við þá, snúi að miklu leyti að tæknilegum þáttum, stjórnun,
skipulagningu og kennslu, auk þess að halda heilbrigðiskerfinu
gangandi (Allen, 2007; Baumann, 2007; Morris o.fl., 2007).
Í Draumalandi hjúkrunarfræðinga fjallar Herdís Sveinsdóttir (2007)
um þá togstreitu sem myndast getur hjá hjúkrunarfræðingnum
þegar ósamræmi er á milli fræðilegra skrifa um starfið og
þess sem það felur í raun í sér. Þar segir hún frá áhyggjum
hjúkrunarfræðinga sem til hennar leituðu þegar hún var formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga: „Ég er ekki að vinna við
það sem ég lærði. Sjúklingarnir eru að fjarlægjast og minn
tími fer of mikið í rekstur og samhæfingu frekar en að hlynna
að sjúklingum“ (bls. 19). Slíkar áhyggjur eiga sér samsvörun í
erlendum rannsóknum. Niðurstöður Dingwall og Allen (2001)
voru þær að hjúkrunarfræðingar væru þjálfaðir til að vinna starf
sem hefur aldrei verið til, er ekki til núna og verði líklega aldrei
til. Þarna er vísað til hugmynda um hjúkrun sem tilfinningavinnu
með sjúklingum og er jafnvel horft fram hjá líkamlegum
og verklegum hlutum starfsins (Allen, 2007). Aukin fræðileg
umræða undanfarinna áratuga um hjúkrun sem umhyggjustarf,
þar sem starfið er skilgreint út frá samskiptum og umhyggju
en horft fram hjá þeim hluta starfsins sem snýr að sjúkdómum
og læknisfræðilegri meðferð (Nelson og Gordon, 2006), er
einnig talin hafa aukið á þessa skynjun hjúkrunarfræðinga.
Rannsókn Maben o.fl. (2007) er í þessum anda en þau
notuðu spurningalista og viðtöl til að lýsa reynslu nýútskrifaðra
breskra hjúkrunarfræðinga af því að beita einstaklingsmiðaðri,
heildrænni og gagnreyndri hjúkrun í starfi að námi loknu. Þessir
þættir eru mikilvægir í umræðu í bresku hjúkrunarsamfélagi
og drjúgur hluti af námi hjúkrunarfræðinganna. Niðurstöðurnar
voru þær að illa gekk að starfa samkvæmt slíkum hugsjónum
og gildum þegar á hólminn var komið og leiddi það til óánægju
í starfi, tíðra skipta á starfsvettvangi og kulnunar. Á svipaðan
hátt greindu niðurstöður kanadískrar fyrirbærafræðilegrar
rannsóknar á umhyggju, út frá sjónarhóli hjúkrunarfræðinga
á skurðlækningadeildum, frá því að þeir hörmuðu skort á
umhyggju í störfum sínum. Sögðu hjúkrunarfræðingarnir að
tímaskortur, veikari sjúklingar og lítil samfella hindruðu þá í
að sýna sjúklingum og hver öðrum þá umhyggju sem þeir
kysu. Jafnframt fundu þeir til togstreitu milli þess hvaða
umhyggju þeir ættu að veita og þess sem raunverulega var
veitt (Enns og Gregory, 2007). Breski hjúkrunarfræðingurinn
Davina Allen hefur í vettvangsrannsóknum sínum skoðað
misræmið milli rannsókna á störfum hjúkrunarfræðinga og þess
sem fræðin telja að í starfinu felist. Hún spyr hvort sú vinna,
sem hjúkrunarfræðingar inna af hendi í nútímaheilbrigðiskerfi
og mótuð er af staðsetningu þeirra í kerfinu, sé í mótsögn við
eðli og markmið fræðigreinarinnar sem birtast í áherslu á góð
tengsl við sjúklinga (Allen, 2004). Niðurstöður hennar eru þær
að hjúkrunarstarf á sjúkradeild skiptist í átta flokka sem taka
til þeirra verka sem hjúkrunarfræðingar sinna. Þeir: 1) fást við
margþætta verkefnaskrá, 2) stýra flæði sjúklinga um deild eða
stofnun, 3) fella sjúklinginn að vinnukerfinu á stofnuninni, 4) stýra
störfum annarra, 5) hliðra til mörkum hinna ýmsu starfsstétta,
6) ná í, vinna úr, túlka og flytja öðrum upplýsingar, 7) skrá og
8) forgangsraða umönnun og skynsamlegum úrræðum (Allen,
2007).
Nokkrar íslenskar rannsóknir, sem gerðar hafa verið á störfum
og starfsumhverfi íslenskra hjúkrunarfræðinga, gefa dálitla
innsýn í starf þeirra og aðstæður. Vettvangsrannsókn Kristínar
Björnsdóttur (1994), sem gerð var á störfum hjúkrunarfræðinga
hérlendis, náði meðal annars til hjúkrunarstarfsins og umfjöllunar
um það í opinberri umræðu og í einkasamtölum. Þar kom fram
að nokkurs misræmis gætti: Það sem hjúkrunarfræðingar líta á
sem hjúkrun kemur ekki fram í opinberri umræðu því umræðan
beinist fremur að læknisfræðilegri meðferð sjúkdóma. Kristín
vísar einnig til hinnar ósýnilegu vinnu sem fram fari í hjúkrun
og dæmigerð sé fyrir kvennastörf. Hjúkrunarfræðingarnir leggi
þannig til að mynda áherslu á mikilvægi samskiptaþáttarins í
starfinu. Þessi þáttur virðist fyrst og fremst vera persónulegur
skilningur hvers og eins hjúkrunarfræðings en er ekki ofarlega á
blaði í umfjöllun þeirra um faglega hjúkrun. Mikilvægi samskipta
við sjúklinga kom einnig fram í doktorsrannsókn Sigrúnar
Gunnarsdóttur (2006) á vinnuumhverfi hjúkrunarfræðinga á
Landspítalanum og tengsl þeirra við starfsánægju, kulnun og
mat á gæðum hjúkrunar. Þar kom einnig fram að mikilvægustu
vísbendingar um betri árangur og líðan fyrir hjúkrunarfræðinga
og sjúklinga eru stuðningur deildarstjóra, nægileg mönnun
og góð samskipti hjúkrunarfræðings og læknis. Í eigindlegri
rannsókn Bryndísar Þorvaldsdóttur o.fl. (2009) á reynslu og
líðan hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum og viðhorfi þeirra
til veikindafjarvista, kom fram að ánægja hjúkrunarfræðinga
tengdist fyrst og fremst starfinu sjálfu og inntaki þess en
vanlíðan hins vegar frekar ytri þáttum. Það olli til að mynda
mikilli vanlíðan að ná ekki að ljúka þeim störfum sem
þurfti á vinnudeginum. Þá hafði það mikil áhrif á líðan og
veikindafjarvistir hvernig stjórnun var háttað á vinnustaðnum og
hvort hjúkrunarfræðingarnir fengu hrós fyrir störf sín.
Hér á eftir verður sagt frá niðurstöðum rýnihóps hjúkrunar
fræðinga sem var að störfum á skurðlækningadeildum
Landspítalans veturinn 20062007. Hvatinn að myndun
rýnihópsins var rannsókn Allen (2004) og þær hugmyndir
að hjúkrunarfræðingum fyndist vera ósamræmi á milli eigin
hugmynda um hvað hjúkrun stæði fyrir og í hverju hið
raunverulega starf fælist. Markmið rannsóknarinnar var
því að greina hvað felst í störfum hjúkrunarfræðinga á
skurðlækningasviði Landspítala.