Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2011, Qupperneq 21

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.04.2011, Qupperneq 21
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 2. tbl. 87. árg. 2011 17 Þegar vitað var að HIV­smit gæti borist með menguðum sprautubúnaði var ljóst að standa þyrfti að smitvörnum með gildi lýðheilsufræði í huga. Þar sem sýktur sprautubúnaður var skaðvaldurinn varð að gera hreinan búnað aðgengilegan (O´Hare, 2007). Upp úr 1980 voru því ýmis úrræði byggð á skaðaminnkun kynnt til sögunnar í fjölmörgum löndum og þá sérstaklega í Hollandi. Þeim var ætlað að draga úr útbreiðslu lifrarbólgu­ og HIV­smits af völdum sprautunotkunar. Þannig var HIV­smit álitið meiri ógn en vímuefnaneyslan sjálf. Árið 1986 fóru Bretar að fordæmi Hollendinga og settu á stofn nálaskiptiþjónustu í Merseyside. Aðsókn í nálaskiptiþjónustuna óx sífellt en þrátt fyrir það var enn erfitt að ná til fjölda fólks. Brugðið var á það ráð að stunda samfélagsmiðaða nærþjónustu. Þannig náði þjónustan til þessa dulda en mikilvæga jaðarhóps (O´Hare, 2007). Svipuð úrræði voru einnig opnuð í Ástralíu árið 1986 og í Kanada 1988 (Einstein, 2007). Þjóðir, sem höfðu tileinkað sér skaðaminnkandi úrræði, eins og Bretar og Hollendingar, voru best undir það búnar að bregðast við er HIV­faraldur braust út á meðal vímuefnaneytenda. Síðan hafa fleiri þjóðir víðs vegar um heiminn gripið til skaðamildandi aðgerða í þessum tilgangi (O´Hare, 2007). Skaðaminnkun í framkvæmd Skaðaminnkun er hægt að nota á flestum sviðum heilsuverndar og heilbrigðisþjónustu. Til dæmis stuðla áhættuþættir eins og reykingar, offita, mikil streita og hreyfingarleysi að ýmsum langvinnum sjúkdómum sem eru kostnaðarsamir fyrir einstaklinginn, heilbrigðiskerfið og samfélagið í heild. Samkvæmt viðmiðum skaðaminnkunar er óhjákvæmilegt annað en að einstaklingar í hverju samfélagi fyrir sig stundi einhverja áhættuhegðun. Því er mikilvægt að forgangsraða markmiðum og móta aðgerðir sem eru raunsæ og beinast að því að minnka skaða sem hlýst af tiltekinni áhættuhegðun. Víða hefur skaðaminnkun þó fyrst og fremst nýst til að móta úrræði fyrir þá sem sprauta sig með vímuefnum í æð og er tilgangurinn að hægja á útbreiðslu HIV­ og lifrarbólgu B og C­smits (Marlatt, 1998). Þannig hafa skaðaminnkandi úrræði víða verið notuð í forvörnum gegn blóðsmitandi sjúkdómum á meðal fíkla. Á þeim stöðum, þar sem þróun slíkra forvarna byggist á rannsóknum á þörfum einstaklinganna í samfélaginu, hefur tekist vel til og dregið úr áhættusamri sprautuhegðun. Í nágrannalöndunum hefur því tekist að fækka nýjum tilfellum HIV­ og lifrarbólgusmits á meðal fíkla sem nota sprautubúnað (National Institute on Drug Abuse [NIDA], 2002). Nærþjónusta, sem grundvallast á skaða­ minnkun, er samfélagsmiðuð, ókeypis fyrir notendur og felst í því að þeir sem þjónustuna veita leita uppi einstaklingana. Þannig er þjónustan veitt í umhverfi þeirra sem hana þiggja eða því umhverfi sem er aðgengilegast fyrir þá frekar en að hafa þjónustuna bundna eingöngu við heilsugæslustöðvar eða sjúkrahús. Þannig er stuðlað að auknu aðgengi að sprautubúnaði ásamt því að veita notendum ýmsa fræðsla og ráðgjöf. Meta verður árangur og áhrif slíkra verkefna ásamt breytingum á þörfum samfélagsins (NIDA, 2002). Nálaskiptiþjónusta Nálaskiptiþjónusta er skaðaminnkandii úrræði þar sem markmiðið er að draga úr skaða sem hlýst af notkun sprautu­ búnaðar (Einstein, 2007). Alhliða nála­ skiptistöð veitir fíklum, sem einhverra hluta vegna vilja ekki eða geta ekki hætt neyslu eða farið í meðferð, aðgang að hreinum nálum, sprautum og öðrum sprautubúnaði sér að kostnaðarlausu og kemur notuðum og hugsanlega sýktum búnaði úr umferð. Þannig er dregið úr hættunni á því að sýktur sprautubúnaður liggi á víðavangi og komist til dæmis í hendur barna. Nálaskiptistöðin hefur einnig annan búnað til sýkingarvarna, svo sem smokka og HIV­ og lifrarbólgupróf en þar að auki er hægt að fá ráðgjöf um þessi mál. Þannig gegnir nálaskiptistöðin mikilvægu hlutverki í auknu aðgengi að HIV­ og lifrarbólguskimun fyrir þá fíkla sem annars væru ólíklegir til að sækjast eftir slíkum prófum (Heinzerling o.fl., 2007). Í Ástralíu hafa nálaskiptistöðvar einnig boðið upp á nálabox og fræðslu um örugga förgun notaðra nála og hafa þannig reynt að auka öryggi almennings jafnt sem sprautunotenda. Til viðbótar þessu er sumstaðar boðið upp á heilsueflingu, fræðslu og áfallahjálp fyrir sprautunotendur (Thein o.fl., 2003). Því er ljóst að nálaskiptistöðvar veita einstakt tækifæri til að hafa beint og óbeint eftirlit með breytingum á heilsu þeirra fíkla sem þær sækja ásamt því að fylgjast með breytingum í vímuefnaheiminum (NIDA, 2002). Nálaskiptistöð getur einnig verið tengiliður fyrir fíklana við aðra heilbrigðisþjónustu, svo sem ráðgjafarþjónustu vegna sýkinga eða meðferðarúrræða. Því er mikilvægt að þeir sem ráðgjafarþjónustuna veita séu aðgengilegir og taki vel á móti einstaklingum sem aðilar í nálaskiptistöð hafa vísað þangað (NIDA, 2002). Það er mikilvægt að starfsfólk nálaskiptistöðvar komi fram við notendur af virðingu og fordómaleysi, ekki síst í ljósi þess að hræðslan við fordóma eða stimplun er ein af þeim hindrunum sem koma í veg fyrir að sprautunotendur nýti sér þjónustu nálaskiptistöðva (Treloar og Cao, 2005). Útfærsla á nálaskiptiþjónustu er misjöfn eftir samfélögum og getur farið fram víðs vegar í samfélaginu, til dæmis úti á götu, í apótekum, fangelsum og sjúkrahúsum, með bílum eða heimsendingu. Þá hafa sjálfsalar verið nýttir víða erlendis (Einstein, 2007). Þannig hefur nálaskiptiþjónusta ýmist verið veitt út frá ákveðnum stöðum eða færð á milli staða eftir tímaáætlun og eru þá gjarnan notaðir bílar, svokallaðir heilsubílar. Heilsubílar eru starfræktir til þess að spanna stærra svæði og gefa þannig þeim sem ekki búa í grennd við fasta nálaskiptistöð kost á að nýta sér þjónustuna. Bílarnir koma að mjög góðum notum á svæðum þar sem lítið er um sprautunotendur. Þeir fara um svæðin samkvæmt tímaáætlun og er helsti galli þessa fyrirkomulags hættan á að notendur missi af bílnum þar sem takmarkaður tími er til að stoppa á hverjum stað (Wood o.fl., 2002). Nálaskiptiþjónusta stendur frammi fyrir ýmis konar hindrunum. Sem dæmi mætir slík þjónusta víða andstöðu jafnt sem skorti á fjármagni (Wood o.fl., 2002). Ljóst er að til þess að hámarksaðgengi að sprautum og nálum náist væri

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.