Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2013, Blaðsíða 39
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 3. tbl. 89. árg. 2013 35
Formaður kjörnefndar stingur síðustu
póstatkvæðunum í kjörkassann en þau höfðu
þá verið sótt í póstlúgu skrifstofunnar klukkan
nákvæmlega 17.00.
eftir þörfum þangað til næsti aðalfundur
fer fram og hefur það margoft verið gert.
Kjörnefnd setti sér mjög stífar reglur um
framkvæmd seinni kosninganna. Talið var
strax eftir að kosningu lauk og úrslitin birt
örfáum klukkustundum seinna.
Ólafur er kvæntur Svanhvíti Friðriksdóttur
nema og saman eiga þau þrjú börn á
aldrinum tveggja til níu ára. Hann lauk
hjúkrunarnámi 2006 og hefur unnið á
Kópaskeri, í Noregi og á Landspítala.
Þá er hann með diplóma í skurðhjúkrun
og starfaði síðast á skurðdeildinni í
Fossvogi. Ólafur var formaður Curators,
félags hjúkrunarfræðinema við HÍ, í tvö ár
og sat eftir útskrift í kjaranefnd félagsins,
einnig í tvö ár. Samhliða hjúkrunarstarfinu
hefur hann meðal annars sinnt kennslu
í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og frá
2005 starfað í sumarbúðum fyrir börn
og unglinga með sykursýki á vegum
Dropans, styrktarfélags sykursjúkra
barna og unglinga.
Tímarit hjúkrunarfræðinga náði tali af
Ólafi stuttu eftir kosningar og sagði hann
niðurstöðuna leggjast mjög vel í sig.
Hann hlakkar til þess að takast á við
þetta spennandi og krefjandi starf og fá
að vinna fyrir hjúkrunarfræðinga.
Aðspurður um hvað verði fyrsta verk
hans sem formaður segist hann ekki
gera sér alveg grein fyrir því. Hann
þurfi fyrst að kynnast starfinu betur.
„Ætli tíminn fari ekki fyrst í að lesa
reglugerðir, kjarasamninga, lög og þess
háttar og kynnast starfsfólkinu. Ég hef
kynnt mér félagið vel alveg frá upphafi.
Þó að ég hafi kannski ekki verið mjög
virkur í nefndum og stjórnum þá hef
ég alltaf fylgst mjög vel með, skoðað
heimasíðuna, lesið allt sem kemur frá
félaginu og mætt á aðalfundi þegar ég
hef haft tök á því,“ segir Ólafur.
Hann segir það hafa komið sér dálítið á
óvart að hann skyldi verða kosinn. „Ég
ákvað að bjóða mig fram eftir að hafa
verið hvattur til þess af mjög mörgum
hjúkrunarfræðingum þannig að ég vissi
að ég hafði góðan stuðning. En ég bjóst
ekkert frekar við að ég myndi vinna
heldur en einhver annar. Við höfðum öll
ágætisstuðning bak við okkur. Þannig
að, já, það kom mér dálítið á óvart.
Sérstaklega í seinna skiptið. Ég bjóst
við að ég eða Vigdís myndi rétt hafa
sigur þannig að það kom mér á óvart
hvað sveiflan var mikill í seinna skiptið.“
Ólafur telur það hafa verið til góðs að það
skyldi vera kosið tvisvar enda hefur hann
lagt fram lagabreytingu um að svo verði
framvegis. „Ég hef núna meiri stuðning í
starfi en ég hafði í fyrri kosningu. Þetta
er líka betra fyrir félagsmenn, þeir vita þá
að formaðurinn er kosinn á réttan hátt
og hefur gott fylgi. Það skiptir máli fyrir
samstöðuna í stéttinni,“ segir hann.
Ólafur telur ekki tímabært að taka afstöðu
til hverju þurfi að breyta í félaginu. „Ég
hitti talsvert af hjúkrunarfræðingum í
kosningabaráttunni og margir vilja breyta
hinu og þessu þannig að ég hef búið til
lista, sem ég ætla núna að skoða, yfir
atriði sem félagsmenn hafa lagt til við mig.
En mér finnst óábyrgt að ætla að segjast
vilja breyta einhverju sem ég þekki enn
þá ekki nógu vel hvernig er gert. Ég hef
bara takmarkaðar upplýsingar og hef ekki
verið í stjórn og inni í félagsstarfinu. Því
þarf ég að skoða hlutina vel í samvinnu
við stjórn, starfsfólkið á skrifstofunni
og aðra hjúkrunarfræðinga hvernig við
viljum hafa félagið okkar. Það er ekkert
kappsmál fyrir mig að breyta öllu strax
og ég byrja hér, en auðvitað vil ég skoða
það sem hjúkrunarfræðingar hafa talað
um,“ segir Ólafur.
Í kosningabaráttunni lagði Ólafur áherslu
á að harðar yrði barist fyrir bættum
kjörum hjúkrunarfræðinga og að félags
menn þyrftu að hafa betra aðgengi að
upplýsingum. Hann taldi mikilvægt að
næsti formaður kæmi úr röðum ungra
hjúkrunarfræðinga sem hafa mikinn hag
af því að berjast fyrir bættum kjörum
og hafa þurft að sjá fyrir fjölskyldu á
þeim kjörum sem hjúkrunarfræðingum
bjóðast í dag. Þá kom einnig fram í
kosningabaráttunni að hann vildi vinna
að því að gagnsæi í störfum félagsins
yrði meira, að upplýsingaflæði til
félagsmanna yrði aukið og þeim gert
enn frekar kleift að fylgjast með starfsemi
félagsins. Hann vill líka auka áhuga
hjúkrunarfræðinga á félagsstörfum með
því að nota nútímasamskiptaleiðir til að
miðla upplýsingum.
Ólafur tók við keflinu úr hendi Elsu B.
Friðfinnsdóttur, fráfarandi formanns,
á aðal fundinum 31. maí sl. Tímarit
hjúkrunar fræðinga óskar honum vel
farnaðar í starfi. Fyrsta formannspistil
Ólafs er að finna á bls. 3 ásamt síðasta
pistli Elsu.