Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2013, Qupperneq 53

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.06.2013, Qupperneq 53
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 3. tbl. 89. árg. 2013 49 Ritrýnd fræðigrein SCIENTIFIC PAPER Samkvæmt evrópsku vinnuverndarstofnuninni, European agency for safety and health at work (2003) stríðir fjórðungur launþega í Evrópu við vinnustreituvandamál sem tengjast of miklu andlegu og félagslegu álagi í starfi og leiða til veikindafjarvista. Kerfisbundin yfirgreining (e. meta­analysis) 485 rannsókna um tengsl starfsánægju og heilbrigðis, með samanlagt 267.995 þátttakendum, sýnir sterk tengsl starfsánægju og andlegs og líkamlegs heilbrigðis (Faragher o.fl., 2005). Tengslin eru áberandi varðandi geðheilbrigði, einkum kulnun. Rannsóknin staðfestir að óánægja í vinnu getur verið hættuleg geðheilbrigði og vellíðan og að þessi óánægja tengist m.a. vinnutíma, stjórnunarstíl stofnunar, vinnuálagi og sjálfræði í starfi. Viðhorf til stjórnunar og líðan í starfi Stuðningur og áhugi stjórnenda skipta miklu máli fyrir heilbrigt starfsumhverfi, starfsánægju og gæði þjónustu. Samkvæmt rannsókn Bogaert o.fl. (2009) hefur stuðningur frá stjórnendum talsverð áhrif á tilfinningaþrot, starfsárangur og vinnuframlag. Stefna stofnunar hefur einnig áhrif á starfsánægju (Bogaert o.fl., 2009; Matzler og Renzl, 2006). Fjölmargar rannsóknir sýna fram á tengsl milli vinnuumhverfis og streitu (Bogaert o.fl., 2009; Guðbjörg Linda Rafnsdóttir o.fl., 2004), streitu og kulnunar (Lorenz o.fl., 2010; Poghosyan o.fl., 2010), streitu, kulnunar og starfsálags á hjúkrunardeildum á landsbyggðinni í samanburði við þéttbýliskjarna (Opie o.fl., 2010) og kulnunar og framlags til þjónustu (Bogaert o.fl., 2009; Poghosyan o.fl., 2010). Einnig er sterk fylgni eineltis á vinnustað við starfsanda, stjórnunarhætti og viðhorf til vinnunnar (Dagrún Þórðardóttir, 2006). Í rannsókn Noelker o.fl. (2009), sem gerð var á 49 hjúkrunar­ einingum, þar af 27 hjúkrunarheimilum, mældist minnst starfsánægja meðal starfsfólks á hjúkrunarheimilum. Meira var um líkamlegt álag, skort á starfsfólki, samdrátt og breytingar. Allt þetta jók streitu og dró úr starfsánægju. Í rannsókn Sigrúnar Gunnarsdóttur (2006) á starfsskilyrðum hjúkrunarfræðinga Landspítala­háskólasjúkrahúss (LSH) sjást tengsl milli kulnunar­ einkenna starfsfólks og stuðnings stjórnenda. Samsvarandi rannsóknir á líðan starfsfólks hjúkrunardeilda á landsbyggðinni skortir. Breytingar og áhrif þeirra á stjórnun, skipulag og samstarf Á tíunda áratugi 20. aldar mótuðu íslensk stjórnvöld stefnu um „velferð á varanlegum grunni“ þar sem stefnt var meðal annars að því að draga úr kostnaði í heilbrigðisþjónustu (Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, 2006). Ný stjórnunarhugmyndafræði var innleidd og áherslur í rekstri breyttust. Markmið breytinganna voru að aðlaga skipulag og starfsemi heilbrigðisþjónustunnar að þjóðfélagsbreytingum og auka gæði og framleiðni þjónustunnar með minni kostnaði (Fjármálaráðuneytið, 2000; Heilbrigðis­ og tryggingamálaráðuneytið, 2001). Skipulagsbreytingar og sparnaður í heilbrigðiskerfinu hófst þannig löngu fyrir efnahagshrunið 2008. Árið 2009 var heilbrigðisstofnunum áfram gert að skera niður um allt að 10%, án tillits til sparnaðarkrafna mörg ár þar á undan (Elsa B. Friðfinnsdóttir, 2009). Á hjúkrunarheimilum, þar sem laun eru allt að 80% af rekstrarkostnaði, hafa þessar skipulagsbreytingar komið hvað mest niður á starfsaðstæðum. Margar litlar stofnanir hafa verið sameinaðar og verkefni færð til (Elsa B. Friðfinnsdóttir, 2011). Hjúkrunarfræðingar, bæði hérlendis og erlendis, takast á við gjörbreyttan veruleika eftir efnahagshrunið haustið 2008 og óánægja með ófaglegar ákvarðanir tengdar breytingunum hefur vaxið (Newman og Lawler, 2009; Sigrún Gunnarsdóttir, 2010). Í rannsókn Newman og Lawler (2009) kemur fram að margítrekaðar kröfur um hagræðingu, sparnað og nýtt skipulag hafa slæm áhrif á hjúkrunarstörf. Spurningakönnun Berg (2006) á árangri eftir skipulagsbreytingar í opinberri þjónustu í Noregi, með 2677 þátttakendum, sýnir að óánægja starfsfólks stafaði aðallega af auknum kröfum um gott starf fyrir minni umbun. Endurskipulagning heilbrigðisstofnana getur komið neikvæðu róti á starfsumhverfið, einkum ef stjórnendur verða of uppteknir af fjárhagslegri skilvirkni og mannauðurinn gleymist (Buchanan o.fl., 2005). Eigindleg rannsókn Blythe o.fl. (2001), meðal 59 hjúkrunarfræðinga, sýnir að við skipulagsbreytingar rofnuðu samskipti hópa, óvissa skapaðist um hlutverkaskiptingu og skerðing varð á valdsviðum. Boðleiðir milli starfsfólks og stjórnenda urðu lengri, samskipti stopulli og formlegri og ákvarðanir oft teknar án samráðs. Einnig fannst hjúkrunarstjórnendum möguleikar þeirra til áhrifa sem málsvara hjúkrunar og umönnunar hafa minnkað. Álag í starfi jókst og hafði neikvæð áhrif á starfsánægju og væntingar starfsfólksins til stjórnunarinnar (Newman og Lawler, 2009). Þótt stefnt sé að bættri þjónustu geta breytingar á stjórnun og rekstri heilbrigðisstofnana haft neikvæð áhrif á líðan starfsfólks og þar með á gæði þjónustunnar (Berg, 2006; Blythe o.fl., 2001; Bogaert o.fl., 2009). Samkvæmt rannsókn Roed og Fevang (2007) kom fram að langvarandi niðurskurður á starfsemi vinnustaðar hafði neikvæð áhrif á líðan hjúkrunarfræðinga og viðhorf til stjórnunar og jók veikindafjarvistir. Með sameiningu sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana hefur samdráttur orðið hvað mestur á landsbyggðinni (Elsa B. Friðfinnsdóttir, 2011). Ástæða er til að ætla að líðan heilbrigðisstarfsfólks, ekki síst á landsbyggðinni, hafi versnað í kjölfar efnahagsþróunar og skipulagsbreytinga undanfarinna ára. Skort hefur rannsóknir hérlendis á tengslum kulnunar og stuðnings frá stjórnendum heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni á breytingatímum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna viðhorf starfsfólks hjúkrunardeilda á landsbyggðinni til stjórnunar, stjórnenda og stofnunar sinnar, ásamt starfsánægju þeirra og líðan. Einnig að kanna hvort tengsl væru milli líðanar og stjórnunarlegra þátta og hvort munur væri á starfsánægju, viðhorfum og líðan starfsfólks eftir landshlutum og starfsstéttum. AÐFERÐ Rannsóknarsnið og þátttakendur Rannsóknin var lýsandi þversniðskönnun meðal hjúkrunar­ fræðinga, sjúkraliða og aðstoðarfólks í hjúkrun á hjúkrunar­ deildum meðalstórra heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.