Tímarit Máls og menningar - 30.03.2001, Blaðsíða 6
Er glansmyndin að upplitast?
Svíar taka útlendingum misopnum örmum
Brynhildur Þórarinsdóttir
„Það eru til fallegri staðir í Stokkhólmi! Ekki vera
hér.“ Ég er stödd í Rinkeby, úthverfi Stokkhólms og
hjá mér stendur reiður maður í rykfrakka. Ég er að
taka myndir. Hann vinnur á hverfisskrifstofunni.
Þetta er ósköp venjulegt blokkahverfi, ég gæti
allt eins verið í Bökkunum í Breiðholtinu eða
Rimunum í Grafarvogi. Nema hér eru allir svartir. Ég
er í Afríku. Afríka er hlý, allir brosa við gestinum,
nema maðurinn í frakkanum. Hann er grár eins og
allir jakkafatamenn. „Þetta er ekki týpiskt fyrir
Stokkhólm,“ segir hann með einhverjum hreim sem
ég þekki ekki og bandar mér í burtu. „Farðu í Gamla
Stan, farðu á söfn. Farðu héðan.“
Ég hef húsnæði í Gamla Stan, fallegasta hluta
Stokkhólms. Hér eru antikverslanir og pillerísbúðir
og handan við Stortorget – eða Miklatorg, er
konungshöllin. Kóngurinn tók sér útlenska konu,
hún er þýsk-brasilísk, samt er hún sænska
drottningin og táknmynd Svíþjóðar á póstkortum og
glansmyndum. Enginn ræðir um innflytjandann í
höllinni. Enginn hefur nokkru sinni fett fingur út í þá
ævagömlu hefð sænsku konunganna að taka sér
erlenda aðalsmey fyrir drottningu. Áður fyrr voru
þær frá Prússlandi, Danmörku eða Póllandi. Þær
hafa aldrei verið frá Afríku.
Dóttir þýsk-brasilísku drottningarinnar verður
einhvern tíma drottning sjálf, hún er elst og hún
mun ráða yfir öllu ríkinu. Viktoría prinsessa er
annarrar kynslóðar innflytjandi ef maður notar
orðalag götunnar. Fjölmiðlarnir tala um að annarrar
kynslóðar innflytjandi hafi framið þennan glæpinn
eða hinn, hins vegar drýgir al-sænska krón-
prinsessan þessa eða hina dáðina.
Á grænmetismarkaðinum hitti ég annan annarrar
kynslóðar innflytjanda. Hann er svartbrýndur, talar
með hreim, selur plómur. Ég kaupi fimm stykki og
spyr hvaðan hann komi. „Tyrklandi,“ segir hann. Ég
spyr hvort hann sé búinn að vera lengi í landinu.
„Ég er fæddur hér,“ svarar hann. „Hef aldrei komið
til Tyrklands“. „Af hverju sagðist hann ekki vera
sænskur?“ hugsa ég og bæti við strengjabaunum.
Svo man ég eftir Bjarna geimfara sem er íslenskur
þótt hann tali hvorki málið né hafi nokkuð haft til
Íslands að sækja annað en fálkaorðuna. Vala
Flosadóttir er innflytjandi í Svíþjóð og þeir vilja eigna
sér hana, líka nasistarnir. Þeir vilja hins vegar ekki
eiga Tyrkina. Kannski ef þeir væru ljóshærðir,
hávaxnir afreksmenn en ekki baunasalar með
yfirskegg.
Tyrkirnir stýra grænmetisáti Stokkhólmsbúa. Þeir
brosa framan í myndavélina og biðja um fleiri
myndir. „Hei, hér, ég, ég, taktu mynd af mér...“ Hér
er enginn stiftamtmaður í stífaðri skyrtu að skipta
sér af.
Sírenuvæl í fína hverfinu
„Hér eru innflytjendur og flóttamenn,“ sagði
frakkamaðurinn í Rinkeby. „Þeir vilja ekki láta taka
myndir af sér, þeir gætu orðið reiðir“.
Það hefur enginn áður bannað mér að taka
myndir úti á torgi. Ég flýti mér í tunnelbanann, tek
stór skref og lít reglulega um öxl. Sem betur fer er
enginn sem eltir. Ég tek tunnelbanann til Östermalm
þar sem konurnar ganga í pelsum með hennalit í
hárinu. Hvítar konur með ljóst hár.
Hávært sírenuvæl tekur á móti mér á aðal-
verslunargötunni og löggan brunar blikkandi hjá. Um
kvöldið heyri ég í fréttunum að vopnað rán hafi verið
framið í þessu fína hverfi.
Ég hefði betur verið lengur í Rinkeby.
Mannlífið í Rinkeby er afslappað, að minnsta
kosti á yfirborðinu. Karlmennirnir sitja á kaffihúsinu,
borða dísætar þurrkökur og drekka rótsterkt kaffi
með korgi eða standa á torginu og stinga saman
nefjum. Konurnar arka um með barnakerrur, kíkja í
búðir eða bera innkaupapoka. Í búðunum fást gullúr
og keðjur, arabískar kassettur og slæður í öllum
regnbogans litum. Hér er ekkert Hennes & Mauritz.
Börnin hlæja og gráta á heimsmáli barna en
mæðurnar sjást ekki skipta skapi, þær eru huldar
bak við blæjur og klúta.
Mér verður ósjálfrátt á að rifja upp heimildarmynd
sem ég sá einu sinni um umskurð kvenna. Í Sómalíu
tíðkast þessi siður víst enn og hér í úthverfi
Stokkhólms eru sómalskar konur á rölti í kaldri
sólinni. Það setur að mér hroll. Mér er sagt að
menningin breytist ekki svo glatt þótt komið sé í
nýtt land. Sums staðar hefur þurft að grípa inn í
þegar innflytjendur vilja halda í þessar fornu hefðir.
Fræðsla og aftur fræðsla er boðorðið, segja Svíar og
þeir hörðustu fara fram á að nýju Svíarnir taki
algerlega upp nýja siði. „Útlendingarnir eiga að skilja
sína menningu eftir heima,“ segja þeir meðan þeir
raða í sig hummusi og kebabi.
Það er föstudagur í Rinkeby og enginn er að
stressa sig við að ná aftur í vinnuna. Atvinnuleysið
slær öll met í innflytjendahverfunum. Í Rinkeby er
atvinnuleysið átta sinnum meira en í hinum „góðu“
úthverfum Stokkhólms, ferfalt meira en að meðal-
tali í borginni. Mona Salin atvinnumálaráðherra, sem
er með málefni innflytjenda á sinni könnu, vill taka
upp kvótakerfi á vinnumarkaðinum. Sæki tveir menn
um vinnu, einn Svíi og einn útlendingur, vill Mona
að innflytjandinn verði ráðinn. Hún segist vera búin
að fá nóg af því að verkfræðingur selji henni tómata
og skurðlæknir skúri skrifstofuna hennar.
Hugmyndir Monu eru mjög umdeildar. Bent er á
það í blöðunum að tyrkneskur tannlæknir hafi fengið
vinnu innan 36 stunda, annar tyrkneskur tannlæknir
sé enn atvinnulaus eftir 36 ár. Atvinnuleysið sé ekki
endilega upprunanum að kenna. „Tóm leti,“ segja
rasistarnir en vilja samt ekki að útlendingarnir vinni
fyrir sér því þá taka þeir vinnu frá „alvöru“ Svíum.
Atvinnuleysið er þó ekki það eina sem greinir að
innflytjendahverfin og fínni hverfin umhverfis
Stokkhólm. Í Rinkeby er þriðjungur fullorðinna íbúa
einungis með lágmarksmenntun, en aðeins fjórir af
hverjum hundrað fylla þann flokk í betri hverfunum.
Meira en þriðjungur lifir af algerum lágmarkstekjum
samanborið við 11% í betri hverfunum og einungis
5 af hverjum hundrað teljast hafa há laun. Það sem
verra er, aðeins 58% íbúa í verr stöddu hverfunum
nýta sér kosningarétt sinn en hlutfallið er 90% í
ríkari hverfunum.
G8126 tmm mars 22x27 Q.4.1 3/30/01 11:45 PM Page 6