Tímarit Máls og menningar - 30.03.2001, Blaðsíða 60
sögu byggir mikið á því að sviðsetningar gangi upp
og í litlum byggðarlögum eins og hér á landi viljum
við helst láta þau hús vera til sem um er fjallað. Svo
dæmi sé tekið þá gengur ekki upp fyrir íslenskan
höfund að geta þess að afbrot sé framið í
fjölbýlishúsi við götu þar sem eingöngu einbýlishús
eru í raunveruleikanum eða að láta frásögn eiga sér
stað á tilbúinni götu í miðbænum. Segja má að
íslenskir lesendur hafi í huganum skýra mynd af
þeirri götu sem nefnd er í sögunni og sú mynd sem
höfundur dregur upp verður að passa við þá sem
lesandinn hefur. Þarna hafa erlendir höfundar miklu
frjálsari hendur því flestar sakamálasögur gerast að
hluta í stórborgum þar sem íbúar þekkja aðeins
takmarkað til einstakra hluta borganna.
Uppbygging spennu
Eitt helsta vandamál höfunda sem fjalla um afbrot er
að byggja upp spennu um tildrög og atburðarás við
brotið, því þetta verður alltaf í ákveðnu ósamræmi
við raunveruleikann. Þannig vinnur lögregla í
flestum tilvikum markvissa vettvangsvinnu þar sem
grafist er fyrir um atburðarásina. Þessa atburðarás
þarf yfirleitt að hafa umtalsvert hægari í frásögnum
bóka, og reyndar einnig kvikmynda, svo að ráðrúm
gefist til að byggja upp spennu.
Á þessu sviði er einna helst hægt að setja fram
ábendingar sem bætt geta þekkingu íslensku
höfundanna, einkum um möguleika tækninnar og
gildi hennar fyrir rannsóknir í heild sinni. Miklar
framfarir hafa orðið á þessu sviði hjá lögreglunni og
hefur miklum fjármunum verið varið til að tryggja
meiri möguleika hennar. Staðreyndin er sú að
einstaklingur getur ekki komið inn á ákveðinn
vettvang, t.d. inn í íbúð, án þess að skilja eftir sig
(eða taka með sér) ummerki sem hægt er að nota til
að sanna veru hans á staðnum. Það er í raun
einungis spurning um hversu mikill tæknibúnaður er
til staðar og hversu mikil vinna er lögð í rannsóknina.
Að mínu mati hefur Stellu Blómkvist tekist
sérstaklega vel upp í þessum þætti. Uppbygging
spennu í Morðinu í sjónvarpinu gengur að minnsta
kosti mjög vel upp í raunveruleikanum.
Íslenskt samfélag hefur breyst á þann hátt að
það gefur nú rithöfundum sem skrifa um afbrot
miklu meira svigrúm og því þurfa þeir ekki lengur að
óttast með sama hætti og áður að sögur þeirra um
alvarlegt afbrot á Íslandi verði ótrúverðugar. Ég tel
ótvírætt að við eigum orðið nokkra mjög
frambærilega spennusagnahöfunda sem gaman
verður að lesa í framtíðinni.
Karl Steinar Valsson er afbrotafræðingur og starfar sem
aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík.
G8126 tmm mars 22x27 Q.4.1 3/30/01 11:55 PM Page 60