Tímarit Máls og menningar - 30.03.2001, Blaðsíða 22
lagið á fætur öðru sem hann sendir með hugskeyt-
um til fjórmenninganna. Páll kynnist líka Viktori (Björn
Jörundur Friðbjörnsson), gáfumanni sem haldinn er
þráhyggju í garð „Dolla“ Hitlers. Saman mynda
þessir ólíku einstaklingar þéttan hóp, þeir styðja
hver annan eftir megni en þegar öllu er á botninn
hvolft standa þeir berskjaldaðir frammi fyrir
ólæknandi sjúkdómi sem að lokum rænir Pál lífinu.
Englar alheimsins er að flestu leyti sterk
kvikmynd og á grundvelli þess hversu vel hún er úr
garði gerð má líta á frumsýningu hennar sem
upphaf áðurnefnds kvikmyndasumars. Kemur þar
líka til sú staðreynd að Englarnir standa ekki einir.
Hingað til hefur það talist ágætt ef ein frambærileg
íslensk mynd lítur dagsins ljós á ári en Englunum
fylgdi stríður straumur áhugaverðra kvikmynda.
Nægir þar að nefna Fíaskó, 101 Reykjavík, Íslenska
drauminn, Óskabörn þjóðarinnar, Ikingut og Villiljós.
Allar nema sú síðastnefnda voru frumsýndar árið
2000. Meirihluti myndanna er frumraun ungra
leikstjóra og með þá staðreynd í huga og þá aug-
ljósu fagmennsku sem einkennir þær flestar, er vart
hægt að verjast þeirri ánægjulegu tilhugsun að ný
kynslóð kvikmyndagerðarmanna sé að vaxa úr grasi
á Íslandi; kynslóð sem hefur bæði lært af þeim sem
á undan komu og tekið fumlaust skref frá þeim.
Þetta er kynslóð sem er meðvituð um hræringar í
poppkúltúrnum á máta sem var eldri leikstjórunum
fjarri. Þess má geta að af ofangreindum sex kvik-
myndum framleiðir kvikmyndaframleiðslufyrirtæki
Friðriks Þórs, Íslenska kvikmyndasamsteypan, þrjár
og er það ágæt vísbending um það lykilhlutverk sem
hann gegnir í kvikmyndabransanum hér á landi, ekki
aðeins sem leikstjóri heldur líka sem helsti kvik-
myndamógúllinn.
Frásagnarmáti Friðriks Þórs í Englunum er auð-
þekkjanlegur úr fyrri myndum hans. Senur eru
byggðar upp sem svipmyndir úr lífi sögupersónanna
og tiltölulega lítil áhersla er lögð á flæði atriða á milli.
Tengiskot eru sjaldgæf og oft þarf áhorfandinn
dálítinn umhugsunarfrest til að átta sig á breytingum
sem hafa átt sér stað á milli myndskeiða. Þessi
aðferð virkar betur í Englunum en oft áður, enda
söguefnið afmarkaðra en t.d. í Djöflaeyjunni (1996)
og frásögnin hefur skýrari
framvindu en t.d. í Bíódög-
um (1994). Þá er myndmál-
ið markvisst og á köflum
áhrifamikið. Eyðilegir gangar
geðsjúkrahússins verða
tákn fyrir útskúfun hinna
sjúku, ofskynjanir og geð-
sýkisköst Páls eru líka hlutgerð í myndmálinu og
verða í raun svo áþreifanleg að mörkin milli veruleika
og vitfirringar verða á köflum ógreinileg. Sterkasta
dæmið um beitingu myndmáls á þennan hátt er
atvikið þegar einkennisklæddir lögregluþjónar elta
Pál, sem brugðið hafði hnífi fyrir utan skemmtistað,
út í Reykjavíkurtjörn. Þar hleypur hann eftir
vatnsyfirborðinu sem nær lögreglumönnunum upp
að mitti. Trúarleg minni eru reyndar ekki óalgeng í
myndum Friðriks. Aðalpersónan í Flugþrá (1989)
hlýtur síðusár, undir lok Barna náttúrunnar (1991)
gengur Þorgeir (Gísli Halldórsson) blóðugum fótum
táknræna píslargöngu, svo ekki sé minnst á
forfeðradýrkunina sem drífur atburðarás Á köldum
klaka (1994) áfram. Í Englunum öðlast þó vísunin
meiri dýpt en oft áður, ekki síst sökum
menningarsögulegra tengsla geðveiki og
heilagleika.
Hælinu og geðveikinni eru gjarnan gefin víðari
samfélagsleg skírskotun í kvikmyndum og bók-
menntum og svo er einnig um Engla alheimsins.
Guðni Elísson hefur bent á að viðnámið gegn
félagslegri vélvæðingu einstaklingsins sé eitt helsta
einkenni kvikmynda Friðriks, þær fjalli oftar en ekki
um einstaklinga sem „leita tilgangs í persónulegum
athöfnum“ sem síðan „öðlast […] merkingu vegna
þess að þær ganga þvert á þau gildi sem ráðandi eru
í samfélaginu.“ (2) Guðni telur að þennan streng
megi rekja í gegnum flestar myndir Friðriks og víst
er að í Englum alheimsins fær stofnanabákn
samfélagsins sérlega kraftmikla birtingarmynd í
formi geðspítalans. Þá er rósrauður vitundardoði
uppdópaðra sjúklinganna allt að því óhugnanleg
birting vélvæðingar einstaklingsins. Sjúkdómnum er
haldið niðri en á kostnað persónuleika og sérkenna
einstaklingsins sem týnast í lyfjaþokunni.
Englar alheimsins fjallar um fólk sem fellur ekki
að umhverfi sínu og einangrast frá samfélaginu.
Sama gildir um margar aðrar myndir Friðriks. Í
rauninni er hér á ferðinni annað einkenni á
höfundarverki leikstjórans er sjá má jafnt í
heimildarmyndum hans sem þeim leiknu.
Sögupersónurnar í Skyttunum (1987), Flugþrá,
Börnum náttúrunnar, Djöflaeyjunni og Á köldum
klaka eru ýmist undirmálsfólk, tilheyra minni-
hlutahópum, eru olnbogabörn eða litnar hornauga af
öðrum ástæðum.
Sama má segja um hina sígildu Rokk í Reykjavík
frá 1982 sem er merkileg fyrir margar sakir.
Reykvísk jaðarmenning birtist þar í ófegraðri mynd
sem var mörgum óþægileg opinberun ef marka má
umræður um ritskoðun í kjölfar frumsýningarinnar.
(3) Ekki var nóg með að Friðrik svipti hulunni af
tónlistarstefnu og menningarlegum afkima sem litla
umfjöllun hafði fengið í fjölmiðlum landsins heldur
gaf hann tónlistarmönnunum sjálfum orðið, sumum
barnungum, sem lýstu lífi sínu og hugsunum. Það
sem kom fram í máli þeirra var jafn róttækt og vakti
jafnvel meiri hneykslun en tónlist þeirra. Mest
viðbrögð vakti sennilega berorð lýsing Bjarna
móhíkana á límsniffi og götulífi unglinga í Reykjavík,
ásamt atriði sem sýndi lögregluna stöðva tónleika
pönkhljómsveitarinnar Bruna BB eftir að hænur voru
afhausaðar á sviðinu. En varanlegt gildi myndarinnar
liggur þó ekki í krafti hennar til að hneyksla heldur
því hvernig hún fangar tíðarandann á öndverðum
níunda áratugnum. Í rauninni er Rokk í Reykjavík
besta og eina heimildin sem við eigum núna um
einhverja sérstæðustu menningarhreyfingu sem
upp hefur risið á Íslandi undanfarna áratugi. Hér var
ekki litið um öxl heldur var nútímalegur veruleiki
reykvískra ungmenna skoðaður og kann það að hafa
verið í fyrsta skipti sem slíkt var gert í íslenskri
kvikmynd. Egill Helgason komst afar vel að orði í
Tímanum þar sem hann sagði m.a.: „að mínu viti er
þetta í raun fyrsta íslenska kvikmyndin sem kemur
manni við, snertir mann í raun og veru, fyrsta
myndin sem tekst á við einhvern hluta af íslenskum
nútíma.“ (4)
Tónlistargjörningurinn sem haldinn var í
tengslum við frumsýningu (og einu sýningu)
Brennunjálssögu árið 1981 og heimildarmyndin um
rokk í Reykjavík ári seinna eru vitnisburður um náin
tengsl Friðriks við gróskuna í íslenskri tónlist.
Samstarf hans við Sigur Rós í Englum alheimsins
ber þessari staðreynd líka fagurt vitni og sýnir að
Friðrik hefur enn fingurinn á menningarpúlsinum. Í
rauninni liggur helsti styrkleiki Englanna, og kannski
ástæðan fyrir því að hún getur talist sumarboðinn í
íslenskri kvikmyndagerð, í því að svo margir
samverkandi þættir fá að njóta sín, þættir sem hafa
áður birst hver í sínu lagi í íslenskum myndum, ef á
annað borð örlar á þeim. Í nýjustu mynd Friðriks
gætir hins vegar víxlverkandi áhrifa þar sem hinir
ólíku þættir – tónlistin, leikurinn, handritið,
tæknivinnan, o.s.frv. – koma saman og skapa
markvissa heild.
II. Djammað í Reykjavík
Staðhæfing Egils Helgasonar að Rokk í Reykjavík sé
fyrsta íslenska myndin sem tekst á við einhvern
hluta af íslenskum nútíma er eftirtektarverð fyrir
ýmsar sakir. Kannski ekki síst vegna þess að nú,
nær tuttugu árum eftir að grein Egils birtist, er
Rokkið ennþá ein af fáum íslenskum kvikmyndum
sem takast á við samtíma sinn og reykvískan
borgarveruleika. Þar sem um er að ræða heimildar-
mynd fellur hún ekki nema að takmörkuðu leyti inn
í umræður um leiknar myndir síðustu ára á Íslandi.
Þegar þær eru skoðaðar kemur í ljós yfirgnæfandi
hátt hlutfall mynda sem fjalla um landsbyggðarlíf
eða færsluna úr sveit í borg (eða öfugt). Hjarðlíf
áranna eftir seinni heimsstyrjöld og forni hetju-
tíminn reyndust árum saman eftirlætisyrkisefni
flestra íslenskra leikstjóra. Það er ekki hlaupið að því
að finna mynd sem ekki fellur í annan hvorn hópinn
og framan af er nær ómögulegt að tiltaka íslenska
kvikmynd sem fjallar um borgarveruleika líðandi
stundar.
Gamanmynd Óskars Jónassonar Sódóma
Reykjavík (1992) er í rauninni fyrsta íslenska myndin
þar sem borgarlífið er ekki í einhvers konar
samanburði við landsbyggðina. Hér er fjallað um
reynsluheim ungs fólks sem á sér engin sýnileg
tengsl við landsbyggðina. Veggfóður, sem gerð var
G8126 tmm mars 22x27 Q.4.1 3/30/01 11:49 PM Page 22