Gerðir kirkjuþings - 01.01.2011, Side 18
18
Setningarræða forseta kirkjuþings, Péturs Kr. Hafstein
Kirkjuþing 2011 er sett, 46. kirkjuþing hinnar íslensku þjóðkirkju.
Verið öll hjartanlega velkomin hingað í dag, þingheimur og góðir gestir. Við heilsum
sérstaklega nýjum vígslubiskupi í Skálholti, séra Kristjáni Val Ingólfssyni. Við
bjóðum hann velkominn á kirkjuþing og væntum mikils af samvistum og samvinnu
við hann á þessum vettvangi og endranær á akri þjóðkirkjunnar. Við minntumst for-
vera hans, séra Sigurðar Sigurðarsonar, á aukakirkjuþingi í sumar og þökkum sérstak-
lega framlag hins fallna vígslubiskups til málefna kirkjuþings. Við biðjum þess í
einlægni að starfið í Skálholti megi styrkjast og dafna til eflingar trúarlífi og þjónustu
þjóðkirkjunnar í landinu.
Fyrir ári síðan, þegar fyrir dyrum stóð að setja á laggirnar rannsóknarnefnd um
viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni
biskupi um kynferðisbrot, sagði ég við setningu kirkjuþings að verkefni kirkjunnar í
þessu efni væri nákvæmlega meitlað í ljóði Njarðar P. Njarðvík, Án þess að líta
undan. Þar kemur fram að sérhver manneskja verði að læra að horfast svo fast í augu
við sjálfa sig að hún neyðist til að líta undan. Og hvað gerist svo? Til þess að rísa
undir því að vera manneskja og lifa af í hörðum heimi er ekki nema einn kostur í boði.
Hann er sá að horfast að nýju í augu við sjálfan sig – án þess að líta undan.
Nákvæmlega þetta er þjóðkirkjan að gera nú um stundir og þetta verður hún að gera af
fullri alvöru á næstu vikum, mánuðum og árum: Að horfast í augu við sjálfa sig án
þess að líta undan. Á því mun framtíð hennar velta hvort hún er fær um að takast á
við þann vanda sem felst í slíkri sjálfsskoðun um leið og hún færir yfirbragð sitt allt,
boðun og verklag til þeirra hátta sem hæfa betur nútíð og framtíð.
Rannsóknarnefnd kirkjuþings skilaði ítarlegri skýrslu 10. júní síðastliðinn. Auka-
kirkjuþing var kvatt saman fjórum dögum síðar til þess að marka fyrstu viðbrögð
kirkjunnar við henni og setja þau í málefnalegan farveg. Í mínum huga kom aldrei
annað til greina en að kalla þingið saman svo fljótt sem verða mátti. Það var annars
vegar vegna stöðu kirkjuþings sem æðsta stjórnvalds kirkjunnar og hins vegar vegna
þeirrar ríku ábyrgðar sem þingið ber á framkvæmd þessa sérstæða og mikilvæga máls
með því að hafa samþykkt einróma starfsreglur um rannsóknarnefnd kirkjuþings.
Aukakirkjuþingið 14. júní gat hins vegar ekki og átti ekki að vera annað en fyrsta
skrefið á langri vegferð til að ná tökum á þeim vanda sem við kirkjunni blasir í
þessum efnum. Um slíkt gat engum ábyrgum manni í forystu kirkjunnar blandast
hugur.
Í ályktun aukakirkjuþingsins var harmað að viðbrögð og starfshættir þjóðkirkjunnar
vegna ásakana um kynferðisbrot innan hennar hefðu ekki alltaf verið sem skyldi.
Kirkjuþing bað í einlægni þá þolendur kynferðisbrota fyrirgefningar sem hefðu verið
órétti beittir í samskiptum við þjóna kirkjunnar og lykilstofnanir hennar. Í þessum
fyrstu viðbrögðum kirkjuþings fólst að sjálfsögðu full viðurkenning á því að alvarleg
mistök hefðu átt sér stað af hálfu kirkjunnar manna á undangengnum árum. Sú
viðurkenning hefur síðan verið áréttuð, meðal annars af biskupi Íslands.
Aukakirkjuþingið kaus úr sínum hópi fimm manna nefnd til að undirbúa frekari
úrbætur á þessu sviði. Markmiðið með starfi nefndarinnar var fyrst og fremst að