Gerðir kirkjuþings - 01.01.2011, Blaðsíða 26
26
Og eins og allt sem máli skiptir, hjá okkur, þessari litlu og fámennu þjóð, þá varð
kirkjan virk og mótandi menningarstofnun. Kirkjan stóð og stendur vörð um tunguna,
siðræn gildi og hefðir. Er hægt að segja sig úr menningunni? Getur einhver sagt mér
það?
Kristin kirkja hefur staðist sem stofnun lengur en nokkur önnur í mannkynssögunni.
Þess vegna sætir engri furðu að hún hafi staðið af sér ýmsar bylgjur undanfarinna ára,
ágengra hugmyndastrauma, stjórnmálabreytingar og trúarbrögð annars staðar frá
komin.
Kannnski vildi kirkjan helst af öllu sleppa við að vera þjóðkirkja eða öllu heldur
ríkiskirkja, sem þarf að sinna skrifstofustörfum fyrir samfélagið, kannski vill hún fá
að vera sjálfstæð óháð kristin kirkja. Kirkja án eyðublaða og án veraldlegra yfir-
boðara. Kirkja fagnaðarerindis. Kirkja móður minnar, kirkja trúar, vonar og kærleika.
Og þegar allt kemur til alls þá var það samfélagið sjálft sem taldi það vera hagsmuni
heildarinnar að hafa Þjóðkirkju.
Í mínum huga hefur aðskilnaður ríkis og kirkju þegar farið fram og ég segi: Í stað þess
að hrapa að ákvörðunum um grundvallarbreytingar skulum við taka rækilega umræðu
um heildarhagsmuni. Þrátt fyrir allt þá er kirkjan – bæði bundin en einnig óháð
trúarboðskap sínum – hornsteinn í okkar samfélagi; hún er menningarstofnun sem
geymir mikilvæga arfleifð úr sögu og lífi íslenskrar þjóðar. Og enn er það svo að
stærsta þakið sem við sameinumst undir á örlagastundum er þak Þjóðkirkjunnar.
Kirkjuþing mun nú ræða veraldarvafstrið, hvernig kirkjan bregst við í þeim þrenging-
um sem íslenskt samfélag þarf nú að takast á við með þverrandi tekjum. Þarna liggja
saman leiðir kirkjunnar og ráðuneytis kirkjumála. En ekki síður horfum við öll til þess
þegar kirkjan tekur nú umræðu um sitt raunverulega ætlunarverk; hvernig hún best
rækir skyldur sínar við trúna, vonina og kærleikann.