Gerðir kirkjuþings - 01.01.2011, Blaðsíða 50
50
mikilvægt að horfast í augu við það sem úrskeiðis hefur farið. Brýnt er að áfram verði
haldið á þeirri braut að skerpa og móta frekari verklagsreglur vegna ásakana um
kynferðisbrot í því skyni að þjóðkirkjan verði jafnan vel í stakk búin til að takast á við
kynferðisofbeldi og bregðist við því af öryggi og festu. Þjóðkirkjan vill tileinka sér
fyrirmyndarvinnubrögð og leiðir til forvarna eins og bent er á í skýrslu
rannsóknarnefndar kirkjuþings. Kirkjunni ber að vera skjól og sýna stuðning öllum
þeim sem hafa orðið fyrir ofbeldi af hvaða tagi sem er.
Kirkjuþing ályktar að kjósa skuli fimm manna nefnd úr hópi kirkjuþingsfulltrúa til að
undirbúa frekari úrbætur á þessu sviði fyrir komandi kirkjuþing að hausti. Nefndin
skal hafa sérstaka hliðsjón af þeim tillögum sem fram eru settar í skýrslu
rannsóknarnefndar kirkjuþings og leita sér jafnframt sérfræðilegrar aðstoðar eftir því
sem þurfa þykir.
Í nefndina voru kosin kirkjuþingsfulltrúarnir: Magnús E. Kristjánsson, formaður,
Birna G. Konráðsdóttir, Margrét Jónsdóttir, sr. Elínborg Gísladóttir og sr. Svavar
Stefánsson. Nú liggur fyrir þinginu tillaga til þingsályktunar um störf nefndarinnar í
16. máli kirkjuþings 2011. Vísað er til áfangaskýrslu þeirrar sem getið er um í
greinargerð með málinu.
Kirkjuráð veitti nefndinni umboð til að ganga til samninga um sanngirnisbætur vegna
málsmeðferðar kirkjunnar eftir að ásakanir um kynferðisbrot komu fram og staðfesti
biskup, f.h. kirkjuráðs, samkomulag á fundi 22. júlí 2011.
Fjármál.
Fjármálakreppa sem skall á í lok septembermánaðar 2008 hefur enn veruleg áhrif á
störf kirkjuráðs og hefur mikið verið unnið að því á starfsárinu að greina hvar hægt sé
að draga úr útgjöldum og auka tekjur. Í fjárlögum 2010 gerði ríkið kröfu á hendur
kirkjunni um 7,5% niðurskurð. Eins voru sóknargjöld skert enn eitt árið.
Við úthlutanir úr Jöfnunarsjóði sókna og kirkjumálasjóði fyrir árið 2010 voru flestir
útgjaldaliðir lækkaðir. Þá var formönnum sóknarnefnda skrifað og brýnt fyrir þeim að
draga saman í rekstri. Prestsembættin erlendis voru lögð niður, laun starfsmanna á
Biskupsstofu lækkuð, rekstrar- og aksturskostnaður presta lækkaður o.fl.
Mikill tími kirkjuráðs og starfsfólks Biskupsstofu hefur farið í að takast á við erfiðar
fjárhagsaðstæður og hagræða í rekstri eins og frekast má. Kirkjuráð átti fund með
ríkisendurskoðanda þar sem ræddar voru óskir kirkjunnar um breytta uppsetningu
fjárlaga þannig að skýrt komi fram að fjárlagaliðurinn „Þjóðkirkjan 06-701“ er
endurgjald á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins. Eins kom fram að kirkjuráð
myndi fagna úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi Biskupsstofu.
Kirkjuráð samþykkti fjárhagsáætlun fyrir Þjóðkirkjuna skv. samningi ríkis og kirkju,
Jöfnunarsjóð sókna, kirkjumálasjóð og Fræðslu-, útgáfu- og kynningarsjóð vegna
ársins 2011. Tekjur byggjast einkum á samningum og lögum en einnig er um að ræða
sértekjur t.d. vegna húsaleigu. Umsóknum um framlög vegna úthlutunar næsta árs ber
að skila fyrir 15. júní ár hvert sem og fjárhagsáætlunum stofnana. Fjárlagafrumvarp
vegna næsta árs er venjulega lagt fram 1. október og þá fyrst er ljóst hvaða fjárhags-
stöðu vænta má að sjóðirnir hafi á næsta ári á eftir. Fyrri umræða um fjárhagsáætlanir
sjóðanna fyrir komandi ár fer í framhaldi af því fram hjá kirkjuráði í októbermánuði.
Að því búnu eru áætlanirnar kynntar á kirkjuþingi og þær ræddar þar. Gengið er frá
endanlegum áætlunum að jafnaði á desemberfundi kirkjuráðs.
Kirkjuráð samþykkti að leggja áherslu á að vinna að því að sóknargjöld skerðist ekki
frekar en orðið er. Hefðu lög um sóknargjald o.fl. nr. 91/1987 staðið óröskuð, ættu