Félagsbréf - 01.07.1962, Page 13
SIGURÐUR NORDAL:
í UPPHAFI VAR ORÐIÐ
Krindi flutt á 50 ára afmælishátíð Háskóla islands, 7. október 1961.
i.
'C'yrir 127 árum, síðla sumars 1834, steig ungur guðfræðingur að
nafni Tómas Sæmundsson á land í Reykjavík eftir sjö ára dvöl
erlendis. Hann hafði lokið prófi frá Kaupmannahafnar háskóla og
síðan tekið peningalán til þess að ferðast tvö ár um höfuðlönd
Norðurálfu, hafði meðal annars dvalizt lengi í Berlín, Róm og
París. Þetta var á þeim tímum alveg einstakt framtak af íslendingi.
Þeir, sem ætluðu sér mestan hlut, þóttust góðu bættir, ef þeir
kæmust til Hafnar, — og fæstir hefðu jafnvel ráðizt í þá utanför,
nema Garðstyrksins hefði notið við.
Tómas Sæmundsson hefur sjálfur lýst heimferð sinni og heim-
komu í Bréfi frá íslandi, sem prentað er í fyrsta ári Fjölnis, 1835.
Þar víkur hann að því, hvernig honum hafi verið innan brjósts,
þegar hann var að hverfa frá Höfn til þess að verða sveitaprestur
heima. Hann vissi, að hann mundi sakna margs, sem hann væri nú
að skiljast við fyrir fullt og allt. En ríkastur var honum í huga
fögnuðurinn að vitja aftur ættjarðar sinnar, vilji hans og vonir
að verða henni að sem mestu gagni. Til þess hafði hann reynt að
afla sér allrar þeirrar menntunar og víðsýni, sem kostur var á.
Hvernig var nú aðkoman á íslandi og í höfuðstað þess fyrir
þennan unga fullhuga?
II.
Undanfarin ár höfðu verið íslendingum hagstæð, eftir því sem
þeir áttu að venjast. Mannfjölgunin var, eins og jafnan, öruggasta
merkið. Fyrstu tuttugu ár aldarinnar hafði fólkinu ekki fjölgað