Félagsbréf - 01.07.1962, Síða 39

Félagsbréf - 01.07.1962, Síða 39
FÉLAGSBRÉF 35 umboðsmenn, fé hans fraus inni og glataðist, og hún gerði hann aftur í svipinn fátækan eins og hann var hér áður en hann lagði í viking sína. En Kristmann svaraði örðugleikunum á sama hátt og fyrr. Hann axlaði sína byrði og vann. Hann var kominn til þess að nema móðurmál sitt að nýju. Hann var kominn til þess að skapa sér listrænan bókmenntastíl á tungu feðra sinna. Hann var kominn til að rita bækur og endurrita á íslenzku þær bækur er gert höfðu hann frægan mann á erlendum tungum. Síðan hefur hann verið síritandi, sílesandi, sínemandi. Síðasti árangur þessa starfs eru þrjú bindi ævisögu hans, ísold svarta, Dægrin blá og Log- inn hvíti. Þessar bækur eiga eftir að verða lesnar langt fram á komandi ár. Æskufólkinu í landinu mun lengi leika hugur á að lesa sögu allslausa borgfirzka sveinsins, sem ævintýrin sátu fyrir, hvar sem hann fór og gerði framkvæmd sinnar einu meðvituðu köllunar að ævintýri. Eftir að Kristmann var orðinn viðurkenndur rithöfundur í Noregi lifði hann við glæsilegan hag, tók ríkan þátt í menningar- og samkvæmislífi borg- arinnar, umgekkst menntamenn og skáldbræður, ferðaðist víðsvegar um Evrópu og varð heimamaður í menningarlífi samtíðar sinnar. Það er lán hans að hann vinnur svo skjótt afdráttarlausan sigur. Það opnar honum hvarvetna dyr, svo að hann eignast þarna mörg frjó þroskaár, áður en hann er orðinn of gamall. Jafnframt þessu er hann sívinnandi. Eftir heim- komuna hefur hann miklu kyrrara um sig. Aðstæðurnar kreppa að honum, en hann heldur gleði sinni, starfar af kappi og ræktar í tómstundum einn fegursta og efalaust fjölskrúðugasta jurtagarð á Islandi. Osló og Evrópa urðu Kristmanni sá skóli, sem litla Reykjavík hefði aldrei getað orðið honum, þó að hún hefði borið hann á höndum sér frá því að hann steig hér fótum á land. I þeim skóla varð Kristmann ágætur rithöfundur á norska tungu — en vann æviverk sitt fyrst og fremst þeirri ættjörð, sem hafði verið honum drjúg í arfgjöfum en hörð í fóstri. Hann hafði þann metnað að láta betur goldið, en til var gert. Það liggur í augum uppi að í svo umfangsmiklu höfundarverki sem Kristmanns er ekki allt jafngilt. En maðurinn mælist við það, hvert hann komst lengst — og hvar hann stóð hæst. — í skáldskap Kristmanns Guð- mundssonar er svo mikið af tærri fegurð, frjórri hugkvæmni, djúpum mann- skilningi, dugandi persónusköpun — dramatiskri þenslu, að mörg veður og sterk þurfa um hann að gnýja, þangað til tindar hans eru veðraðir í grunn.

x

Félagsbréf

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Félagsbréf
https://timarit.is/publication/1060

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.