Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist - 01.01.1994, Page 60

Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist - 01.01.1994, Page 60
áður hafði hún eignast fyrsta barnið. Allt er þetta liðin tíð og nú ætti ég erfitt með að átta mig á því hvað var svona óvenjulegt við hana, hvað var það við hana sem ég varð svo hrifinn af, en þá strax, meðan við sát- um til borðs, var mér það allt skýrt og ljóst svo ekki varð undan vikist. Ég sá fyrir mér konu, unga, fallega, góða, greinda, heillandi, ég hafði aldrei fyrr hitt slíka konu og ég fann um leið í henni manneskju sem væri mér nákomin, sem ég þekkti nú þegar, alveg eins og ég hefði séð þetta andlit, þessi alúðlegu og gáfulegu augu, einhverntíma í bernsku, í albúmi sem lá á kommóðu móður minnar. Fjórir gyðingar voru ákærðir fyrir íkveikju að samanteknu ráði og mér fannst enginn fótur fyrir þeirri málsmeðferð. Ég æsti mig upp við borðið út af þessu, þetta fékk á mig, ég man ekki lengur hvað ég sagði en Anna Alexejevna hristi höfuðið og sagði við mann sinn: - Dmítrí, hvernig getur það verið? Lúganovítsj er góðmenni og ein af þeim einföldu sálum sem halda sér fast í þá skoðun, að hafi maður lent fyrir dómi þá hljóti hann að vera sekur, og að það sé ekki hægt að efast um réttmæti dóms nema með lögformlegum hætti, á skrifuðu skjali, en hreint ekki við matarborð og ekki í einkasamtali. - Ekki kveiktum við í, sagði hann þýðlega, og ekki er verið að dæma okkur og setja í tugthúsið. Og bæði reyndu þau hjónin að fá mig til að borða og drekka sem mest. Af ýmsu smálegu, til dæmis því hvernig þau suðu kaffi saman og skildu hvort annað af hálfkveðnum vísum, gat ég dregið þá ályktun að þau byggju við frið og velsæld og væru gesti fegin. Eftir matinn léku þau fjórhent á píanó, síðan dimmdi og ég fór á minn gististað. Þetta var í byrjun vors. Svo var ég allt sumarið bundinn í báða skó í Sofjíno, ég hafði ekki einu sinni tíma til að hugsa til borgarinnar, en minningin um þessa íturvöxnu ljóshærðu konu sat í mér alla daga, ég hugsaði ekki um hana en það var eins og léttur skuggi hennar lægi yfir sál minni. Seint um haustið var haldin í bænum leiksýning í góðgerðaskyni. Sem ég kem inn í stúku héraðsstjórans - en þangað var ég boðinn í hlénu - sé ég hvar Anna Alexejevna situr þar við hlið héraðsstjórafrúar- innar, og aftur greip mig þessi ómótstæðilega fegurð og þessi elskulegu og blíðu augu og þessi tilfinning að við værum hvort öðru nákomin. Við sátum hlið við hlið, gengum síðan fram í anddyri. - Þér hafið grennst, sagði hún. Voruð þér veikur? - Já. Ég fékk eitthvert tak í öxlina og sef illa þegar rignir. B I A R T U R O C F R U E M 1 L l A 58

x

Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist
https://timarit.is/publication/1206

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.