Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist - 01.01.1994, Side 78
ýmislegt dramatískt gerist, reyndar oftast milli þátta eða að tjaldabaki.
Á sviðinu á sér síðan stað samspil persónanna þar sem kemur í ljós
hvaða áhrif þessir atburðir hafa og hvernig persónurnar bregðast við
þeim. í þessu felst einmitt kjarni þess sem Tsjekhov var að reyna að
gera.
í formála að bók sinni um leikrit Tsjekhovs segir bandaríski leikhús-
fræðingurinn J. L. Styan:
Vestræn hefð hefur vanið okkur á að halda að mikil leikrit eigi að fjalla um
mikilsháttar fólk, merkisatvik og stórfenglega lífsreynslu. Tsjekhov fjallar
um litlu atvikin, smáatriðin sem verða að tiltekinni almennri lífsreynslu;
hann leiðir okkur skref fyrir skref að meiriháttar viðburðum með því að
veita okkur innsýn í þúsund smáatvik. (J. L. Styan: Chekhov in Perfor-
mance. Cambridge 1971, bls. 1.)
Tsjekhov sagði sjálfur í bréfi til Súvoríns, dagsettu 2. janúar 1894:
Sergejenko [leikritaskáld og kunningi Tsjekhovs] er að semja sorgarleik um
Sókrates. Þessir þrjósku búrar hengja sig alltaf í mikilfengleik vegna þess að
þeir kunna ekki að skapa neitt sem er lítilsháttar. Þeir eru stórir upp á sig í
fyrirætlunum sínum, sem eru í öfugu hlutfalli við smekkvísi þeirra í bók-
menntum. Það er auðveldara að skrifa um Sókrates en unga stúlku eða elda-
busku. (Sjá Laurence Senelick: Anton Chekov. London 1985, bls. 50-51.)
Þetta mætti kannski túlka svo að í huga Tsjekhovs væru öll mikilmenni
eins í krafti mikilleiks síns en venjulegir menn aftur á móti sérstakir
hver á sinn hátt, og þarafleiðandi væri áhugaverðara að skrifa um þá.
Leikrit Tsjekhovs voru að þessu leyti ólík þeim leikritum sem áhorfend-
ur í Moskvu og Pétursborg voru vanir. I stað eins eða tveggja stórra
hlutverka sem ætluð voru ákveðnum leikurum, voru hlutverkin mörg
og flest jafnveigamikil, því Tsjekhov hafði einkum áhuga á samspili
persóna sinna. Ef til vill gerist fátt eitt á sviðinu en þess meira í sálar-
djúpum persónanna.
Tsjekhov var læknir og hafði til að bera ríka samkennd með löndum
sínum. I hans augum voru allir jafnir og áttu rétt á sömu möguleikum í
lífinu. I leikritum sínum leitaðist hann hvorki við að leysa nein vanda-
mál né túlka neina ákveðna stefnu, hvorki pólitíska né samfélagslega.
B J A R T U R O G F R U E M I L 1 A
76