Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.11.2015, Side 39
honum að eftir Watergate-málið, þegar hann varð
fyrsti forseti Bandaríkjanna til að hrekjast úr embætti,
hefði stærstur hluti þjóðarinnar ekkert viljað vita af
honum framar. Enn hefði ekki orðið grundvallar-
breyting á afstöðu þjóðarinnar í garð Nixons, en þó
hefði aðeins rofað til. Þeir væru nú til, og færi fjölgandi,
sem væru tilbúnir til að heyra sjónarmið Nixons. En ef
þeim birtist þá á ný sá gamli ósveigjanlegi „Tricky
Dick“ myndi þessi gluggi skellast samstundis í lás.
Á þessu augnabliki voru hagsmunir spyrjandans og
viðmælandans óvænt teknir að nálgast hratt. Kæmi
Nixon frá þessum viðtalsþáttum eins og sigurvegari í
vörn væri óhjákvæmilegt að Frost þætti illa laskaður.
Tækist honum hins vegar að snýta játningu út úr hin-
um harðgerða Nixon, svo ekki sé minnst á iðrun af ein-
hverju tagi, stæði Frost með pálmann í höndunum og
framtíð hans væri tryggð.
Þetta gekk eftir og er nú Frost/Nixon eitthvert fræg-
asta fréttaviðtal allra tíma.
Segja má að áhætta unga fjölmiðlamannsins hafi ver-
ið meiri en forsetans fyrrverandi. Hvernig sem allt færi
yrði Nixon betur settur fjárhagslega eftir þættina sem
hann þurfti mjög á að halda. Orðstír hans gat naumast
versnað hvernig svo sem viðtölin þróuðust. Líklegast
væri þó að sanngjörn nálgun Davids Frosts myndi
hjálpa eitthvað upp á ímynd hans.
Þættirnir urðu hins vegar fyrsta skrefið í átt að „end-
urhæfingu“ Nixons, sem hann byggði skipulega á í
framhaldinu. Og David Frost var eins og hendi væri
veifað kominn í hóp þekktustu og ríkustu fjölmiðla-
manna heims og hélt þeirri stöðu allt þar til hann lést í
lok ágúst 2013 um borð í stórskipinu Queen Mary sem
þá var á leið til Ameríku.
Það sama ár hefði Nixon orðið 100 ára hefði hann lif-
að.
Vandi er um slíkt að spá
Kennedy sigraði Nixon naumlega árið 1960 og hefur
því verið haldið fram að þær kosningar hefðu ekki þol-
að nákvæma skoðun. Nei, ekki vegna framgöngu Nix-
ons heldur demókratans Daleys, borgarstjóra í Chi-
cago, og Lyndons Johnsons í Texas.
Fáum árum síðar tapaði Nixon enn og nú ríkisstjóra-
kosningum í Kaliforníu. Þá þótti óhætt að afskrifa
hann.
En 1968 vann Richard Nixon forsetakosningar með
sannfærandi hætti og 1972 vann hann stórsigur.
Rétt eins og enginn hefði spáð Nixon forsetaembætt-
inu eftir tvö töp í röð, þá hefði engan á sigurstundinni
1972 grunað að þá þegar hefði fræjum ógæfu hans og
einstæðra pólitískra hrakfara verið sáð.
Ekki er um það deilt að Nixon forseti var alsaklaus af
hinu bjánalega innbroti á skrifstofur demókrata í
Watergatebyggingunni. En eftir að forsetinn hafði ver-
ið upplýstur um atburðinn tók hann þátt í að hylma yfir
glæpinn. Það fer því margt öðruvísi en spáð var.
Spár sem ekki þarf að sannreyna
Fyrir fáeinum áratugum sagði umhverfissérfræðingur
fyrir um það í íslensku útvarpi hvernig veðrið yrði á
jörðinni eftir 150 ár. Stjórnmálamaður, sem heyrði
þetta, sagði að það væru nokkur undur að sömu menn
og ættu í basli með að segja fyrir um veðrið eftir viku
treystu sér til að fullyrða hvernig það yrði eftir 150 ár.
Sérfræðingurinn svaraði fyrir sig með nokkru yfir-
læti og gaf til kynna að stjórnmálamaðurinn sýndi
barnaskap ef hann áttaði sig ekki á, sem væri vísinda-
lega þekkt, að mun auðveldara væri að spá um veður-
þróun eftir 150 ár en gera nákvæma veðurspá viku
fram í tímann.
Fréttamenn ráku míkrófón framan í stjórnmála-
manninn og leyndi sér ekki að þeir drógu taum fræði-
mannsins, nema hvað.
Stjórnmálamaðurinn óskaði þá eftir því að honum
yrði sýnd 150 ára gömul veðurspá, sem hefði staðist svo
vel tímans tönn. Hann myndi þá afsakandi öllu kyngja.
Þá lauk þessu máli óvænt.
Annað dæmi
Um áramót fara menn að dæmi Janusar og líta bæði
fram og aftur. Fyrir allmörgum árum gerðu tveir af
þekktustu efnahagssérfræðingum þjóðarinnar einmitt
það í útvarpinu. Fyrst voru þeir spurðir hvernig liðna
árið kæmi út á mælistikum efnahagsmála. Annar sér-
fræðingurinn benti þá á að það væri mjög erfitt að
segja fyrir um nýliðinn tíma! Var þá tekið til við að spá
um hvernig efnahagsþróunin yrði á nýja árinu. Bætti
útvarpið þá Gunnlaugi Guðmundssyni stjörnuspekingi í
hópinn og kynntu þeir þrír svo sínar spár. Við næstu
áramót fór útvarpsstöðin svo yfir það hvernig til hefði
tekist í ljósi reynslunnar. Kom þá á daginn að hagfræð-
ingarnir komust ekki með tærnar þar sem Gunnlaugur
stjörnuspekingur hafði hælana.
Þetta er ekki rifjað upp hagspekingum til háðungar
og ekki er lagt til að stjörnuspekingar framkvæmi efna-
hagsspár. En litla dæmið sýnir hve spár af þessu tagi
eru hverfular þótt ótrúlega mikið mark sé tekið á þeim í
hvert sinn sem ný birtist, svo sem frá seðlabankanum
eða greiningardeildum á þriggja mánaða fresti.
Nýverið ákvað Seðlabankinn að hækka sína vexti
með vísun í nýja spá sína. Bankinn gat ekki treyst því
að allir væru búnir að gleyma spánni sem hann birti
fyrir aðeins þremur mánuðum. Sú spá hafði verið
óvenju frábitin því að eiga nokkra samleið með veru-
leikanum og eins hann með henni. Það breytti þó engu
um afstöðu bankans né trú hans á næstu spá og raunar
spár allt til ársins 2018.
Í framhaldinu voru vextir svo hækkaðir örlítið í tilefni
dagsins. Sú hækkun sýndi þó, að þrátt fyrir það sem
sagt var í spánni og á blaðamannafundi um það, hvern-
ig efnahagsþróunin í landinu yrði, þá trúði bankinn
ekki sinni eigin spá. Hefði hann gert það, þá hefði
vaxtaákvörðunin orðið önnur en hún varð.
Gerist víðar
Nú þarf íslenski seðlabankinn ekki fara á taugum þótt
hann hafi síðustu árin verið óhittinn í sínum efnahags-
spám. Í fyrsta lagi birtir hann jafnan ágætar og sann-
færandi afsakanir fyrir því af hverju spárnar fara oftar
en ekki á skjön við veruleikann. Út úr því má stundum
lesa að í rauninni hafi það ekki verið spárnar sem voru
rangar heldur veruleikinn, sem er eftirtektarverð
kenning.
En bankinn er ekki einn um það að fara með fleipur
um framtíðina.
Það er kannski þess vegna sem Allister Heath,
aðstoðarritstjóri The Telegraph, skrifaði í þessum dúr í
blað sitt í gær: „Það er ekki að undra þótt fjöldi manna
hafi vinnu við það í fjármálahverfinu í London að spá
um þá þróun sem engin tök eru á að segja fyrir um.
Ástæðan er sú, að það er mikil og óseðjandi eftirspurn
eftir spágerð af því tagi. Og þótt spárnar reynist út í
bláinn aftur og aftur, þá skiptir það í rauninni ekki öllu
máli. Það sem ræður úrslitum er hve trúverðuglega
hver spá hljómar og með hvaða hætti henni er komið á
framfæri.
Í öfgakenndustu tilvikunum breytast þessi hagvísindi
í hliðargrein skemmtanaiðnaðar, en skemmtun og með-
ferð eru klædd í vísindalegan búning.
Við viljum öll fá að vita með öruggri vissu hver efna-
hagsþróunin verður á allra næstu árum, jafnt um vexti
sem verðbólgu.
En vandinn er bara sá, að efnahagsmál eru snúin og
síst línulegt kerfi og því ekki hægt að segja fyrir um
þróun þeirra af neinu viti með því að slá fáeinar breytur
inn í tölvur. Breyturnar eru alltof handahófskenndar til
þess að sú leið sé fær.
Og reyndar er allt okkar talnaverk og hagtölur of
ónákvæmar og algjörlega háðar sífelldu og viðamiklu
endurmati.
Við vitum ekki hvað er að gerast í efnahagsmálum á
þessu augnabliki svo hvers vegna í ósköpunum ættum
við að vita af einhverri lágmarksnákvæmni hvað muni
gerast í þeim efnum eftir þrjú ár?
Það skásta sem við getum gert er það sem F.A.
Hayek nóbelsverðlaunahafi kallaði sýnishornagetspá
(pattern predictions) og sviðsmyndaspá (scenariobased
forecast). Tilraunir til að styðjast við gallaða nákvæmn-
isnálgun eru sýndarvísindi fremur en vísindi sagði
Hayek.
Ekki er því hægt að álasa Englandsbanka fyrir að
þurfa reglubundið að breyta sínum spám, sem hann
kemst ekki hjá að setja fram, en hann myndi hins vegar
gera rétt í því að verja meiri tíma en hann gerir til að
undristrika hversu óöruggar þessar spár eru.“
Það er sennilega æði langt síðan Seðlabanki Íslands
hefur hreyft fyrirvörum um gildi spádóma bankans og
sýnast þó vera tilefni til þess.
Morgunblaðið/Eggert
* Ekki er um það deilt að Nixonforseti var alsaklaus af hinubjánalega innbroti á skrifstofur
demókrata í Watergatebyggingunni.
En eftir að forsetinn hafði verið upp-
lýstur um atburðinn tók hann þátt í
að hylma yfir glæpinn.
8.11. 2015 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 39