Orð og tunga - 01.06.2012, Page 66
56
Orð og tunga
skyni. Með markvissri leit að orðapörum í textum þessara safna hefur
fjöldi þeirra stóraukist og gildi gagnategundarinnar aukist að sama
skapi í orðanetinu. Til þessa hefur megináherslan verið lögð á nafnorð
en orðapörin hafa einnig augljóst gildi gagnvart lýsingarorðum og
raunar einnig gagnvart sögnum.
Með því að rekja orðapör með einstökum orðum er greinilega
farið inn á slóð samheita og í vænu safni slíkra sambanda er jafnan
að finna samstæð orð af því tagi, sumpart orð sem eiga við orðið
sem rakið er út frá en ekki síður meðal orða sem það dregur til sín.
Orðapör sem rakin eru út frá flettunni hlátur skila t.d. samheitunum
gamansemi og spaugsemi, og hávaði og skarkali ná saman á sama hátt.
Málnotkunarlegt gildi orðapara virðist ekki síst í því fólgið að skerpa
og auðga myndina af því sem er til umræðu eða umsagnar og gefa því
viðeigandi merkingarblæ. En inntak og eðli þess sem við er átt getur
líka verið samsett og þá tjáir orðaparið náið samband þeirra orða
sem í hlut eiga. Þetta skýrir að einhverju leyti þá gífurlegu fjölbreytni
og þann mikla fjölda orðapara sem einstök orð reynast eiga hlut
að í textadæmum fyrrgreindra safna. Þar eru ekki aðeins á ferðinni
samheiti heldur skilar dæmasafnið víða drjúgum skerf og jafnvel
nýjum orðum inn í einstaka merkingarflokka. Af þessum sökum
hefur flettuforði orðanetsins aukist að mun, m.a. með fleiryrtum
nafnliðaflettum eins og áður er getið.
Gildi orðapara sem vitnisburðar um notkunar- og merkingarvensl
kemur fram í því að á vefsíðu orðanetsins eru þau tilgreind við einstakar
flettur notendum til glöggvunar. Sem gagnategund í greiningunni
reynast þau svo hafa undirstöðugildi þegar kemur að því að meta það
sem orðanetinu var m.a. ætlað að vitna um, hvernig skyldleikastigi
flettnanna er háttað og hvort greina megi á milli samheita með tilliti
til þess.
6.4 Mat á merkingarskyldleika
Gerð orðanetsins hvílir eins og áður segir á þeirri meginhugmynd
að merkingarvensl megi rekja út frá venslum orða í orðasambön-
dum og samsetningum. Þá er nærtækt að líta svo á að styrkur merk-
ingarvenslanna, merkingarleg nálægð eða skyldleikastig flettnanna
hverrar gagnvart annarri, komi fram í því hversu oft og víða um er
að ræða formvensl við sömu orð. En hafa verður í huga að fletturnar