Náttúrufræðingurinn - 2016, Blaðsíða 21
21
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
Aðferðir
Sýni voru tekin af mó úr framræstum
mýrum í þremur landshlutum: Við
Eyjafjörð nálægt bænum Hellu á
Árskógsströnd, í Grímsnesi við
bæinn Eyvík og við Þistilfjörð nálægt
bænum Ytra-Álandi (2. mynd, 1.
tafla). Á hverjum stað var tekið
lóðrétt snið af óröskuðum jarðvegi
og notað til frekari sýnatöku. Við
einangrun frjókorna var fylgt
hefðbundnum aðferðum með hitun
í NaOH, sigtun og hreinsun með
HCl, HF, asetólýsu og etanóli. Sýnin
frá Hellu voru tekin 1996 og geymd í
glyseríni eftir hreinsun en sýnin frá
Eyvík og Ytra-Álandi, sem voru
tekin 2006 og 2011, voru þurrkuð
með TBA (Tert-Butyl Alcohol) og
geymd í sílikon-olíu. Fjögur ný
sýni frá Hellu voru undirbúin
á sama hátt til samanburðar.
Aldursákvörðun sýnanna byggðist
að hluta á þekktum öskulögum og
að hluta á kolefnisaldursgreiningu.
Aldur er gefinn upp sem cal BP, þ.e.
reiknaður árafjöldi fyrir 1950, eða
cal ka BP, þegar átt er við þúsundir
ára, hvort sem fjallað er um
geislakolsgreiningar eða talningu
ára úr ískjarna Grænlandsjökuls.
Frjókorn sem höfð eru í glýseríni
stækka, en almennt er talið að
sílikonolía hafi ekki áhrif á stærð. Við
samanburð á stærð birkifrjókorna
úr sýnum frá Hellu, annars vegar í
glyseríni og hins vegar í sílikonolíu,
kom í ljós að fleira hefur áhrif á
kornastærð en í hvaða vökva þau eru
geymd. Í ljós kom að stærðarmunur
var þeim mun meiri því neðar
úr sniðinu sem sýnin voru tekin.
Aðstæður í mýrinni eða tíminn
sem kornin höfðu legið þar hafði
einnig haft áhrif á stærðina. Þetta
gerði að engu möguleika á að nota
fyrirframákveðin stærðarviðmið til
að greina á milli frjókorna ilmbjarkar
og fjalldrapa. Í staðinn var stærðar-
dreifing innan hvers sýnis skoðuð
og hlutföll tegunda reiknuð út
miðað við að báðar tegundir hefðu
normaldreifða kornastærð innan
hvers sýnis. Til þess voru notaðar
aðferðir Bhattacharyas,11,12 jafna
Járai-Komlódi13 og forritið Bmod.14
Birkifrjókorn sem höfðu fleiri
en þrjú frjópípugöt voru talin en
ekki mæld og hlutfallslegur fjöldi
þeirra notaður sem vísbending um
tegundablöndun. Frjógreining var
einnig gerð á sýnunum til þess að fá
upplýsingar um gróðursögu hvers
svæðis og sögu birkisins.8,9,15
Niðurstöður
Saksunarvatnsaskan er frá einu
eða fleiri Grímsvatnagosum frá því
fyrir um 10.300 árum.16 Hún finnst
neðarlega í öllum sniðunum og því
endurspegla frjókornin sem þar
finnast fyrsta birkið sem nam land
á nútíma, eftir hremmingar síðasta
jökulskeiðs. Í öllum sniðunum
sýndu niðurstöðurnar vaxandi
fjölda birkifrjókorna fyrstu aldirnar
og jafnframt vaxandi hlutfall
ilmbjarkar af birkifrjókornum. Síðan
tóku við tímabil þar sem ýmist dró
úr magni birkis eða það jókst (3.
mynd). Í öllum sniðunum fundust
afmörkuð tímabil þar sem mikið
var um afbrigðileg birkifrjókorn
og ætla má að þá hafi margir
blendingar ilmbjarkar og fjalldrapa
vaxið í nágrenni sýnatökustaða.*Upplýsingar frá nærliggjandi veðurstöð (Hella: Akureyri; Eyvík: Hæll; Ytra-Áland: Þorvaldsstaðir). – Data from nearby weather
station (Hella: Akureyri, Eyvík: Hæll, Ytra-Áland: Þorvaldsstaðir). Gögn/Source: Veðurstofa Íslands, Icelandic Meteorological
Office.
1. tafla. Sýnatökustaðir – Sampling sites.
Staður Site Hella Eyvík Ytra-Áland
Breiddargráða / Latitude 65°56´35´´N 64°03´17´´N 66°12´29´´N
Lengdargráða / Longitude 18°24´20´´W 20°41´37´´W 15°33´19´´W
Hæð yfir sjávarmáli / Altitude (m) 15 65 34
Lengd sniðs / Monolith length(cm) 200 108 108
Tímabil / Period covered (cal ka) 7,1–11,4 7,6–10,3 0–10,3
Meðalárshiti / Mean annual temp 1930–1960* 3,2°C 3,6°C 2,8°C
Meðalhiti í júlí / Mean July temp. 1930–1960* 10,5°C 10,6°C 8,5°C
Fjöldi sýna / Number of samples 39 44 47
Aldursákvörðun / Dating method
Þekkt öskulög / Known tephras 2 2 5
Kolefnisgreiningar / 14C datings - 2 2
Meðalsethraði / Average deposition rate
(mm ári-1 / mm year-1)
0,5 0,4 0,1
2. mynd. Sýnatökustaðir. – Sampling sites.