Náttúrufræðingurinn

Árgangur

Náttúrufræðingurinn - 2016, Síða 47

Náttúrufræðingurinn - 2016, Síða 47
47 Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags svæðanna sem ræður þéttleika fugla og tegundasamsetningu innan þeirra. Árstíðabundin nýting mismunandi fuglategunda Þegar litið er yfir þær 40 fugla- tegundir sem sáust í Fossvogi þarf ekki að koma á óvart að greina má árvisst mynstur í búsvæðanotkun hjá sumum tegundum. Út frá því má skipta fuglunum gróflega í fjóra hópa. Fyrst er rétt að nefna staðfugla, svo sem æðarfugl og tjald, sem halda til í Fossvogi allt árið. Þá ber að nefna vorgesti á borð við rauðbrysting, sem sjást aðallega að vori, haustgesti eins og heiðlóuna, sem eru mest áberandi að hausti til, og vetrargesti á borð við rauðahöfðaönd og hávellu, sem halda til á Fossvogi yfir veturinn. Að auki er hér nokkuð af fuglum sem ekki teljast til fjöru- eða sjófugla, t.d. stari sem sækir tilviljunarkennt í fjöruna, og einnig fuglar sem vænta má að hafi einungis átt leið um svæðið, svo sem himbrimi og flórgoði. Dæmigerður staðfugl í Fossvogi er æðarfuglinn. Æðarfugl var algengasti fuglinn í Fossvogi og eina fuglategundin sem sást í öllum 44 talningarferðunum. Að jafnaði sáust rúmlega 80 æðarfuglar í hverri talningarferð og aldrei færri en 46. Flestir æðarfuglar sáust 17. júlí 2008 eða 175 fuglar. Næsttíðasti fuglinn reyndist vera tjaldur sem sást í öllum talningarferðum nema einni. Flestir tjaldar sáust 2. febrúar 2010 eða 119 og var þá um einstakan topp að ræða, en að jafnaði töldust um 30 tjaldar á svæðinu. Tjaldurinn er sérstakur í farháttum að því leyti að hluti stofnsins dvelst yfir vetrartímann í fjörum í Fossvogi, eins og í öðrum fjörum við Innnes, og má því segja að hann sé bæði staðfugl og farfugl. Stelkar og stokkendur teljast einnig til staðfugla í Fossvogi. Alls sáust stelkar í 39 talningarferðum og stokkendur í 37 ferðum. Hvorug þessara tegunda sást í miklum fjölda. Mestur fjöldi stelka var 20 fuglar 8. júlí 2009 og mestur fjöldi stokkanda voru 18 fuglar 13. janúar 2009. Vorgestir í Fossvogi voru flestir á ferðinni í maí og skiptust í tvo hópa. Annars vegar voru farfuglar sem hingað koma til að verpa og hins vegar svokallaðir fargestir, en það eru fuglar sem koma við hér á landi á farleið sinni frá vetrarstöðvum í Evrópu til varpsvæða á Grænlandi og í Kanada. Meðal þessara fugla má nefna margæs (mest 15 fuglar 18. maí 2011), rauðbrysting (mest 115 fuglar 18. maí 2011) og tildru (mest 50 fuglar 6. maí 2009). Reyndar hefur tildra að einhverju leyti vetursetu hér á landi. Heiðlóur skera sig úr í þeim hópi fugla sem sækja í Fossvog að hausti og má ganga að því nokkuð vísu að á tímabilinu frá síðari hluta ágúst og út október séu þar að jafnaði um og yfir 100 heiðlóur, langflestar á Fossvogsleirunni. Mesti fjöldi heiðlóa sem sást voru 178 fuglar 5. október 2009. Á þessum tíma hefur heiðlóan fellt hinn alkunna varpbúning og má vera að hún veki minni athygli fyrir vikið. Hettumáfar eru einnig haustfuglar í Fossvogi (mest 32 fuglar 17. september 2009) þótt þeir sjáist líka á öðrum árstímum. Rauðbrystingar koma einnig við á Fossvogsleiru á haustin, en í mun minna mæli en á vorin. Helstu vetrargestir í Fossvogi eru andategundirnar hávella, rauðhöfðaönd og toppönd. Allar eiga þær það sameiginlegt að verpa við vötn inn til landsins en færa sig út á sjó að vetri þegar vötn eru ísilögð. Hávellan sást gjarna innan um æðarfugl og hélt sig nær eingöngu úti á voginum. Flestar hávellur sáust 16. nóvember 2009 eða 56 fuglar. Toppöndin hélt sig einnig að mestu úti á voginum þó að hún sæist einnig á svæðum 3 og 4 (mest 29 fuglar 13. janúar 2009) en rauðhöfðaöndin var hins vegar mest á svæðum 4 og 5 þar sem hún leitaði fæðu í flæðarmálinu (mest 40 fuglar 10. október 2011). Auk þess sást sendlingur aðeins að vetri til (mest 50 fuglar 22. mars 2011). Vetrargestirnir héldu sig misjafnlega lengi á svæðinu og fór það eftir tegundum. Rauðahöfðaendur voru komnar seint í ágúst en hávella og toppönd komu í byrjun október. Almennt fækkaði þeim eftir því sem leið á veturinn og fram á fyrrihluta vors, en seinustu fuglar hurfu af Fossvogi snemma í maí. 4. mynd. Meðalfjöldi algengustu fuglategunda á talningarsvæði 1 eftir árstíðum, ásamt staðalskekkju (SE). Ásinn er brotinn sökum fjölda æðarfugla. Sjá skilgreiningu árstíða í aðferðalýsingu. – Seasonal average number of most common bird species in area 1 and standard error. Y-axis is broken due to high number of eider ducks. See 1. table for definition of seasons.

x

Náttúrufræðingurinn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.