Náttúrufræðingurinn - 2016, Blaðsíða 53
53
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags
safnast fyrir í dældum og lægðum.
Hér verða á hinn bóginn aðeins
skoðuð tilvik þegar vindur er
hvassari en 6,0 m/s.
Gögn
Hveravellir eru á Kili, milli
Langjökuls og Hofsjökuls (1. mynd).
Þar hefur veður verið athugað frá
árinu 1966. Fyrstu áratugina sinntu
veðurathugunarmenn mælingum,
en frá árinu 2004 hefur ekki verið
föst viðvera á veðurstöðinni og
eru allar mælingar nú gerðar með
sjálfvirkum tækjum. Á sínum tíma
var veðurathugunarstöð valinn
staður á Hveravöllum vegna þess
meðal annars að þar var veður
talið gefa nokkuð glögga mynd af
veðri og veðurfari á stórum hluta
hálendis Íslands. Liggja þau sömu
rök að baki því að Hveravallagögn
hafa verið valin í þeirri athugun
sem hér segir frá. Víst má telja að
það sem hér verður lesið úr gögnum
eigi almennt við á landinu, nema ef
til vill á stöku stað við rætur fjalla.
Hveravallastöðin er í 641 m hæð
yfir sjávarmáli og ekki nærri háum
eða bröttum fjöllum sem stuðlað
gætu að mjög staðbundnu veðri.
Þótt brött fjöll séu ekki í næsta
nágrenni Hveravalla mótast vindar
þar þó að einhverju marki af því
að Langjökull er um 10 km vestur
af stöðinni en Hofsjökull í um 20
km fjarlægð í austurátt (1. og 2.
mynd). Sitthvað fróðlegt má lesa
um veðurstöðina og veðurfar á
Hveravöllum í riti Flosa Hrafns
Sigurðssonar o.fl. um stöðina.6
Í athuguninni sem hér er gerð
grein fyrir hafa verið skoðaðar
vindmælingar á Hveravöllum frá
ársbyrjun 2005 til ársloka 2014. Á
því tímabili liggja fyrir ágætar og
samfelldar veðurathuganir, auk
þess sem greiður aðgangur er að
útgefnum veðurspám í sjónvarpi.
Notast er við 10 mínútna meðalvind
á klukkustundarfresti, eða tæplega
88 þúsund athuganir.
Vindáttin
Í hægum vindi er vindátt oft afar
breytileg. Lítilsháttar breytingar á
loftþrýstingi, sem eiga sér ýmsar
orsakir, geta leitt til þess að andvari
komi úr gagnstæðri átt miðað við það
sem var fyrir örskömmu, án þess að
hægt sé um vik að skýra breytinguna.
Í strekkingsvindi er jafnan minni
breyting á vindátt og verður nú
nánar litið á vindáttarbreytingar
þegar svo háttar til.
Á 3. mynd er vindátt á Hvera-
völlum sýnd sem fall af vindátt
klukkustund fyrr, þegar vindur
er hvassari en 8,0 m/s (kaldi, 5
vindstig) í báðum athugunum. Þótt
meðalvindhraði á Hveravöllum sé
um 7,4 m/s fækkar þetta skilyrði
tilvikum í tæplega 16.800. Ljóst er
að í langflestum tilvikum breytist
vindátt lítið, enda eru flestir
punktarnir á myndinni nálægt línu
sem dregin er þar sem láréttur
og lóðréttur ás hafa sömu gildi.
Punktaklasarnir í horninu neðst til
hægri og efst til vinstri eiga rætur
að rekja til þess að í norðanátt getur
vindátt sveiflast milli þess að hafa
lágt gildi (NNA-átt) og að vera í
tæpum 360˚ (NNV-átt) án þess að
um mikla breytingu á vindátt sé
að ræða. Á punktaritinu má sjá að
vestanátt og austanátt eru fátíðari
en aðrar vindáttir. Fullvíst má telja
að skýringin sé sú að Hofsjökull
og Langjökull stýra vindátt, þótt
jöklarnir séu ekki í næsta nágrenni
Hveravalla.
2. mynd. Börn að leik í túnfæti veðurstöðvarinnar á Hveravöllum á Kili. Myndin er tekin
síðdegis 29. júní 2006. Hofsjökull er í baksýn og yfir honum er gat á skýjahulunni sem
líklega á rætur að rekja til niðurstreymis í austlægri vindátt. Vindur á Hveravöllum var af
SSA. – A view to the east from Hveravellir in the afternoon of 29 June 2006. Surface winds
are from SSE and the clouds are broken, presumably due to descending air in easterly flow
over Hofsjökull. Ljósm./Photo: Haraldur Ólafsson.
Á Hveravöllum á Kili er bensínstöð sem
nýtist ferðafólki á ýmsum aldri. Myndin er
líklega tekin sumarið 1969. – Hveravellir is
a popular destination. The picture is
probably taken in the summer of 1969.
Ljósm./Photo: Sigrún Ólafsdóttir.