Morgunblaðið - 07.10.2016, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 07.10.2016, Blaðsíða 28
28 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 7. OKTÓBER 2016 ✝ GuðmundurGylfi Guð- mundsson fæddist á Egilsstöðum 28. apríl 1957. Hann lést á Landspítalan- um í Fossvogi 26. september 2016. Foreldrar Gylfa voru Guðmundur Magnússon, sveit- arstjóri á Egilsstöðum, f. 6.12. 1922 á Hjartarstöðum í Eiðaþinghá, d. 13.7. 2004, og Aðaldís Pálsdóttir, húsmóðir, f. 28.5. 1925 á Skeggjastöðum í Fellum, d. 10.7. 2013. Systur Guðmundar Gylfa eru: Ólöf Magna, f. 31.1. 1951, Anna Heið- ur, f. 19.1. 1952, og Arnheiður Gígja, f. 10.10. 1960. 1977. Hann stundaði síðan hag- fræðinám í Lundi í Svíþjóð þar sem hann lauk BA-gráðu í hag- fræði 1980 og var síðan í fram- haldsnámi í Gautaborg 1981- 1984. Árið 2011 lauk hann meistaraprófi í fjármálum fyr- irtækja frá Háskóla Íslands. Frá 1985 starfaði Gylfi sem hagfræðingur hjá Fasteigna- mati ríkisins, Alþýðusambandi Íslands og Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Á árunum 2001-2007 starfaði hann sem fjármálastjóri Rík- isútvarpsins og þann starfa hafði hann einnig hjá Verk- fræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands frá 2011 til dauðadags. Guðmundur Gylfi var virkur í starfi Framsóknarflokksins um langt árabil og gegndi trúnaðarstörfum fyrir flokkinn í Reykjavík og á landsvísu. Útför Guðmundar Gylfa fer fram í dag, 7. október 2016, frá Langholtskirkju og hefst at- höfnin kl. 13. Gylfi kvæntist 2. júní 1989 Önnu Maríu Ögmunds- dóttur, f. 12.9. 1956, kennara, frá Vorsabæ í Ölfusi. Foreldrar Önnu Maríu voru Judith Jónsson, f. 28.11. 1922, húsmóðir í Vorsabæ, d. 10.8. 2014, og Ögmund- ur Jónsson, f. 1.8. 1907, bóndi á Vorsabæ, d. 2.4. 2001. Dætur Gylfa og Önnu Maríu eru: Arndís Jóna, iðju- þjálfi, f. 5.9. 1989, og Kristín Anna, söngnemi, f. 16.5. 1993. Guðmundur Gylfi ólst upp á Egilsstöðum, lauk landsprófi frá Eiðaskóla og stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri Alltaf man ég augun hans, eldar brunnu kærleikans, orð af vörum elskhugans alsæl mættu hjarta. Framtíðina leit ég ljúfa og bjarta. Mig vantar orð til að þakka þér, í þögninni geymi ég bestu ljóðin, gullinu betra gafstu mér, göfuga ást í tryggða sjóðinn og það sem huganum helgast er, hjartanu verður dýrsti gróðinn. (Guðrún Jóhannsdóttir) Með kærleika og þakklæti, þín eiginkona, Anna. Elskulegur bróðir okkar, Guðmundur Gylfi, lést 26. sept- ember síðastliðinn. Hann var næstyngstur og eini bróðirinn í hópi okkar fjögurra systkina. Fyrir 15 mánuðum greindist hann með MND-sjúkdóminn sem herjaði á hann sleitulaust þar til yfir lauk. Gylfi tók veik- indum sínum af æðruleysi og var stutt í glettnina og þrána til að hlýða á spjall um menn og málefni samfélagsins til hinstu stundar. Gylfi bróðir var einstaklega ljúfur drengur og hafði snemma mikinn áhuga á pólitík og sam- félagsmálum og jafnframt sterkar skoðanir á þeim. Hann var vel greindur og sá oft hlut- ina frá öðru sjónarhorni en aðr- ir. Hann mundi alla skapaða hluti sem hann hafði heyrt og séð og hann fylgdist vel með framkvæmdum á Egilsstöðum alla tíð og hafði sterka tengingu austur þó hann væri löngu flutt- ur í burtu. Það var alltaf gaman að setjast niður með Gylfa og rifja upp sögur úr fortíðinni því hann gat alltaf fyllt inn í sög- urnar sem við hin mundum ekki. Gylfi var líka mikill heim- ilis- og fjölskyldumaður, eldaði gjarnan mikinn og góðan ís- lenskan mat og bar mikla um- hyggju fyrir stelpunum sínum þremur – þær voru honum allt. Söknuður þeirra er mikill og þær eiga alla okkar samúð. Eftirsjá og tómleiki færist yf- ir nú þegar við systurnar sitjum saman og ræðum gamlar minn- ingar og liðna tíð. Það er svo skrýtið hve lífið getur verið ósanngjarnt og óvænt en við vitum að nú er bróðir okkar kominn á góðan stað, laus við þjáningar sjúkdómsins og van- líðan. Komið er að kveðjustund allt of snemma, elsku bróðir, og vilj- um við þakka allar eftirminni- legu og góðu samverustundirn- ar sem við áttum með þér. Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt, þig umvefji blessun og bænir, ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér, og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer, þó þú sért horfinn úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Elsku Anna María, Arndís Jóna og Kristín Anna, Guð styrki ykkur í sorginni. Ólöf, Anna og Gígja. Það er með mikilli sorg og trega sem við svilarnir kveðjum mág okkar Guðmund Gylfa Guðmundsson í dag. Gylfi hefur verið góðvinur okkar um ára- tugaskeið og það var átakanlegt að fylgjast með hvernig ákafur MND-sjúkdómurinn réðst að vini okkar og braut niður þenn- an stóra og kröftuga mann á að- eins fimmtán mánuðum. Við trúum því að hann sé nú kom- inn á betri stað, laus úr viðjum örlaganna og geti nú sinnt hugðarefnum sínum í ró og spekt. Við eigum afskaplega góðar minningar um Gylfa sem ylja nú þegar sorgin kveður dyra. Gylfi var einstaklega athugull maður og minnugur með afbrigðum. Sem sérlegur aðstoðarmaður Guðmundar föður síns þegar hann var oddviti og sveitarstjóri á Egilsstöðum á uppbygging- artíma sveitarfélagsins, lagði hann vel á minnið allar fram- kvæmdir sveitarfélagsins svo að nánast mátti fletta upp í honum eins og gagnabanka þegar upp- lýsingar þurfti um vatns- og fráveitulagnir eða hvernig þeim væri best fyrir komið. Gylfi vann mörg sumur hjá bænum á menntaskólaárunum og reyndi ávallt að haga málum þannig að unnið væri af útsjónarsemi og sparsemi fyrir bæjarfélagið – það var fyrir öllu. Gylfi lagði hagfræði og fjármálastjórn fyrir sig sem ævistarf en líklega hefði verkfræði alveg eins átt vel við hann – svo áhugasamur um verklegar framkvæmdir og verklaginn sem hann var. Gylfi gerði Framsóknarflokk- inn að vettvangi fyrir félags- málaáhuga sinn og starfaði þar um langt árabil. Hann sóttist þar ekki eftir vegtyllum en sinnti þeim störfum eins og öðr- um af trúmennsku og samvisku- semi. Gylfi var einstakur vinur vina sinna og fjölskyldu og börn okk- ar og barnabörn hafa átt fáar stundir skemmtilegri en að heimsækja Gylfa, njóta fé- lagsskapar hans og veitinga sem ekki voru skornar við nögl. Við höfum fáa menn þekkt um ævina hreinskiptari, blíð- lyndari og viðmótsþýðari en hann Guðmund Gylfa. Var stundum eins og við vildum fá hann til að hleypa í sig meiri hörku í samskiptum en það var ekki til í hans geði enda kenndi hann okkur að eina leiðin til að sigra í deilum væri að forðast þær. Þess vegna var svo gott að eiga í samskiptum við Gylfa og hafa hann nálægt sér. Þess munum við sakna. Guð blessi minningu Guð- mundar Gylfa Guðmundssonar. Gissur Pétursson, Reynir Sigurðsson, Bjarni G. Björgvinsson. Okkur sem komin erum á eft- irlaunaaldurinn og við sæmilega heilsu hættir flestum til að taka því sem sjálfsögðum hlut að ná og vera í þeirri stöðu. Okkur hnykkir því ónotalega við þegar nákominn vinur og mun yngri fellur í valinn af völdum illvígs sjúkdóms, sem læknavísindin eiga enn ekkert svar við. Gylfi, mágur/svili okkar, náði því ekki að verða sextugur. Fyrir hálfu öðru ári kenndi hann torkennilegs meins sem kom á daginn að var lömun í hreyfitaugum eða MND. Þau Anna María tóku strax, af aðdá- unarverðri skynsemi og kjarki, að gera ráðstafanir til þess að takast á við breyttar aðstæður. Þau festu kaup á og fluttu í hús á einni hæð í Steinagerði og seldu raðhúsið sitt í Skeiðar- vogi, sem ljóst var að hentaði engan veginn í þessari nýju stöðu. Þau bundu vonir við að Gylfi gæti með þessu móti dval- ið sem lengst heima. Framrás sjúkdómsins var þó hraðari en nokkurn óraði fyrir og naut Gylfi aðeins fárra mánaða veru í Steinagerði þar til hann varð að leggjast inn á sjúkrastofnun. Þetta eru ólýsanlega grimm ör- lög og mikið lagt á þau hjón og dæturnar tvær. Á útfarardegi Gylfa er okkur efst í huga þakklæti til hans fyrir þær fjölmörgu góðu stund- ir sem við áttum saman um nær þriggja áratuga skeið. Hann var sannkallaður höfðingi, í bestu merkingu þess orðs. Hann hlúði alla tíð vel að sínu og var, eins og Önnu Maríu, umhugað um að skapa gott heimili sem dró að sér fjölskyldur þeirra beggja, vini og kunningja. Við hátíðleg tækifæri héldu þau báðum fjöl- skyldunum myndarleg heimboð sem áttu drjúgan þátt í að treysta fjölskyldubönd og sam- heldni. Hann var listakokkur og búhöldur góður. Honum var gestrisnin í blóð borin og lét einkar vel að vera í hlutverki veitanda. Gestir hans fundu sig ávallt velkomna og ekki síst vegna þess að hann hafði lifandi áhuga fyrir fólki og umhverfi sínu. Þeim eiginleika hélt hann óskertum til hinstu stundar. Gylfi var vel menntaður og fróðleiksbrunnur, með stálminni og góða eðlisgreind. Hann hafði góða kímnigáfu og kunni frá mörgum gamanmálum að segja, ekki hvað síst frá æskuslóðun- um austur á Héraði. Þrátt fyrir þessa eðliskosti tranaði hann sér aldrei fram. Hann var óá- reitinn og jafnan umtalsgóður um menn og málefni. Það var aðdáunarvert hvað hann hélt öllum þessum góðu eiginleikum óskertum þótt líkamleg geta færi ört þverrandi. Í veikind- unum kom það skýrt í ljós hvað hann og þau hjón höfðu riðið þétt vinanet í gegnum tíðina. Hann uppskar þar svo sann- arlega sem hann hafði sáð. Svo er því farið: Sá er eftir lifir deyr þeim sem deyr en hinn dáni lifir í hjarta og minni manna er hans sakna. Þeir eru himnarnir honum yfir. (Hannes Pétursson) Nú er sannarlega skarð fyrir skildi í fjölskyldunni. Við Sól- veig þökkum Gylfa góða og gef- andi samferð. Hans verður sárt saknað. Elsku Anna María, Arndís Jóna og Kristín Anna. Við vott- um ykkur innilega okkar dýpstu samúð. Megi góður Guð styrkja ykkur og vernda. Sólveig og Bjarni. Því fylgir mikil sorg að sjá á bak frænda og góðum vin langt um aldur fram. Ég átti nokkrar góðar stundir með honum á meðan hann glímdi við sjúkdóm sinn og samtölin voru mjög gef- andi þar sem hvergi var komið að tómum kofunum. Það var átakanlegt að sjá hversu hratt þessi illvígi sjúkdómur lagði þennan fróða og gáfaða mann að velli. Við Gylfi vorum systkinabörn og var ár á milli okkar í aldri. Ég var í sveit hjá afa og ömmu okkar og síðar föðurbróður mín- um í tíu sumur á Skeggjastöð- um í Fellum, stutt frá Egils- stöðum þar sem hann ólst upp. Við brölluðum margt skemmti- legt saman. Við vorum rétt um 12 ára þegar við fórum í úti- legur bæði á Landsmóti ung- mennafélaganna á Eiðum og einnig um verslunarmannahelg- ina í Atlavík og upplifðum skemmtileg ævintýr. Ég minn- ist margra skemmtilegra stunda á Egilsstöðum, við spiluðum við körfubolta á Eiðum, fórum á sil- ungsveiðar og fleira. Síðar hélt Gylfi í nám til Svíþjóðar og að því loknu settist hann að í Reykjavík. Við og fjölskyldur okkar höfum fylgst að í gegnum lífsleiðina og átt margar frá- bærar stundir saman bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og á Skeggjastöðum sem ég minnist með hlýhug. Alltaf var skemmtilegt að koma í heim- sókn eða í veislur á Skeiðarvog- inn þar sem ávallt voru bornar fram miklar kræsingar sem þau hjón töfruðu fram. Þá var gjarnan rætt um heima og geima og oft tekist á um pólitík. Gylfi var mikill fjölskyldu- maður og afar stoltur af dætr- um sínum. Hann var vinamarg- ur og mikill vinur vina sinna. Hann og þau bæði hjónin voru afar hjálpsöm og alltaf boðin og búin til að hlaupa undir bagga ef eftir því var leitað. Ég kveð kæran frænda með þakklæti fyrir vinskap okkar og þær góðu stundir sem við áttum saman. Ég mun sakna hans og megi hann hvíla í friði. Elsku Anna María, Arndís Jóna og Kristín Anna, við fjöl- skyldan í Marargrund vottum ykkur okkar innilegustu samúð vegna sárs missis ykkar. Sigurbergur. Hún kom ekki á óvart fréttin um andlát Guðmundar Gylfa frænda míns þegar hún barst en sár var hún engu að síður. Ég hafði litið til hans daginn áð- ur og þá leyndi sér ekki hvað var í vændum. Stríðið við þann sjúkdóm sem engu eirir var að ljúka einungis 15 mánuðum eft- ir að greiningin var staðfest. Allan þennan tíma sem Gylfi háði baráttuna við MND-sjúk- dóminn hafði ég tækifæri til að heimsækja hann reglulega þar sem okkur gafst gott tækifæri til að rifja upp og fara yfir okk- ar lífshlaup. Þessar samveru- stundir voru ómetanlegar fyrir mig. Það eru margar góðar minn- ingar frá æskuárunum tengdar fjölmörgum heimsóknum þeirra feðga, Guðmundar og Gylfa, í Hjartarstaði þar sem foreldrar mínir bjuggu í tvíbýli með Sig- urði föðurbróður okkar og fjöl- skyldu hans. Þegar Gylfi kom í heimsókn í sveitina var það oftar en ekki sem við lékum okkur saman þrír bræðrasynirnir enda vorum við nánast jafn gamlir, fæddir á sex vikna tímabili á vordögum 1957. Gylfi vildi þó ekki alltaf fara strax út að leika þegar hann kom í heimsókn því hann hafði einnig mikinn áhuga á að fylgjast með þegar feður okkar ræddu búskapinn, pólitíkina og heimsmálin. Áhugi hans á þjóð- félagsmálum vaknaði því snemma. Gylfi var strax á barnsaldri afar fróður og víðles- inn, eitthvað sem einkenndi hann alla tíð. Hann hafði mjög gott minni og ætíð svör á reiðum höndum og þá nánast sama um hvað var spurt. Landsprófsveturinn á Eiðum deildum við þrír frændurnir herbergi á heimavistinni og síð- an vorum við Gylfi herbergis- félagar á heimavistinni í MA þegar við hófum þar nám. Þessa vetur var samneytið því eðlilega náið en samkomulagið nánast alltaf gott enda voru persónu- eiginleikar Gylfa þannig að afar erfitt var að hugsa sér að eiga í deilum við hann og leggja ekki við hlustir þegar hann veitti ráð. Eftir að menntaskólanum lauk fórum við hvor í sína áttina í nám og vinnu og samband okkar takmarkað næstu 12 árin eða þar til ég flutti aftur á höf- uðborgarsvæðið. Þá hafði Gylfi fundið Önnu Maríu, stóru ástina í sínu lífi, stofnað heimili og geislaði af hamingju. Alla tíð síðan héldum við góðu sam- bandi, meira fyrstu árin á með- an dætur okkar voru yngri enda frumburðir okkar nánast jafn gamlar. Ég verð alla tíð mjög þakk- látur fyrir að hafa átt Gylfa fyr- ir samferðamann og vin. Hann hafði ótrúlegt jafnaðargeð, úr- ræðagóður, jákvæður, fjölfróður og afar traustur vinur. Þrátt fyrir þá miklu sorg sem fylgdi glímunni við þennan erf- iða sjúdóm sem hann og fjöl- skyldan þurftu að takast á við þá var Gylfi alltaf glaðvær, með einlægan áhuga á að fá fréttir og ræða bæði um nútímann og fortíðina þegar ég heimsótti hann í veikindunum. Allt til síðustu stundar veitti hann af sínum viskubrunni. Heimboðið í júní þegar Gylfi hóaði saman hópi vina og ætt- ingja verður okkur vinum hans minnisstætt. Elsku Anna María, Arndís Jóna og Kristína Anna. Inni- legar samúðarkveðjur til ykkar og annarra í nánustu fjölskyldu frá okkur Rannveigu og dætr- um. Minningin um góðan dreng og traustan vin mun lifa með okkur. Einar Birgir Steinþórsson. Guðmundur Gylfi frændi minn. Þó ég eigi erfitt með að trúa því að það sé komið að því að kveðja þig í blóma lífsins þá verð ég að beygja mig undir það og skrifa þér nokkur minn- ingarorð. Ég þekkti þig sem barn og man það vel hvað þú varst glað- lyndur og jákvæður og brosið bjart. Af því að það kom beint frá hjartanu. Þú varst alltaf svo góður við alla. Og líka við dýrin. Segir það ekki allt sem þarf? Þó að þú værir prinsinn í á heimilinu með þremur systrum þá léstu það samt ekki spilla þínum góðu eiginleikum á nokk- urn hátt. Það var nú í sjálfu sér þó- nokkurt afrek. Og þegar þú varst orðinn sterkur og stór og fullorðinn þá varstu enn sá sami. Hvenær sem maður hitti þig og þó að liðu mörg ár á milli þá var jákvæðnin og brosið sem náði alla leið til augnanna á sín- um stað. Nokkuð sem ekki er öllum gefið. Og varst enn að spyrja um allt mögulegt af sömu einlægn- inni og glettninni og áður fyrr. Það fannst mér nefnilega vera dálítið skemmtilegt. Og allt í góðu. Það er enginn vafi í mínum huga að þér verður vel fagnað á nýja staðnum af þeim sem þar bíða eftir þér, og mest öfunda ég þig af því að hitta hana Jón- ínu, langömmu okkar. Það var nú skemmtileg kelling. Og töfr- aði alla upp úr skónum. En hún var farin héðan af jörð áður en þú fæddist. Þú munt kunna vel að meta að kynnast henni. Það er stórt skarð í hópi fjöl- skyldu og vina þegar leysist lífsins band, og ljósið hverfur sýnum eins og nú hefur orðið. Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli. (Reinhold Niebuhr.) Innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra Alda Jónsdóttir. Guðmundi Gylfa kynntist ég fyrst þegar við stunduðum báðir nám í hagfræði við háskólann í Gautaborg. Tókst þá með okkur vinskapur sem varað hefur ætíð síðan. Margar sælar minningar eru frá Gautaborgarárunum enda var þá margt brallað. Eftir að heim var komið urðu sam- verustundirnar strjálli og þá einkum síðari árin. Við reynd- um þó að bæta úr þessu annað slagið þegar ég var á ferðinni syðra og var þá gjarnan hist, ásamt Helga Tomm, í Múlakaffi yfir gæðamáltíð, farið yfir stöðu mála, rökrætt og hlegið. Í framhaldi af því að Guð- mundur greindist með erfiðan sjúkdóm fyrir rúmu ári síðan hittumst við félagarnir heima hjá honum og áttum saman skemmtilega síðdegisstund. En tíminn líður hratt og er ég heimsótti vin minn Guðmund á sjúkrabeð fyrir um hálfum mán- uði síðan varð mér ljóst að skammt var eftir. Nú er leiðir skilur vil ég nota tækifærið og þakka mínum kæra vini fyrir allar gefandi samverustundirnar í gegnum árin og votta fjölskyldu hans mína dýpstu samúð. Björn Ingimarsson. Austur á héraði segir hann og s-ið í austur er langt og hlý- legt. Svipurinn verður dreym- inn, augun pírast og yfir andlit- ið færist hlýlegt bros og væntumþykja sem einkenndi Guðmund Gylfa Guðmundsson sem við alltaf kölluðum Gylfa. Hann kom til starfa sem fjár- málastjóri verkfræði- og nátt- úruvísindasviðs Háskóla Íslands í nóvember 2011. Hann hafði nýjar hugmyndir um hvernig mætti skipuleggja fjármál sviðsins betur og færa til nú- tímalegri hátta. Hann hafði m.a. kynnt sér nýjar kenningar í rekstrarhagfræði og áætlana- gerð sem hann mælti fyrir af þekkingu og ástríðu og margar Guðmundur Gylfi Guðmundsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.