Skagfirðingabók - 01.01.2008, Side 54
SKAGFIRÐINGABÓK
Ég kom af fjöllum; átti samt að
kannast við hina gömlu históríu, í
slitrum þótt ekki væri annað, því ég
hafði lesið tvær bækur þar sem hún
var sögð í grófum dráttum. Það sýnir
hvað maður les oft hratt og lauslega
eða er fljótur að gleyma því sem fang-
ar ekki hugann þegar í stað.
Sem við Björn Egilsson stóðum þarna
hlið við hlið hjá leiði séra Magnúsar
Sigurðssonar kom okkur saman um
að skafa þyrfti botninn „í þessu
skrýtna máli“, ef hægt væri; og
kannski yrði Björn sjálfur til þess,
kannski ég ellegar einhver enn annar,
það færi sem færi með það. Veit ég
ekki hvort Björn lét af slíkri athugun
verða, þótt hann lifði mörg ár eftir
1970, sískrifandi að kalla fram í
háa elli, og trassalega gekk vesalingur
minn til verks. Um seinan tíni ég til
atriði sem ég ímynda mér að Birni
hefði fallið vel að hafa í kolli sér þeg-
ar sláttuljár hans hvein í Goðdala-
garði, um seinan, því nú hvíla bein
hans sjálfs þar í mold.
En áfram með smjörið. Björn vildi
endilega að ég reyndi að stauta mig
fram úr þeim línum sem meitlaðar
voru í leghelluna og lesnar yrðu án
sérstakra tilfæringa, svo sem þeirra
að skrapa mosa og skófir upp úr
stöfunum með hníf. Steinninn var
nokkuð siginn í jörð og hafði gras-
svörður sótt að honum á alla vegu
eins og nærri mátti geta. Við vildum
ekki hrófla við köntunum, en það olli
því aftur á móti að upphafleg stærð
sást óglöggt.
Mér var ljúft að verða við bón
Björns, enda þótt ég vissi fullvel
hversu handahófsleg uppskriftin
hlyti að verða; tók upp vasabók mína
og blýant, laut niður að hellunni og
krotaði hjá mér stafi.
Letrið reyndist veðurétnara en sýnd-
ist í fljótu bragði. Þegar ég leit yfir
vasabókarblaðið stóðu þar þessi orð
sem ég lét Björn heyra:
Hér hvílast leifar
þær líkamlegu
pr. Magnúsar Sigurðssonar
fæddist...6. Júní
útskrifaðist... .Júlí
vígðist....26. Nóv
deyði..3....1828
Hann var
góð[?]lundaður....m[?]ann.
kjær...rækinn
A....hreinhjartað:
ur lastvar
Teikn: Setti[?] IS[?]
S. Jónsson
Spurningarmerki í hornklofum
eiga að sýna að ég var efins um lest-
urinn. Líka skal nefnt að ég ritaði
ekki upp eftir ströngum stafkrókum,
kjær var t.d. kiær á steininum; og
sakar lítið, því ég starfaði ekki í þágu
fornfræði, heldur aðeins til þess að
sýna okkur Birni Egilssyni hvað enn
kynni að standa eftir af orðunum sem
höggvin voru í þennan stein. Hann
liggur víst óhreyfður í Goðdalagarði,
og ugglaust tekst slyngum mönnum
betur en mér að ráða, með fræðilegri
natni, í leturlínur hans.
2.
Séra Magnús Sigurðsson átti sér
skamma ævi eins og þegar hefur verið
sagt. Hann var í heiminn borinn í
Saurbæ í Eyjafirði 7. maí 1800 (og
50