Skagfirðingabók - 01.01.2008, Síða 68
SKAGFIRÐINGABÓK
að nauðsynjalausu. Þó fundust nokkr-
ir gripir svo sem brýni, snældusnúð-
ur, naglar, brot af viðgerðri grýtu
úr norsku klébergi, auk járnnagla og
ýmissa brota af brons- og járnhlutum.
Fornleifarannsðkn 2007
SUMARIÐ 2007 fór svo, í fjórða sinni,
fram fornleifarannsókn í tengslum
við framkvæmdir í Keldudal. Ætl-
unin var að byggja við íbúðarhús ofan
og suðaustan kirkjugarðsins, syðst í
gamla bæjarhólnum, og því minja að
vænta. Uppgröfturinn stóð yfir í þrjár
vikur og mikilvæg vitneskja bættist
við um byggðina tengda kirkjugarð-
inum. Nyrst í húsgrunninum lágu
syðri útmörk gamla bæjarhólsins. Þar
voru mannvistarlög á annan metra á
þykkt. Stærstur hluti mannvistar-
laganna tilheyrði yngri skeiðum torf-
bæjarins, þ.e.a.s. 18,—19. aldar bæn-
um. Eins og við er að búast hafa
seinni tíma byggingar gengið á
eldri byggðaleifar og því kom tölu-
vert á óvart þegar í ljós kom að ofan
á stórum hluta svæðisins, að hluta
undir yngri bæjarleifum, lá óhreyft
gráleitt gjóskulag úr Heklu sem féll
árið 1300. Undir gjóskunni fundust
svo leifar a.m.k. tveggja bygginga í
bæjarhólnum sjálfum. Einnig kom
fram um metra breið hellulögð stétt,
sem sást á um 3ja m kafla frá austri til
vesturs, syðst í grunninum. Austan,
sunnan og á parti norðan stéttarinnar
lágu fornlegar leifar torfveggja og
virtust þeir tilheyra henni. Þegar leið
á uppgröftinn komu einnig fram
smærri stoðarholur upp við þessa
veggi, sem virtust afmarka smærri
afhólf upp við stéttina. Eftir að hafa
borið þessar minjar saman við sams-
konar fundi annarsstaðar frá, var það
mat rannsakenda að þarna væri um
fjósbyggingu að ræða en útihús frá
elstu tíð eru sjaldgæfir fundir. Enn
á eftir að vinna frekar úr uppgreft-
inum og koma þá vísast í ljós margir
forvitnilegir hlutir.
Aldur byggðar i Keldudal
FORNRIT eða aðrar skrifaðar heimildir
veittu enga hjálp við túlkun fundar-
ins, né heldur varpa þær nokkru Ijósi
á aldur fornleifanna. Keldudals er
fyrst getið í rituðum heimildum í
stofnskrá Reynistaðarklausturs 1295,
en þá var jörðin komin í eigu klaust-
ursins8 og hélst svo um aldir. Heim-
ildir geta hvorki kirkju né kirkju-
garðs og engar þekktar sögusagnir
eða örnefni geta bent á tilvist þeirra.
Hið sama á við um 9—10. aldar
byggðina og kumlateiginn. Þar sem
kirkjunnar finnst ekki getið í elstu
máldögum má leiða að því líkur að
kirkjugarðurinn hafi verið fallinn í
fyrnsku þegar í lok 13. aldar. Við
getum í það minnsta fullyrt að hann
hefur verið kominn úr notkun nokkru
fyrir þann tíma, því að grátt gjósku-
lag úr Heklu frá því um 1300 lá ó-
hreyft yfir leifum kirkjugarðsveggjar-
ins og yfir kirkjugarðinum vestan-
verðum.
I upphafi varð ljóst að a.m.k. hluti
kirkjugarðsins var frá því fyrir 1104
þegar gráhvíta Heklugjóskan féll.
En ýmis fleiri teikn voru um aldur
garðsins. Til að mynda gaf gjóska í
kirkjugarðsveggnum hugmynd um
64