Skagfirðingabók - 01.01.2008, Side 92
SKAGFIRÐINGABÓK
Bjarni gerði mikið að [svo] því,
eins og hann orðaði það, að fara í svo-
nefndan skinnaleik við folann. Hann
byggðist á því, að hann hélt í taum
folans með annarri hendi, en á skinn-
inu góða í hinni. Svo vingsaði hann
skinninu eða hristi það framan við
eða í nálægð við hestinn, sem ef til
vill fyrst í stað skalf á beinunum af
hræðslu, en smám saman áttaði sig á
hræðsluefninu. Bjarni færði sig þá
upp á markið og henti skinninu í
fætur eða skrokk folans. Þegar þessi
óvenjulegi skinnaleikur hafði verið
margendurtekinn og hesturinn hætt-
ur að kippast við og hræðast þessar
aðgerðir, þá breytti Bjarni enn til
þannig, að nú gyrti hann skinnið með
yfirgjörðinni, sem hann reið jafnan
við, utan í hlið hestsins þannig, að
það slóst til og flaxaði [svo] við
hreyfingar hans. Mörgum hesti var
illa við þessa nýbreytni, en lét sér að
lokum á sama standa. Lokaþáttur
skinnaleiksins var í því fólginn, að
Bjarni fór á bak með skinnið í hendi,
sem hann lét flaxa og slást með hlið
hestsins. Að lokum batt hann skinn-
ið í langt snæri og dró það við jörð
með hlið hestsins eða á eftir honum.
Eins og að líkum lætur, tóku fol-
arnir þessari skólun misjafnlega. En
aldrei vissi ég til þess, að Bjarni gæf-
ist upp við þessar sérkennilegu æfing-
ar, fyrr en fullum sigri var náð, þ.e.,
að hestarnir tóku þessu með óttalausu
jafnaðargeði. Undir þennan skólaaga
urðu þeir skilyrðislaust að beygja sig.
Við slæga hesta notaði Bjarni venju-
lega poka eða kaðaldræsu, sem hann
batt í taglið á þeim.
Bjarni mun sjaldan á ferðum
sínum hafa farið fram hjá óttaefni
hesta sinna án þess að staldra við og
gefa þeim tækifæri til þess að átta
sig á hræðsluefninu. Sem skýringu á
natni og tiltektum Bjarna við ofan-
skráðar sagnir, set ég hér litla sögu:
Það var að vori til. Bjarni reið af
Sauðárkróki snemma dags með átta
tamningarfola. Hann reið sem leið lá
austur yfír Hegranes og ætlaði yfir í
Hjaltadal. Á bakkanum norðan við
Austurvatnabrúna, en hún var þá
nýsmíðuð, lá langt tré rétt við veg-
inn. Þegar folarnir komu að trénu,
greip þá hræðsla, og tvístruðust þeir
um bakkann. Bjarna þótti þeir óþarf-
lega tiltektasamir við ekki meiri
hættu. Þarna fór hann af baki og fór
að tína saman hestana og leysa niður
taumana; að öllu fór hann hægt og
rólega að vanda. Nú hófst langur og
strangur skólatími í hinni yndislegu
og víðfeðmu skólastofu. Bjarni fór að
teyma folana, fyrst einn, svo tvo, og
svo koll af kolli kringum tréð og yfir
það. Dagurinn leið fyrr en varði við
nautn þá, sem Bjarni hafði af þessu
starfi. Lengi dags dvaldist honum við
þessar stauræfingar með litlum hvíld-
um, en þá var líka fullur sigur unn-
inn. Þá gat hann teymt alia folana
hlið við hlið í einni breiðu yfir tréð,
án þess að nokkur þeirra sýndi
tregðu. En burtfararprófið af bakkan-
um var innifalið í því, að hann færði
tréð þvert yfir alfaraleið á bakkanum,
batt svo upp á folunum, rak þá fyrst
norður bakkann, svo til baka beint á
tréð og yfir það, án þess að þeim
brygði hið minnsta. Og þá hefur
minn gamli vinur verið sæll og á-
nægðari en herra Salómon í allri
sinni dýrð“. (Áður birt í bók Asgeirs
Horfnir góðhestar, bls. 225—226.)
88