Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.05.2017, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.05.2017, Blaðsíða 14
VIÐTAL 14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 7.5. 2017 Björgvin Franz Gíslason. Á þessum tíma var Skúli nýbúinn að breyta hlöðunni sinni, rétt fyr- ir utan Akureyri, í leikhús og af því að ég var að vinna á næturvöktum á Hótel Eddu á Akureyri ákváðum við að vera með hádegisleikhús. Ég vann á nóttinni, æfði á daginn og sýndi í hádeg- inu. Eftir þetta kynntist ég Þorvaldi betur og er fyrsta bókin í „Þín eigin“-seríunni tileinkuð minningu hans. Það var í raun hann sem settist niður og spurði mig hvort ég hefði velt því fyrir mér að skrifa fyrir alvöru. Ég hafði þannig lag- að ekkert verið að spá í það sem annað en áhugamál en hann ýtti við mér,“ segir Ævar. Hann sá eitthvað í þér? „Já, eitthvað! Ég veit ekki hvað en mér þótti óskaplega vænt um hann og hann á mikið í því að ýta mér af stað í skrifum,“ segir hann. Sagði ekki orð í heilt ár Eftir útskrift úr menntaskóla stefndi Ævar ótrauður í leiklistardeild LHÍ, annað kom ekki til greina. En Ævar þurfti að bíða í ár eftir að geta sótt um. „Það var eitt ár í pásu þannig að ég ákvað að ég vildi nýta það í einhverja vinnu sem ég gæti nýtt mér síðar sem leikari. Ég fékk vinnu sem leikmunavörður í Borgarleikhúsinu og var það rosa hollt að stíga aðeins til baka, eft- ir að hafa leikið nokkur stór hlutverk í röð, sjá um propsið og fylgjast með atvinnuleikurunum.“ Þannig að þú varst svona fluga á vegg? „Já, og ég var svo feiminn af því mér fannst þetta allt svo merkilegt fólk, mig hafði dreymt um að verða leikari síðan ég var fimm ára. Ég sagði ekki orð í heilt ár, ég læddist algjörlega með veggjum. Þarna var allt fólkið sem ég var búinn að lesa um, dást að og horfa á í leikhúsi, þannig að það kom auðvitað ekki til greina að fara að flækjast eitthvað fyrir því og trufla,“ segir Ævar. Með kúrekahatt í útvarpi „Á sama tíma sótti ég um vinnu hjá Rás 1 í barnaþætti sem hét Vitinn. Það var ekki verið að auglýsa eftir nýjum starfskröftum, ég ákvað einfaldlega að senda þeim póst og sjá hvað myndi gerast. Sigríður Pétursdóttir og Atli Rafn Sigurðarson voru með þáttinn og af ein- skærri tilviljun var Atli Rafn að hætta. Þau hittu mig, létu mig fá upptökutæki og sögðu mér að ég mætti gera hvað sem er. Það yrði prufan mín fyrir þáttinn,“ segir Ævar, sem hafði viku til verksins. „Að fá að gera hvað sem er er versta verkefni sem maður getur fengið, því þá fer maður að ofhugsa allt og finnst allar hugmyndir hræðilegar. Á endanum ákvað ég að fara heim í sveit, setti upp kúrekahatt, þó að þetta væri fyrir útvarp, ákvað að labba út á tún, brjóta blað í sögu útvarps og taka viðtal við hest. Innslagið virkaði þannig að ég var á rölti allan tímann, yfir læki og skurði, og lýsti um- hverfinu og fór með ýmsan fróðleik um íslenska hestinn í leiðinni. Því þótt ég væri ekkert alltaf á baki vissi ég auðvitað helling um hesta. Lengst í burtu var hrossastóð sem ég nálgaðist hægt en örugglega þegar leið á upptökuna en þegar ég kom að þeim hlupu hrossin í burtu. Og þannig endaði innslagið,“ segir Ævar, sem fékk vinnuna út á þetta sérkennilega „hestaviðtal“. Í útvarpinu var hann næstu tvö árin og með þessu hafði hann komið fætinum inn hjá RÚV. Á svipuðum tíma sótti hann um leiklistar- deildina hjá LHÍ. Ævar komst í gegnum tvö af þremur þrepum, sem svo kallast í inntökupróf- inu, en komst ekki inn eftir þriðja og loka þrep- ið. „Á þeim tíma, fyrir dramatískan ungan mann, var það mikið sjokk. Sérstaklega af því að ég hafði verið að leika þessi stóru hlutverk og fannst ég vera svolítið með þetta,“ segir hann. „Þetta var algjör bömmer en í rauninni það besta sem gat komið fyrir mig því í þessum bransa fær maður oftar nei en já. Það var gott og hollt, eftir á, að fá þetta,“ segir Ævar, sem ætlaði svo sannarlega ekki að leggja árar í bát. Ári síðar komst hann inn í skólann. „Ég lærði af neituninni, stúderaði hvað hefði mátt betur fara og undirbjó mig helmingi betur. Þetta var draumurinn og þetta skipti öllu máli,“ segir hann. „Það kom ekkert annað til greina.“ Með spangir og rakaða fætur Ævar undi sér vel í náminu og þegar hann var búinn með tvö ár í skólanum fékk hann símtal og hann beðinn að koma í viðtal hjá Ragnari Bragasyni leikstjóra, sem þá hafði gert Nætur- vaktina. Dagvaktin var þá í bígerð og var Ævar ráðinn þar í eftirminnilegt hlutverk Óðins Víg- lundarsonar. Í leiklistardeildinni hafði verið framkomubann hjá nemendum, sem var aflétt á þessum tímapunkti. „Ég var búinn að ýta því frá mér í mörg ár að fara í tannréttingar en hafði þarna ákveðið, fyrst það var hvort sem er framkomubann, að fá mér spangir. Svo voru þær ekki fyrr komnar á en blessuðu fram- komubanninu var aflétt,“ segir hann og hlær. „En svo kom á daginn að það smellpassaði við karakterinn. Þannig að ég fékk hlutverkið sem vinur Georgs Bjarnfreðarsonar og þetta var ferlega gaman,“ segir Ævar. „Ég var ekki fyrr mættur, ógeðslega spenntur, en Áslaug Dröfn, sminka og gervahönnuður, vippaði sér upp að mér og tilkynnti að það fyrsta sem þyrfti að gera væri að raka á mér lappirnar. Ég sagði auðvitað bara ókei, ekki ætlaði ég að fara að segja nei. Við ætluðum sem sagt að byrja á senu þar sem myndi sjást í fæturna á mér og það hentaði karakternum að hafa þá alveg hár- lausa. Þannig að þetta var það fyrsta sem gerð- ist á settinu. Þetta er í fyrsta og eina skipti sem lappirnar hafa verið rakaðar,“ segir Ævar og brosir að minningunni. „Ég er virkilega mont- inn að hafa fengið að vera með í þessu ævintýri. Vaktirnar eru einstaklega vel gert íslenskt efni og magnað að hafa verið hluti af þessu.“ Að hafa áhrif til góðs Eftir útskrift úr leiklistarskólanum var Ævar ráðinn hjá Þjóðleikhúsinu, þar sem hann starf- aði í fjögur ár. Þar lék hann í Englum alheims- ins, Vesalingunum, Monty Python-söngleiknum Spamalot og lék Lilla klifurmús svo eitthvað sé nefnt. Samhliða vinnunni var Ævar farinn að leika vísindamanninn vinsæla, sem margar fjöl- skyldur hafa skemmt sér saman yfir, auk þess sem hann var farinn að skrifa barnabækur. Á ákveðnum tímapunkti var vinnan utan leikhúss- ins farin að taka sífellt meira pláss og var að lokum ákveðið að hann myndi setja leikhúsið til hliðar í smátíma. Út eru nú komnar átta barna- bækur eftir Ævar. „Þetta er fjórða árið í röð sem ég gef út tvær bækur, eina að vori og eina um jól,“ segir hann, en bækurnar eru mest- megnis skrifaðar á kaffihúsum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Allt sem þú gerir í dag er fyrir börn, hvers vegna? „Ég held að það efni sem ég horfði á, las og hlustaði á þegar ég var yngri hafi haft það mik- il áhrif á mig að mig langaði gera slíkt hið sama,“ segir hann. Ævar segir krakka gjarnan stöðva sig úti á götu og hefur hann gaman af slíku. „Við- brögðin hafa verið rosalega góð og í raun framar öllum vonum.“ Það kom bersýnilega í ljós þegar Ævar var myndaður fyrir viðtalið. Framhjá gengu þrír drengir á unglingsaldri og kallaði einn: „Hæ, Ævar vísindamaður!“ Frábært að vera nörd Ævar vísindamaður byrjaði feril sinn í útvarpi í þættinum Leynifélagið, þar sem hann stökk inn fyrir Brynhildi Björnsdóttur sem fór í fæð- ingarorlof. „Ég ákvað að koma inn með ein- hvern karakter, þar sem ég hafði bara verið ég sjálfur þegar ég var með Vitann, og stakk upp á því að vera uppfinningamaður. Í mennta- skóla var ég á málabraut þannig að ég er ekki menntaður í vísindum, en hef samt alltaf haft mikinn áhuga á þeim, og þess vegna fannst mér tilhugsunin um að leika uppfinningamann spennandi. Ég hef líka alltaf verið forvitinn og algjört nörd þegar kemur að ákveðnum hlut- um og það hefur nýst mér vel, bæði við bóka- skrifin sem og þættina um vísindamanninn. Að vera nörd, og það er mjög mikilvægt að það komi fram, er samt ekki slæmt. Að vera nörd þýðir einfaldlega að maður er ógeðslega góður í einhverju. Það eru nörd í íþróttum, í tónlist, í tölvum, í bókum. Alls staðar.“ Það er kannski bara töff að vera nörd? „Nördarnir erfa heiminn, það er bara þannig. Ég hélt ræðu um daginn í borgaralegri fermingu hjá Siðmennt og ég sagði einmitt: Allir sem þið dýrkið og dáið eru nördar. Þau náðu langt á sínu sviði af því að þau voru hel- tekin af því sem þau voru að gera. Þau voru nördar. Nörd var lengi vel notað í neikvæðri merkingu, það var slæmt ef þú varst nörd. En það gæti ekki verið fjær raunveruleikanum. Þetta er frábært orð. Annað orð yfir nörd er sérfræðingur en það er lengra orð og leið- inlegra. Nörd er miklu flottara.“ Afi er Ævar vísindamaður Ævar segir að uppfinningamaðurinn hafi smátt og smátt breyst í vísindamann. Spurður hvort hann hafi sjálfur áhuga á vísindum svar- ar hann því til að það hafi svolítið komið með karakternum. „Ég hafði auðvitað alltaf áhuga á vísindum en þegar kom að því að fara að segja öðrum frá og fræða dembdi ég mér á bólakaf og hef á þessum átta árum bæði lært og gert ótrúlegustu hluti. Það er ekkert í hvaða vinnu sem er sem þú færð að klífa Perl- una með ryksugum eða hjóla út í Viðey. Ég setti mér líka mikilvæga reglu strax í byrjun, sem ég hef haldið til haga í öllu mínu starfi sem Ævar vísindamaður: Ég verð að skilja það sem Ævar vísindamaður er að segja frá og mér verður að þykja það merkilegt og skemmti- legt, annars verður það ekki með. Ég treysti á að áhugi minn á viðfangsefninu smiti áhorf- endur og hrífi þá með. Það má því segja að það að skrifa einn þátt af Ævari vísindamanni sé eins og að læra fyrir ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt próf. Þá er afi minn vísindamaður og uppfinningamaður og heitir Ævar, þannig að þetta er alveg í ættinni líka. Þegar þættirnir Þú ert sem sagt hinn raunverulegi Ævar vísindamaður? „Já, nema bara tveimur kynslóðum eldri,“ segir hann og hlær. Hvað er þín helsta uppfinning? „Ég fann upp aðferð til að mæla jökla án þess að bora í þá og að- ferð til að framkalla litfilmur.“ Hvernig strákur var Ævar? „Hann var ágætur.“ Þeir hlæja nafnarnir. Blaðamaður beinir spurningu til Ævars yngri. Hvað var það helsta sem afi þinn kenndi þér? „Það var auðvitað margt en kannski það helsta að vera forvitinn. Að spyrja, og halda áfram að leita.“ Ævar eldri: „Það er ágætt, ég held það hafi enginn orðið vísinda- maður án þess að gera það. Ég vann við vísindi mestalla ævina, þess vegna var alveg réttnefni að kalla mig Ævar vísindamann.“ Finnst þér ekkert að hann hafi stolið titlinum þínum? „Nei, nei, nei, ég er mjög ánægður með það.“ Ævar hlýtur að vera besta barnabarnið? „Hann er elstur af þeim,“ segir Ævar eldri sem ekki vill gera upp á milli barnabarnanna. Afi Ævars, Ævar Jóhannesson vísindamaður er ánægður með elsta barnabarnið sitt. Hinn raunverulegi Ævar vísindamaður Afi Ævars heitir Ævar Jóhannesson og er fæddur árið 1931. Hann er vísindamaður og uppfinningamaður og vann lengi við rannsóknarstörf við Háskóla Íslands.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.