Morgunblaðið - 01.06.2018, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 01.06.2018, Blaðsíða 29
MINNINGAR 29 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 1. JÚNÍ 2018 færðir um að hann myndi ekki lifa áttræðisafmælið. En auðvitað komst hann klakklaust niður (enda gamall ólympíufari á gönguskíðum) og beið þar þolin- móður eftir okkur hinum sem trítluðum niður skömmustuleg með línuskautana í fanginu. Oddur var mikill fjallgöngu- garpur og ég á margar góðar minningar um vinnuferðir til fjalla með honum. Hann gekk alltaf öruggum skrefum á jöfnum hraða og tók vel eftir umhverfinu. Hann hafði haukfrána sjón og ég man eitt af fyrstu skiptunum þeg- ar ég var með honum að mæla út- línur snjóflóðs, þá hvarf hann allt í einu og ég var farin að hafa áhyggjur af honum, enda var hann orðinn fullorðinn. En svo sá ég hann skokka léttilega upp hlíð- ina með riffil um öxl. Þá hafði hann komið auga á rjúpur í fjarska, hlaupið niður í bíl að ná í skotvopnið og aftur upp í fjall í hnédjúpum snjó – og náði að sjálf- sögðu rjúpunum. Hélt svo áfram að mæla eins og ekkert hefði í skorist. Oddur var ekki margmáll en hann hafði ákveðnar skoðanir og hafði lag á að koma þeim á fram- færi án mikilla láta. Hann bar virðingu fyrir fólki og sýndi vænt- umþykju án málalenginga. Með Oddi er genginn merkur maður og góður vinur. Hann skil- ur eftir sig farsælt starf sem á eft- ir að gagnast snjóflóðafræðingum um ókomna tíð. Harpa Grímsdóttir. Gömul minning er greypt í hugann. Framundan læknum og kirkjuturninn ber í Arnarnes, okkar bestu mið. Tveir stálpaðir strákar sitja í lítilli bátskel á logni fjarðarins í kvöldskugga fjallsins og draga þaraþyrsklinga. Fara í land með 15 fiska, upp með sér af aflanum og búbótinni sem þeir færa heim. Þessi minningarmynd varð kveikjan að einni sögunni í bókinni Í flæðarmálinu (1988). Við, krakkarnir fimm á Græna- garði, Gunnar, Oddur og Unnur upp frá og við Haddi niður frá, við ólumst upp svo nánir að kalla hefði mátt okkur sem eins konar óformleg systkin. Feður okkar stjórnuðu netaverkstæðinu og mæður okkar voru nánar vinkon- ur. Við áttum saman Pollinn fyrir fiskinn og hlíðarnar og dalina fyr- ir skíðin og vorum í Ármanni inni í sveitinni og æfðum af kappi svig og göngu. Veröld okkar var lokuð umhverfis af háum fjöllum sem voru líkt og vernd, nema hvað þau báru í sér ótta við snjóflóð. Æskuvinátta hverfur aldrei þótt leiðir skilji og vík sé milli vina. Unnur giftist burt og er dáin fyrir mörgum árum. Við Haddi fórum ungir, en Gunnar og Oddur fóru hvergi og helguðu bernsku- stöðvunum líf sitt. Og enn lifir Skutulsfjörður innra með mér, enda forsenda fyrir því sem ég er. Nú er Oddur horfinn og skilur eftir sig sáran söknuð, þótt við höfum ekki sést nema stopult hin síðari ár. Hann bölvaði meira en aðrir menn, en það var alltaf vin- gjarnlegt og fráleitt illa meint. Hann var ævinlega mildur í skapi og hógvær, hæglátur að yfir- bragði, en gat verið fastur fyrir einsog títt er um Vestfirðinga. Engan mann held ég að hann hafi viljað skaða, enda var hann vin- sæll og naut virðingar, og ekki að ástæðulausu. Traustur var hann jafnan og einlægur sínum og það verður sjónarsviptir að honum í byggðarlagi fjarðarins okkar. Þegar maður er kominn á þennan aldur getur maður sagt með skáldinu: Mínir vinir fara fjöld, feigðin þessa heimtar köld. Ég kem á eftir, kannski í kvöld. (Bólu-Hjálmar) Og nú kveð ég æskuvin minn: Farðu vel, bróðir og vinur. Við Haddi sendum Lenu og öll- um afkomendum þeirra Odds innilegar samúðarkveðjur. Njörður P. Njarðvík. ✝ Anna GuðnýJóhannsdóttir fæddist á Hrauni, Borgarfirði eystra, 31. júlí 1928. Hún lést 23. maí á hjúkr- unarheimilinu Lundi á Hellu. Foreldrar henn- ar voru þau Jóhann Helgason, f. 30. desember 1891 í Njarðvík, bóndi á Ósi, Borgarfirði eystra, og kona hans Bergrún Árnadóttir, f. 3. október 1896 í Brúnavík. Anna giftist Áskeli Torfa Bjarnasyni, f. 14. september 1926, hinn 23. maí 1953. Hann var sonur Bjarna Bjarnasonar, f. 23. apríl 1889, d. 29. ágúst 1952, og Önnu Guðrúnar Áskels- dóttur, f. 7. mars 1896, d. 24. febrúar 1977. Anna Guðný átti þá dótturina Bergrúnu Jóhönnu Borgfjörð, f. 27. júlí 1948, d. 4. desember 2012. Eftirlifandi maki Jóhönnu er Ásgeir Arn- grímsson, f. 3. apríl 1949, bóndi í Brekkubæ, Borgarfirði eystra. Börn Önnu og Áskels eru: Árni, f. 6. febrúar 1953, maki Jóhanna Mar- ín Jónsdóttir. Bjarni, f. 25. októ- ber 1954, maki Ingibjörg H. Sig- urðardóttir. Guð- mundur Sveinn, f. 13. október 1956, maki Þóra Bjarna- dóttir. Guðni Torfi, f. 6. apríl 1959, sambýliskona Júl- íana Hilmisdóttir. Gestur, f. 6. júní 1961, maki Sigríður Kjart- ansdóttir. Þau Áskell kynntust á Borgarfirði þar sem Áskell hafði komið vestan af Ströndum til að stunda sjóróðra. Þau fluttu til Vestmannaeyja 1955 og bjuggu þar í 10 ár. Árið 1965 fluttu þau til Þorlákshafnar, þar sem þau áttu heima í tæp 50 ár. Síðustu árin áttu þau heima á hjúkrunarheimilinu Lundi, Hellu og þar lést Áskell hinn 24. febrúar 2017. Útför Önnu Guðnýjar fer fram frá Þorlákskirkju í dag, 1. júní 2018, kl. 14. Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við minnumst tengdamóður okkar eru orð eins og „kraftur og dugnaður“. Anna gerði ekkert með hangandi hendi og skipti þá ekki máli hvort það voru heimilisstörfin eða garð- vinnan. Hún vann utan heimilis- ins í mörg ár, bæði í fiski og og við þrif en aldrei kom það niður á heimilinu þar var alltaf allt „spikk og span“, heimilislegt og notalegt að koma í heimsókn. Hún hringdi oft í okkur og bauð í kaffi. Þá var búið að baka stóran stafla af heimsins bestu pönnukökum eða lummum, krakkarnir fóru í heita pottinn og við hin spjölluðum. Yndislegar og ómetanlegar stundir sem ylja að leiðarlokum. Við fórum oft saman í verslun- arferðir til Reykjavíkur eða á Sel- foss, t.d. á vorin og fyrir jólin, því Önnu fannst mikið atriði að eiga fín föt. Í einni slíkri ferð var búið að sýna henni nokkrar flíkur sem kom til greina að kaupa. Henni leist vel á, gekk hreint til verka eins og alltaf og keypti þær bara allar! Í annarri innkaupaferð, sem við rifjum oft upp okkur til skemmtunar, var hún komin vel yfir áttrætt. Hana vantaði buxur og afgreiðslustúlkan fann einar til sem henni fannst að myndu ganga. Anna var nú ekki sammála því og afþakkaði því þær væru allt of kerlingalegar! Hún var alltaf svo hreinskilin þessi elska. Þótt Anna hafi alla tíð verið hrein og bein og sagt það sem henni fannst þá var hún um leið svo hlý og umhyggjusöm. Það sýndi sig best í því hve barna- börnin sóttu mikið til ömmu og afa. Hún var tilfinningarík en sýndi það ekki mikið út á við. Hún vildi horfa fram á veginn en ekki velta sér upp úr hinu liðna. Hún stóð af sér storma í lífsins ólgusjó með miklu æðruleysi, vissi að sumum hlutum var ekki hægt að breyta og hélt áfram með lífsgleðina að vopni. Hún var sterk en samt svo hlý og góð. Það er ekki hægt að skrifa um Önnu án þess að nefna Ása og þeirra hjónaband, því það var ein- stakt. Þau voru í raun mjög háð hvort öðru. Það sýndi sig síðastliðið ár, eftir að Ási kvaddi okkur, en Önnu reyndist erfitt að sætta sig við að hann væri farinn. Hún ímyndaði sér að hann væri á sjón- um og kæmi bráðum heim. Sam- rýndari hjón eru vandfundin og voru þau ávallt eins og kærustu- par í tilhugalífinu. Þau voru kímin og kát og leið svo vel saman. Síðustu fimm árin bjuggu þau á Dvalarheimilinu Lundi á Hellu. Þar var mjög vel hugsað um þau og heimilið yndislegt eins og Anna sagði alltaf: „Þær eru svo góðar við okkur“. Alveg fram að síðustu stundu talaði hún um að fara heim. Nú er hún komin heim til hans Ása síns og táknrænt að dánardag hennar bar upp á 65 ára brúðkaups- afmæli þeirra. Okkar langar að þakka starfs- fólkinu á Egilsbraut 9 og Dvalar- heimilinu Lundi fyrir umönn- unina, einstaklega góða vináttu og hlýhug í þeirra garð. Blessuð sé minning þín, elsku Anna. Þínar tengdadætur, Sigríður og Þóra. Elsku fallega og kraftmikla amma mín. Þær eru dýrmætar minning- arnar sem ég á með þér. Ég sótti mikið í að vera hjá ykkur afa og brölluðum við margt saman á Reykjabrautinni. Þar bakaði ég með ykkur kleinur og góðu randalínuna þína og vorum við mikið úti í garði að huga að blóm- unum þínum og fuglunum hans afa. Þú áttir svo fallegan garð. Ég elskaði þegar þú sagðir mér sög- ur, þá sérstaklega frá gömlu tím- unum á Borgarfirði eystra. Þið afi sóttuð mikið í að vera þar, enda dásamlegur staður og gott að vera á Ósi. Olla systir þín var oft með ykkur þar og þótti mér nú stundum nóg um þegar þið voruð að rífast. Vissulega gátuð þið samt alls ekki án hvor annarrar verið. Þessi einstaki systrakær- leikur minnir mig oft á okkur Bergrúnu. Húmorinn hjá ykkur afa var aldrei langt undan og höfðuð þið gaman að lífinu og kunnuð svo sannarlega að njóta þess að vera til. Þú varst oft að hvetja mig til að djamma og skemmta mér meira, enda hélduð þið afi víst bestu partíin og voruð hrókur alls fagnaðar. Þú taldir verkin aldrei eftir þér og þoldir ekki þá sem latir voru og værukærir. Og mikið er ég sammála þér. Það fór ekki fram hjá neinum ef þér líkaði ekki við fólk, það þurfti oft ekki orð til. Við pabbi erum sögð hafa þetta frá þér. Það er besta hrós sem ég fæ. En þrátt fyrir þessa hreinskilni varst þú á sama tíma svo hlý og góð við þá sem þér þótti vænt um og sýndir það bæði í orðum og gjörðum. Þér þótti afar vænt um fjölskylduna þína og bauðst okk- ur oft í pönnukökur og lummur. Mikið voru þetta góðar samveru- stundir. Þú hafðir alltaf hreint og fínt í kringum þig og fórst alla leið í öllu sem þú tókst þér fyrir hend- ur. Þú bakaðir til dæmis 5 kg af kleinum í einu en ekki 1 kg – það tók þú nú ekki að byrja á því. Þú áttir líka sex börn, þar af fimm stráka. Það hefur eflaust oft verið fjör á heimilinu en þú sagðist nú ekki vilja hafa það öðruvísi. Stelp- ur væru miklu flóknari og oft erf- iðari og leiðinlegri en strákar. Það sagðir þú hiklaust við okkur stelpurnar en hreinskilni fór þér vel og varst þú virt fyrir það. Fyr- ir þremur árum klippti ég hárið mitt upp að eyrum og varst þú fljót að segja hversu búlduleit ég væri með svona hár. Ég var ekki ánægð með þessa athugasemd en hló samt bara að þér. Ég tók reyndar mark á orðum þínum og verið með sítt hár síðan. Mikið er það ljúfsárt að sjá á eftir þér. Síðan afi fór frá okkur hefur lífið ekki verið eins fyrir þig og þú sættir þig ekki við það að hann væri farinn. Þér þótti betra að hugsa til þess að þú ættir von á honum af sjónum. Þið voruð svo ótrúlega góðir vinir og búin að vera gift í 65 ár. Þér fannst túrinn ansi langur svo ég held að þú haf- ir ákveðið að mæta honum á miðri leið, á brúðkaupsdaginn sjálfan. Þín ömmustelpa, Kristrún. Elsku amma mín. Mikið dásamlega var ég heppin að fá þig sem ömmu mína. Alveg frá því að þú lést þig hafa það að fljúga með mömmu heim eftir að ég fæddist hefurðu kennt mér svo ótalmargt og ég er svo þakklát fyrir það. Það var alltaf tilhlökkun þegar þið afi voruð á leiðinni til okkar á Borgarfjörð á sumrin. Hvort sem það var að spjalla saman, bölva henni Revu í Leiðarljósi, fara í stelpuferð með þér og mömmu eða syngjandi kátar í gítarpartíi skemmtum við okkur vel saman. Það var bara svo endalaust mikil gleði og kátína í kringum þig. Við vorum oft sammála um hlutina. Við vorum líka oft gríðarlega ósammála, enda tel ég að mína ákveðni og þrjósku hafi ég fengið í beinan kvenlegg frá ykkur mömmu. Þú komst alltaf fram við mig sem jafningja og það er nokkuð sem var ómetanlegt. Alltaf gat ég farið til Þorlákshafnar er lífið varð of þreytandi í borginni eftir að ég flutti þangað, hvort sem það var bara til að hvíla mig eða fá kjöt og karrí og spjall. Eftir að mamma lést var huggandi að rúnta til ykkar afa á Hellu og liggja bara aðeins við hliðina á þér og tala um allt og ekkert. Ég elska þig, elsku amma. Ég veit að mamma og afi hafa tekið þér fagnandi og þið eruð nú sam- an í gleðisveiflu í sumarlandinu. Enn er mér í muna manstu allt var hljótt. Ein við máttu una úti þessa nótt. Yfir hvelfdist húmið heiðarvötnin blá. Og hinn blíðasti blær bar okkur landi frá. (Magnús Stefánsson og Þórólfur Friðgeirsson) Þín Aldís Fjóla. Elskuleg móðursystir mín, Anna Jóhannsdóttir, er látin. Anna var mikil uppáhalds- frænka. Skemmtileg og alltaf hress. Hún var uppalin í stórum systkinahópi á Borgarfirði eystra, þangað sem hún sótti allt- af mikið. Vann alla tíð verkamanna- vinnu með stóru heimili. Við unnum saman nokkur sumur á barnaheimili, hjá Ingu systur hennar á Ökrum. Þar kynntist ég verklagni hennar og einstökum dugnaði. Fyrir mörgum árum heimsóttu þau Ási okkur til Lúxemborgar og dvöldu nokkrar vikur. Þá var ég að kvarta um að sófasettið við sjónvarpið væri orðið ljótt. Ekkert mál fyrir Önnu, keypt efni og saumað nýtt utan um það í hvelli. Alltaf gott að koma til hennar og Ása í Þorlákshöfn, sem alltaf var opið fyrir gesti og gangandi. Anna missti mikið þegar Jó- hanna dóttir hennar lést langt fyrir aldur fram og svo lést Ási í fyrra. Anna dvaldi síðustu árin á dvalarheimili á Hellu, var í fal- legri íbúð og vel hugsað um hana. En henni leiddist, var komin allt- of langt frá Þorlákshöfn þar sem vinir hennar og hluti af fjölskyld- unni búa. Við Doddi og börnin sendum samúðarkveðjur til strákanna fimm og þeirra fjölskyldna og til Ásgeirs og hans fjölskyldu á Borgarfirði. Því miður getum við ekki verið við útför Önnu. Tóta frænka (Þórhildur Hinriksdóttir). Anna Guðný Jóhannsdóttir Í gær kvöddum við kæra vinkonu okkar, Birnu Geirs- dóttur, hinstu kveðju. Hún hefur nú fengið hvíldina eftir að hafa barist hetjulega og af æðruleysi við illkynja sjúkdóm, sem hún greindist með fyrir þremur ár- um. Í síðasta mánuði áttum við ljúfar stundir með þeim Garðari vestur á Flórída og þó að mjög væri af henni dregið bar hún sig ótrúlega vel þrátt fyrir mikla vanlíðan, sem þessum vágesti fylgir. Á þessari stundu leita á hug- ann ljúfar minningar liðinna daga. Þær voru ófáar hestaferð- irnar, sem við fórum í með þeim hjónum, ýmist um óbyggðir landsins eða fagrar og blómlegar Birna Hjaltested Geirsdóttir ✝ Birna Hjalte-sted Geirs- dóttir fæddist 11. október 1944. Hún lést 21. maí 2018. Útför Birnu fór fram 31. maí 2018. sveitir sunnan- og vestanlands og naut Birna sín einkar vel á hestbaki enda var hún lagin við hesta. Þá eru óteljandi minningar tengdar Hreðavatni og Snæ- fellsnesi, en þar fannst henni gott að vera í nánum tengslum við nátt- úruna. Birna var ekki bara glæsileg kona heldur var hún einstaklega vel gerð manneskja, vel gefin og glaðvær. Hún var traustur vinur vina sinna og vinmörg. Hún bjó manni sínum og dætrum, Mar- gréti Birnu og Helgu Maríu, glæsilegt heimili og voru þau hjón höfðingjar heim að sækja, og ánægjulegt að njóta einstakr- ar gestrisni þeirra. Birna var heimsborgari. Hún ólst að nokkru leyti upp í Svíþjóð þar sem Geir faðir hennar stund- aði viðskipti. Hún bjó í nokkur ár í New York þar sem hún starfaði við fyrirsætustörf á sjöunda ára- tugnum. Hún hafði gaman af því að ferðast um heiminn og þau Garðar fóru alloft í siglingar og slógumst við hjónin tvívegis í för með þeim um Karíbahafið og Eyja- og Miðjarðarhaf. Þar naut Birna sín vel, enda var hún fagur- keri og hafði mikið dálæti á að punta sig upp á kvöldin og njóta síðan ljúffengra veitinga, enda var hún matgæðingur og sjálf listakokkur. Lengst af okkar búskapartíð vorum við nágrannar í Skerja- firði, aðeins eitt hús milli okkar húsa. Birna var í eðli sínu mikið náttúrubarn og lét sér annt um allt líf í kringum sig. Hún hafði græna fingur og lagði sérstaka rækt við að annast blómin og trjágróðurinn og voru þau hjón oft heilu dagana að dunda sér í garðinum. Það er skarð fyrir skildi og söknuðurinn mikill, en mestur er missir ástvina Birnu. Við vottum Garðari, Margréti Birnu, Helgu Maríu, fjölskyldum þeirra og öðr- um aðstandendum innilega sam- úð. Anna og Jón Ingvarsson. Fyrir mistök birtist þessi minningargrein ekki með öðrum greinum um Birnu í gær. Morgunblaðið biðst velvirðingar á því. Allar minningar á einum stað MINNINGAR er fallega innbundin bók sem hefur að geyma æviágrip og allar minningargreinar sem birst hafa um viðkomandi í Morgunblaðinu eða á mbl.is. Bókina má panta á forsíðu mbl.is eða á slóðinni mbl.is/minningar. Hægt er að kaupa minningabækur með greinum sem birst hafa frá árinu 2000 til dagsins í dag.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.