Skírnir - 01.09.2015, Blaðsíða 12
Forsetinn sagði að lausnin á aðsteðjandi vanda íslenska lýðveldis-
ins væri að gera nýjan samfélagssáttmála:
Til að nýta þessi fjölþættu tækifæri, færa öllum skapandi vinnu og fjöl-
skyldum viðunandi efnahag, þurfum við Íslendingar sem fyrst að ná
samstöðu um endurgerð þjóðfélagsins, um réttlátara og lýðræðislegra sam-
félag, um sáttmála sem mótaður yrði í krafti hinnar öflugu umræðu sem
einkennt hefur viðbrögð þjóðarinnar.
Slíkir sáttmálar voru kjarninn í hugmyndum sem heimspekingar fyrri
alda gerðu að grundvelli hins vestræna lýðræðis, þjóðfélagssýnar sem óf
saman gildin sem hafa ætti að leiðarljósi. Sjálfstæðisbarátta okkar Íslendinga
var öðru fremur háð með vísan í formlegan rétt, ákvæði í stjórnarskrá, upp-
gjör við Dani, deilur um ríkisráð og sambandslög, en umræðunni um gerð
og grunngildi samfélagsins vikið um of til hliðar.
Nú þurfum við í kjölfar hinnar erfiðu reynslu að gefa okkur tíma til að
móta sáttmála um samfélagið, ræða efni hans og áherslur á opnum fundum,
á vettvangi skóla og atvinnulífs, í félagasamtökum, sveitastjórnum, á
Alþingi og í fjölmiðlunum, sækja í smiðju annarra þjóða, meta eigin sögu,
arfleifðina, hugmyndir heimspekinga sem lögðu grundvöll að lýðræðinu.
Í slíkri umfjöllun hefðu allir ótvíræðan rétt til að láta í sér heyra, bæði
málfrelsi og tillögurétt. Ef vel tækist til kæmi til greina að sáttmálinn yrði
svo staðfestur í sérstakri atkvæðagreiðslu því gerð hans myndi byggja á
valdinu sem er hjá fólkinu í landinu, þjóðinni sjálfri. (Ólafur Ragnar Gríms-
son 2009a)
Á Austurvelli og á götum Reykjavíkur stigmögnuðust mótmælin
gegn stjórnvöldum og lá við að ofbeldi væri beitt. Ástandið var
orðið hættulegt. Þann 26. janúar 2009 baðst stjórn Geirs H. Haarde
lausnar. Forsetinn samþykkti beiðnina samdægurs. Andstætt fyrri
venju óskaði hann ekki eftir að forsætisráðherra og ríkisstjórn sæti
áfram þar til nýr forsætisráðherra og ný ríkisstjórn tæki við. For-
setinn taldi að enginn forsætisráðherra væri við völd og hann einn
færi tímabundið með völdin í landinu, þar á meðal þingrofsréttinn.6
312 svanur kristjánsson skírnir
6 Sjá „Forseti lagði línurnar“ 2009. Samkvæmt fréttinni sagði forsetinn m.a. að ekki
væri starfandi neinn forsætisráðherra í landinu sem gæti sett fram beiðni um þin-
grof. Þingrofsvaldið væri því „eingöngu í höndum forsetans eins og sakir standa“.
Sjá einnig „Forsetinn útvíkkar vald sitt“ 2009. Formlega séð fór ríkisstjórn Geirs
H. Haarde ekki frá völdum fyrr en 1. febrúar 2009, um leið og ríkistjórn Jóhönnu
Sigurðardóttur tók við.
Skírnir Haust 2015 NOTA ÞESSA.qxp_Layout 1 19.10.2015 10:51 Page 312