Skírnir - 01.09.2015, Blaðsíða 102
menningarlegt samfélag, sem felur í sér að fleiri en „innfæddir“ Ís-
lendingar nota tunguna. Og notkun erlendra mála, ekki síst ensku
eykst jafnt og þétt. Hvaða stöðu hefur íslenska sem þjóðtunga í
slíku samfélagi við hliðina á ensku og öðrum tungum? Hérlendar
rannsóknir á þessu eru á algeru frumstigi en það er að sama skapi
nærtækt verkefni fyrir Háskóla Íslands að leita skilnings á þessum
þáttum. Ekki er síður áhugavert að skoða spurningar um gildi og
stöðu tungumálsins út frá bókmenntafræði eða menningarfræði, að
ógleymdri kvikmyndafræði, en enska virðist orðið opinbert tungu-
mál kvikmyndahúsa og dægurmenningar á Íslandi. Hér er verk að
vinna.
Ekki hafa síður átt sér stað breytingar í kenningum í bók-
menntafræði en í málvísindum, sem auk sagnfræðinnar sjálfrar
skiptu mestu máli í hinum gömlu íslensku fræðum. Margar breyt-
ingar í hugvísindum við HÍ tengjast vexti og viðgangi þessara greina
sem sjálfstæðra fræðigreina með eigin rannsóknarspurningar, tilgátur
og aðferðir. Sumt tengist tækniframförum, ekki síst tilkomu tölva
sem öflugra hjálpartækja í rannsóknum. Tengsl hafa myndast milli
málvísinda og greina eins og stærðfræði, rökfræði, tölvunarfræði,
sálfræði og félagsvísinda. Á sama hátt hefur bókmenntafræði þróast
býsna langt sem sérstök fræðigrein og er allt önnur en sú bók-
menntasaga sem kennd var á fyrri hluta síðustu aldar. Auk þessa
hafa komið til sögunnar nýjar fræðigreinar, svo sem mannfræði,
þjóðfræði og félagsfræði, sem ekki eru síður fallnar til þess að sinna
rannsóknum á því sem við viljum kalla íslenska menningu.
Íslensk fræði sem háskólagrein
Athugum fullyrðingu þess efnis að íslensk fræði sem sérstök
fræðigrein sé óþörf; það orðalag megi að vísu nota um öll „fræði“
sem eru „íslensk“, til dæmis í þeim skilningi að þau séu stunduð á
Íslandi eða af íslenskum fræðimönnum; íslensk eðlisfræði sé þá sú
eðlisfræði sem Íslendingar (íslenskir eðlisfræðingar) stunda, íslensk
efnafræði eða jarðfræði þær sem íslenskir efnafræðingar og jarð -
fræðingar stunda, fást við íslensk efnasambönd eða jarðform, ís-
lensk málvísindi, þau málvísindi sem Íslendingar stunda eða sem
402 kristján árnason skírnir
Skírnir Haust 2015 NOTA ÞESSA.qxp_Layout 1 19.10.2015 10:51 Page 402