Breiðfirðingur - 01.04.1955, Page 42
40
BREIÐFIRÐINGUR
þó að eitt og annað kunni að geymast í handritum eftir
hann.
Nú, þegar Sveinbjörn er horfinn sjónum, finnst mér og
vafalaust mörgum, að slitinn sé sterkur þáttur, sem tengdi
okkur fortíð. Hjá honum var tíðast að finna týnda þráðinn,
þegar reynt var að rifja upp minningar um horfnar kyn-
slóðir, atburði og atvik, til gamans og fróðleiks.
Auk fræðilegra rannsókna sinna á ýmsum austfirzkum
og breiðfirzkum ættum, er Sveinbjörn skráði, hefur hann
reist sér bautastein á æskustöðvunum, sem lengi mun geyma
nafn hans. Það er Persónusaga Flateyjarhrepps, er hann
tók að sér að safna til og skrá fyrir Framfarastofnun Flat-
eyjar, í samráði við séra Sigurð Haukdal, þáverandi prest
í Flatey.Þetta mikla verk, sem ber vott um elju og atorku
og hæfni Sveinbjarnar til ritstarfa, er nú í geymslu bóka-
safnsins í Flatey, í handriti, en traustu skinnbandi, er
Tryggvi sonur hans hefur gert. Er rit þetta, ásamt mynda-
safni, vafalaust sérstakt í sinni röð.
Góður drengur er genginn. Hvar sem hann fór fylgdi
honum birta og hlýja, og með hverju æviári hans stækkaði
vinahópurinn. Hið hreina barnseðli hans óx aldrei frá hon-
um. Eins og augu barnsins leita birtunnar, þannig beindi
hann alla ævi sjón sinni í leit að björtu hliðum lífsins, og
hann fann þær.
Jafnvel í skugga andstreymis og sorgar skein honum það
ljós, sem hann að leiðarlokum stefndi öruggur að.
G. Jóh.