Litli Bergþór - 01.07.2017, Blaðsíða 6

Litli Bergþór - 01.07.2017, Blaðsíða 6
6 Litli-Bergþór Ritstjórnargrein Það er þannig með okkur mannfólkið og sköpunarverk okkar, að við eigum okkar tíma. Tíminn getur verið bæði ástmögur okkar og besti vinur, og líka versti óvinur eða andstæðingur. Tíminn leiðir okkur áfram, án þess nokkuð verði að gert og með honum tekur flest á sig, smátt og smátt, nýjar myndir. Það sem í dag er í blóma lífsins, sjálfsagður hlutur, „hipp og kúl“, ungt og fallegt eða nýjasta tíska, verður orðið gamalt, úrelt, slitið eða þreytt á morgun. Aldrei í veraldarsögunni hafa breytingar átt sér stað hraðar. Þó maðurinn eldist með sama hraða og fyrr, nær hann alla jafna hærri aldri og upplifir meiri breytingar á æviskeiði sínu en mannkynið hefur áður upplifað. Það er maðurinn sjálfur sem veldur þessum breytingum. Þær eru honum að þakka. Þær eru honum líka að kenna. Án efa velta margir fyrir sér hvort svo sé komið, að maðurinn sé að missa tökin á þessari þróun; hvort of hratt sé farið eða brunað áfram án nægilegrar fyrirhyggju. Litli Bergþór, blað Ungmennafélags Biskupstunga, hefur nú verið gefinn út samfellt frá árinu 1980, eða í ein 37 ár. Á mælikvarða blaða eða tímarita verður þetta að teljast langur tími. Óhjákvæmilega er þetta blað háð tímanum eins og allt annað, bæði að því er varðar útlit, útgáfuaðferð og innihald. Þegar útgáfa þess hófst var textinn sleginn með ritvél á blekstensla. Kannski veit ungt fólk nú hvað ritvél var, en kannast varla við orðið „blekstensill“. Þegar ljóst var orðið að blaðið höfðaði til sveitunganna eða brottfluttra, tók það að þróast í takt við þá prenttækni sem efnahagur þess leyfði hverju sinni og svo er enn. Það er ýmislegt, sem gæti orðið til þess, að Litli-Bergþór, í núverandi mynd, deyi drottni sínum. Hér eru tilgreindar nokkrar hættur sem steðja að: Öldrun áskrifenda Tryggir áskrifendur til áratuga, eldast og hverfa á braut, og það koma ekki nýir áskrifendur í staðinn. Hversvegna ættu yngri kynslóðir að gerast áskrifendur að svona blaði? Því er harla auðvelt að svara, enda ástæðurnar margar, þó hér verði aðeins nefndar tvær: tengslin við upprunann og að komast í kynni við samfélagið sem fólkið býr í. Útgáfutækni Miðlar eru í æ ríkari mæli að færast á rafrænt form. Þeir lifa þar eða deyja. Þeir sem enn eru gefnir út á pappír, lifa aðallega á auglýsingatekjum eða með stuðningi fjársterkra aðila. Blöð á pappír í áskrift eru varla til lengur, svo heitið geti, enda þarf hugsjón til að eyða peningum í áskrift að blöðum sem maður fær send í pósti og segja má að hugsjónir séu deyjandi fyrirbæri. „Það er nú allt í lagi að ræða við alvörumann um efnisöflun“ Páll M. Skúlason:

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.