Litli Bergþór - 01.07.2017, Blaðsíða 22

Litli Bergþór - 01.07.2017, Blaðsíða 22
22 Litli-Bergþór Leikskólinn Álfaborg Lambadalur Í Lambadal, yngri deild leikskólans, er ávallt líf og fjör. Mestu máli skiptir að börnunum líði vel og finni fyrir öryggi. Við veitum þeim hlýju, umhyggju og sýnum þeim festu. Rík áhersla er lögð á vináttuna; að börnin sýni hvert öðru vinsemd í orðum og gjörðum. Þau eru hvött til að hjálpast að, deila með sér hlutum og skiptast á. Við tölum mikið um það að vera vinur og mikilvægi þess að vera góður við aðra til þess að eignast vini. Frjálsi eða sjálfsprottni leikurinn er í hávegum hafður hjá okkur. Í gegnum hann eflist félagsfærni barnanna og við gætum þess að leikefnið sé börnunum sem aðgengilegast, bæði fyrir ýmsa borðvinnu, leik á gólfinu og síðast en ekki síst hlutverkaleikinn/ þykjustuleikinn. Í tónlistarstundum hafa þau meðal annars verið að læra muninn á veikum og sterkum hljóðum, klappa eftir atkvæðum (t.d. nöfnin sín), þau hlusta og dansa við tónlist og fá að prófa ýmis hljóðfæri. Í myndlistinni gera þau alls konar listaverk, bæði einstaklings og sameiginleg, og kynnast þannig ólíkum efnivið og þjálfa fínhreyfingar. Í íþróttahúsinu, ásamt börnunum í eldri deild leikskólans, fá þau útrás fyrir hreyfiþörfina, fara í alls konar þrautabrautir og leiki, leika frjálst með bolta og fleira sem er í boði. Útikennslan fær sífellt meira vægi hjá okkur og nýtist vel í að kenna börnunum að bera virðingu fyrir náttúrunni okkar. Þau hafa farið í gönguferðir og týnt rusl og lært í kjölfarið að ruslið á að fara í ruslafötur eða ruslapoka. Yngri börn Lambadals hafa einnig farið í myndlist í vetur, kynnst hljóðfærum í gegnum leik og fengið líkamlega útrás og styrkingu í útiverunni. Við erum að safna efnivið í svokallaðan könnunarleik (rannsóknar- leikur), sem ætlaður er fyrir börn á aldrinum 1-3 ára. Efniviðurinn þarf að vera mjög fjölbreyttur svo börnin fái sem mesta örvun út úr leiknum. Það geta verið þvottaklemmur (tré), allskonar borðar, keðjur af ýmsum stærðum, könglar, sleifar, ausur, krukkulok (málmur, plast), hurðarhúnar (tré), gardínuhringir. Svona mætti lengi telja og ef þið lumið á einhverju af þessu tagi og viljið losa ykkur við, þá tökum við fagnandi á móti. Sólar- og sumarkveðjur Eyrún Ósk, deildarstjóri Lambadals. Einu sinni í viku hafa elstu börn Lambadals farið í skipulagðar stundir í tónlist, myndlist og íþróttum. Þar læra þau að vera í hóp, að taka tillit til hvers annars, að hlusta og að fara eftir fyrirmælum. Greipur Guðni og Thelma Rán hjálpast að við að byggja turn. Leikið með hljóðfæri. frá vinstri Sara Katrín, Ólafur og Þorleifur Máni. Leikið með snjó og dýr inni. Frá vinstri Hallgrímur Valur, Greipur Guðni, Sara Katrín, Aðalbjörg og Ólafur. Málað. Frá vinstri Emelía Ísold og Aðalbjörg. Áki Hlynur og Thelma Rán vatnslita.

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.